Þjóðarréttur Íslendinga
Það er með mikilli ánægju, jafnvel stolti sem við landsmenn höfum neytt brauðtertunnar í gegnum árin og fleiri en ætla mætti keppst um að matreiða hana sem allra best.
Mikill metnaður er gjarnan lagður í verkið og kom því ekki á óvart þegar blásið var til formlegrar Íslandsmeistarakeppni í brauðtertugerð fyrir nokkrum árum. Sú hefð hefur haldist og voru vinningshafarnir í ár kynntir nú á degi brauðtertunnar.
Þrettándi nóvember ár hvert er sem sé dagur brauðtertunnar – en í viðtali Fréttablaðsins 2019 við Sigga Hall matreiðslumeistara, kemur fram að hann telji víst að brauðtertan sem slík sé í grunninn íslenskt fyrirbæri. Birtist viðtalið í kjölfar fyrstu brauðtertusamkeppni sem haldin var formlega hér á landi, þá í Listasafni Reykjavíkur á menningarnótt. Brauðtertufélag Erlu og Erlu stóð fyrir keppninni en keppt var til verðlauna í þremur flokkum, hver væri sú fallegasta, frumlegasta og bragðbesta. Frést hefur þó til brauðtertumenningar á Norðurlöndunum, þá helst frá Svíum, en þeir halda Smörgåstårtans daginn heilagan. Svíar eru harðir brauðtertuaðdáendur og eru nokkuð vissir um að hafa verið þeir fyrstu sem uppgötvuðu þá dásemd. En sitt sýnist hverjum.
Ávallt móðins
Brauðtertur hafa að minnsta kosti glatt Íslendinga síðan miðvikudaginn 29. apríl 1953, en þá birtist í Þjóðviljanum uppskrift að brauðtertu í heimilisþætti blaðsins. Var henni lýst sem hentugri og ákaflega tilvaldri fyrir spila- og saumakvöld og kostnaður við eina slíka færi alfarið eftir innihaldi tertunnar. Þar tóku húsmæður formbrauð sem þær sneiddu varlega langsum og smurðu salati gerðu úr eggjum og hangikjöti milli sneiðanna. Árið 1983 voru menn orðnir djarfari og í nóvemberriti Eldhúsbókarinnar var allvígaleg rækjubrauðterta á forsíðunni auk þess sem á síðu tvö var svokallaðri „fimmlaga veislubrauðtertu“ lýst af ákafa, með þeim fyrirvara þó að brauðtertan sé „[...]geysistór og hentar því aðeins stórum veislum“. Þar fengu lesendur að kynna sér gerð kringlóttra brauðtertna sem þóttu afar móðins. Ein slík var brauðterta með eggjum og kokteilpylsum, en sú var fyllt með dýrindis fyllingu sem þætti heldur óvanaleg í dag, m.a. var hún smurð lifrarkæfu blandað með viskíi.
Ef einhver vill spreyta sig á þeirri veislu má sjá uppskriftina hér í boxi að neðan.
Brauðtertur hafa haldið velli öll þessi ár og þótt og þykja enn ómissandi á mannamótum allt frá skírnarveislum til jarðarfara. Hin klassíska íslenska terta er þekktust með hangikjöts- eða rækjusalati og skreytt sítrónum, dilli, vínberjum eða öðrum lystilegum afskurði en yfir árin hafa komið ýmsar misskemmtilegar útfærslur af þessum þjóðarrétti sem á alltaf við, sama hvert tilefnið er.
Íslandsmeistaramótið í brauðtertugerð 2024
Úrslit frá Íslandsmótinu í brauðtertugerð voru kynnt við mikinn fögnuð þann 13. nóvember sl. í útgáfuhófi Stóru brauðtertubókarinnar, en uppskriftir að verðlaunatertunum frá Íslandsmótinu er einmitt að finna í bókinni ásamt fjölda annarra girnilegra uppskrifta.
Verðlaunaafhending var í húsakynnum Hússtjórnarskólans í Reykjavík, en Marta María Arnarsdóttir skólameistari segist reyna að samþykkja allar skemmtilegar fyrirspurnir sem henni berast og þetta hafi sannarlega verið ein þeirra. Mikil stemning var hjá nemendum skólans sem útbjuggu lystilega vel gerðar brauðtertur fyrir gestina undir stjórn matráðar skólans, Guðrúnar Sigurgeirsdóttur, en þeim var skolað niður með kampavíni. Friðrik V. Hraunfjörð matreiðslumeistari, þekktur undir nafninu Friðrik fimmti, var þeim einnig innan handar enda vanur handverksmaður, ekki síst þegar kemur að brauðtertuskreytingum.
Svala Sveinbergsdóttir og tengdasonur hennar, Guðmundur Kristinsson, unnu Íslandsmeistaratitilinn í brauðtertugerð en verðlaunabrauðtertan var rækjuterta sem var bæði unaður á að líta og smakkaðist vel. Sonur Svölu, Hilmar Daníelsson, tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd en það var 120 þúsund kr. gjafabréf hjá Icelandair.
Í Stóru brauðtertubókinni má finna tertuna undir heitinu Brauðterta Purpurarósarinnar, bæði falleg, góð og frumleg samkvæmt dómnefnd.
Aðrir verðlaunahafar voru þau Steinunn Erla Sigurðardóttir fyrir fallegustu brauðtertuna; hangikjötstertu, Magnús I. Björgvinsson fyrir bragðbestu brauðtertuna; rækjutertu, Berglind Ellý Jónsdóttir fyrir þá frumlegustu; rækju og Ritz- kex tertu og sérstök verðlaun hlaut Ingimar Flóvent Marinósson fyrir þá sem paraðist best við kampavín; túnfisktertu.
Brauðtertufélag Erlu og Erlu á Facebook
Má sjá að gengi brauðtertunnar er síður en svo á undanhaldi, enda stofnuðu stöllurnar Erla Hlynsdóttir og Erla Gísladóttir Brauðtertufélag Erlu og Erlu bæði í gamni og alvöru árið 2019. Í dag eru í þessu félagi um 18.000 einlægra aðdáenda um brauðtertur, sem skiptast á ráðum, uppskriftum og almennum fróðleik þessarar ljúffengu menningararfleifðar.
Áhugafólk ætti því endilega að kanna málið á samfélagsmiðlinum Facebook og ekki halda aftur af sér heldur ganga í félagið.