Loftmynd af landbúnaðarlandi í Illinois-ríki í Bandaríkjunum, en alls eru 96 prósent býla fjölskyldubú.
Loftmynd af landbúnaðarlandi í Illinois-ríki í Bandaríkjunum, en alls eru 96 prósent býla fjölskyldubú.
Mynd / We Are The 96 Campaign
Utan úr heimi 3. janúar 2025

Bændur standa frammi fyrir mikilli óvissu undir stjórn Trumps

Höfundur: Owen Roberts, kennari í landbúnaðarsamskiptum við Háskólann í Illinois og fyrrverandi forseti Alþjóðasamtaka landbúnaðarblaðamanna. Greinin er lauslega þýdd á íslensku af Guðrúnu Huldu Pálsdóttur.

Bandarískir bændur glíma við svipaðar áskoranir og starfssystkini þeirra annars staðar, svo sem loftslagsbreytingar, óstöðuga markaði, áskoranir á sviði sjálfbærni og neytendamála. En það sem skilur þá frá öðrum er verðandi forseti þeirra, Donald Trump, og sú mikla óvissa sem kjör hans skapar í bandarískum landbúnaði.

Owen Roberts.

Þann 6. nóvember sl. sigraði Trump andstæðing sinn, varaforsetann Kamölu Harris, með óvæntum yfirburðum. Margir spáðu því að yfirgengileg framganga Trumps og ákærur á hendur honum myndu fæla kjósendur. Á móti var Harris lýst í fjölmiðlum sem „skemmtilegu frænkunni“ sem boðaði einhvers lags eðlileika sem margir Bandaríkjamenn þráðu.

Hins vegar var kosningabarátta Harris sett saman í flýti og skorti dýpt, aðallega vegna óvæntrar ákvörðunar Joe Bidens forseta um að draga sig úr framboði eftir að baráttan hófst. Kjósendur refsuðu Harris fyrir að takast ekki á við reiði þjóðarinnar gagnvart málum sem höfðu kraumað á hennar vakt, sérstaklega hvað varðar ólöglega innflytjendur og háan kostnað heimilanna.

Mikilvægt vinnuafl

Bæði þessi mál tengjast landbúnaði. Samkvæmt nýjustu rannsókn á bandarískum landbúnaðarstarfsmönnum eru næstum helmingur þeirra óskráðir innflytjendur án atvinnuleyfis. Sú tala er líklega vanmetin vegna ótta svarenda slíkra kannana við að viðurkenna ólöglega stöðu sína.
Á kosningaferðum tengdi Trump, að hluta til, háan framfærslukostnað (sérstaklega húsnæðiskostnað) við fjölda innflytjenda í Bandaríkjunum sem ykju álag á húsnæðismarkaðinn. Hann hélt því einnig fram að þeir bæru óeðlilega mikla ábyrgð á glæpum og lofaði kjósendum sínum fjöldabrottvísunum.

Ef af slíkum brottvísunum verður vekur það spurningar innan landbúnaðargeirans. Hverjir munu þá uppskera bandarískar afurðir, sérstaklega í afkastamiklum hlýjum ríkjum eins og Kaliforníu sem venjulega sjá þjóðinni fyrir megninu af vetrargrænmeti, ávöxtum og mjólkurvörum? Hverjir munu þá vinna þau láglaunastörf í þjónustugeiranum sem nýir innflytjendur sinna svo oft?

Þetta mun hafa áhrif á framfærslukostnað. Þrátt fyrir að verð á matvælum í Bandaríkjunum hækki hægar nú eru þau þó hærri en Bandaríkjamenn eru vanir. Verðið gæti hækkað enn meir ef skortur verður á vinnuafli.

Nautgriparækt er ein helsta tekjulind bandarísks landbúnaðar. Mynd / Kaleb Reid

Tapaðar útflutningstekjur vegna tollverndar

Á sama tíma eru Bandaríkin að upplifa versnandi viðskiptahalla. Trump kennir ódýrum innflutningi um – þar á meðal á landbúnaðarvörum – sem skapar óhagkvæmni fyrir bandaríska framleiðslu, sem aftur leiðir til atvinnumissis. Hann telur því bandarískan iðnað þurfa vernd. Í kosningabaráttunni lofaði Trump því að leggja tolla á allan innflutning: 10-20 prósent yfir heildina og 60 prósent á innflutning frá Kína. Trump beitti svipaðri aðferð í fyrri forsetatíð sinni árið 2018. Það leiddi til viðskiptastríðs við Kína, sem er venjulega stór kaupandi bandarískra sojabauna og maíss. Kína fann sér hins vegar önnur viðskiptalönd, eins og Brasilíu. Samkvæmt landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna kostuðu tollar bandaríska framleiðendur 27 milljarða dollara í tapaðan útflutning á árunum 2018-2019, sem leiddi til þess að stjórnvöld þurftu að grípa framleiðendur með neyðaraðstoð. Viðskiptalönd Bandaríkjanna segja að ekki sé lengur hægt að treysta á stöðugleika bandarískrar framleiðslu, sem vekur spurningar um útflutningsmarkaði til framtíðar.

Stórtæk jarðvinnsla á bandarískum akri. Mynd / Kaleb Reid

Versnandi afkoma

Afkoma bænda hefur versnað þrjú ár í röð, hún er sérstaklega áberandi hjá kornframleiðendum. Spáð er sjö prósenta framleiðsluaukningu á sojabaunum í ár miðað við í fyrra og maísframleiðsla verður lítillega minni.

Góð uppskera í ár þýðir að markaðurinn er mettaður og korn því ódýrt. Aðföng, svo sem áburður og fræ, eru þó enn dýr. Samtals hafa hreinar tekjur kornbænda dregist saman um 23 prósent síðan árið 2022.

Samkvæmt bandarísku bændasamtökunum veldur kostnaður vegna vinnuafls, vextir og skattar ásamt samdrætti í ríkisstyrkjum verulegum vandræðum fyrir bandaríska bændur. Samtökin segja framleiðendur „fjárhagslega viðkvæma nú þegar þeir horfa fram á annað erfitt ár“. Framleiðendur eru því að halda aftur af fjárfestingum, til dæmis hefur vélasala dregist saman um 14 prósent í október 2024 miðað við árið áður, og samanlagt hefur salan dregist saman um 35 prósent.

Ef horft er til jákvæðari fregna um bandarískan landbúnað þá gengur vel í nautgriparækt. Verð á nautakjöti er í hæstu hæðum vegna mikillar eftirspurnar og töluverður framboðsskortur hefur verið á markaði. Þurrkar í vestri skertu beitiland svo bændur þurftu að minnka hjarðir sínar. Bandarískt nautakjöt er þó mjög eftirsótt vara og heldur áfram að seljast þrátt fyrir hækkandi verð. Því er búist við aukinni framleiðslu.

Kornuppskera í Illinois. Afkoma bænda hefur versnað þrjú ár í röð, sérstaklega hjá kornframleiðendum. Mynd / We Are The 96 Campaign

Ný lagaumgjörð og nýir ráðherrar

Í farvatninu er einnig ný lagaumgjörð um landbúnað. Landbúnaðarlögin (e. Farm Bill) er mikilvægasta lagasetning bandarísks landbúnaðar, en lögin hafa verið á bið í meira en ár. Lögin, sem eru venjulega endurskoðuð á fimm ára fresti, fjalla bæði um afkomu bænda, taka á hlutum eins og tryggingarvernd, en er einnig víðari lagaumgjörð sem fjallar t.d. um tilhögun skólamáltíða og mataraðstoð fyrir lágtekjufjölskyldur. Lagaumgjörðin er talin vera allt að billjón dollara virði.

Rétt er að geta þess að Robert F. Kennedy jr., meðlimur hinnar þekktu Kennedy-ættar, hefur nú stigið inn á landbúnaðarsviðið með afgerandi hætti. Kennedy, sem er t.d. þekktur andstæðingur notkunar plöntuvarnarefna og baráttumaður fyrir bættri heilsu, var ráðgjafi Trumps í kosningunum og líklegur til að fá áhrifaríka stöðu innan nýrrar ríkisstjórnar. Kennedy hefur sagt að hann telji bandarísku þjóðina veika, sem er erfitt að mótmæla, enda 40 prósent Bandaríkjamanna of feitir. Hann hefur boðað að „gera Bandaríkin heilbrigð að nýju“ með því að taka á stórum framleiðslubúum og notkun þeirra á plöntuvarnarefnum, sem hann segir skaða þjóðina.

Þá vona bandarískir bændur að nýr landbúnaðarráðherra, Brooke Rollins, vegi að einhverju leyti upp almenna fáfræði Trumps á málefnum landbúnaðar. Rollins er fædd í Texas, með gráðu í leiðtoga- og þróunarmálum, auk þess að vera lögfræðingur – og afar dyggur stuðningsmaður Trumps.

Rollins mun hafa yfirumsjón með landbúnaðarráðuneytinu sem samanstendur af 29 stofnunum með um 100.000 starfsmönnum á meira en 4.500 stöðum víða um Bandaríkin og utan þess. Þekking hennar á landbúnaðargeiranum er hins vegar takmörkuð. Hún gegndi forystuhlutverki innan nýsköpunar í fyrri ríkisstjórn Trumps, sem gæti reynst mikilvægur akkur fyrir rannsóknir og þróun í matvælaframleiðslu.

Árið 2025 verður án efa ár aðlögunar fyrir Bandaríkin og bandaríska bændur. Með loforðum Trumps um breytingar, um betri tíð og betra líf með Bandaríkin í forgrunni, er ljóst að framtíðin verður allt annað en fyrirsjáanleg. Hver veit nema eitthvað batni, vafalaust mun margt breytast – og kannski fyrir fullt og allt.

Duroc-grísir á spena. Mynd / Spencer Jack

Nokkrar tölur um bandarískan landbúnað:

  • Landbúnaður skapaði 526 milljarða dala í tekjur árið 2023, helmingur tekna er reiknaður sem afkoma vegna búfjárræktar og helmingur í hvers konar jarðrækt.
  • Helstu tekjulindir bandarísks landbúnaðar eru: nautgripir, maís, sojabaunir, mjólkurvörur og kjúklingar.
  • Landbúnaður, matur og tengdar greinar lögðu fram 1,53 trilljónir dala í landsframleiðslu árið 2013, eða 5,6% af heildarlandsframleiðslu þjóðarinnar.
  • Mestu framleiðsluríkin eru Kalifornía, Iowa, Nebraska, Texas og Illinois.
  • Flestir bændur (97%) eiga fjölskyldubýli og teljast ekki til stórfyrirtækja.
  • Talið er að 14% þjóðarinnar eigi erfitt með að útvega nægan mat fyrir fjölskyldur sínar.
  • Viðskiptahalli er talinn hafa verið 198 milljarðar dala í innflutningi og 196 milljarðar í útflutningi árið 2022.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...