Nú er Dacia Duster ekki bara hagstæður jepplingur sem ræður vel við torfærur, heldur er hann einnig orðinn sérlega aðlaðandi á að líta.
Nú er Dacia Duster ekki bara hagstæður jepplingur sem ræður vel við torfærur, heldur er hann einnig orðinn sérlega aðlaðandi á að líta.
Mynd / ál
Vélabásinn 2. janúar 2025

Ekkert kjaftæði hér

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýjan Dacia Duster í Extreme-útfærslu. Hér er á ferðinni jepplingur sem er fær í flestan sjó á hagstæðum kjörum.

Þessi nýjasta kynslóð Dacia Duster er orðin áberandi aðlaðandi að utan. Allar línur eru orðnar skarpari og minnir framendinn aðeins á Jeep Grand Cherokee. Hann er kubbslegur og stuttur og er hátt undir lægsta punkt.

Innréttingin er meira og minna öll úr dökku og hörðu plasti og heyrist tómahljóð hvar sem bankað er. Þrátt fyrir ódýr efni hefur mikið verið lagt í hönnunina og innréttingin aðlaðandi á að líta. Þá er ekki ósennilegt að hart plastið sé endingargott og þægilegt í þrifum.

Lítill en nothæfur snertiskjár

Framan við ökumanninn er skjár sem sýnir það helsta sem viðkemur akstrinum. Í miðju innréttingarinnar er nokkuð lítill snertiskjár, en stýrikerfið er með skýrri og aðlaðandi valmynd sem er erfitt að hallmæla. Á skjánum eru mikilvægir flýtihnappar alltaf aðgengilegir, eins og fyrir hita í sætum og stýri. Hægt er að tengja símann þráðlaust með Android-Auto og Apple CarPlay og næst sambandið hratt og örugglega við upphaf hverrar ökuferðar. Extreme-útgáfan af Duster er með myndavélar á öllum hliðum og nálægðarskynjara að framan og aftan, á meðan Expression-útfærslan er eingöngu með bakkmyndavél og bakkskynjara.

Neðan við skjáinn er renna af raunverulegum tökkum þar sem hægt er að stjórna miðstöðinni. Á milli sætanna er snúningstakki þar sem valið er á milli akstursstillinga, ýmist fyrir torfærur eða akstur á malbiki við ólíkar aðstæður. Framan við miðjustokkinn eru bakki og hilla. Þar er þetta sama sleipa og harða plast og annars staðar í innréttingunni sem verður til þess að allt sem er geymt þar rennur til þegar tekið er af stað. Í þessum bíl er engin þráðlaus hleðslustöð fyrir síma en nokkur USB-C hleðslutengi.

Í píláranum vinstra megin í stýrinu eru takkar til að stjórna hraðastillinum og hægra megin eru hnappar til þess að fletta í gegnum aksturstölvuna í skjánum framan við ökumanninn. Að auki við þessar tvær hefðbundnu stangir aftan við stýrið er þriðja stöngin sem hefur að geyma hnappa til að stjórna útvarpinu.

Innréttingin er úr hörðu og ódýru plasti en smekklega hönnuð.

Sæti mjúk en vantar stuðning

Framsætin eru mjúk en ekki nema í meðallagi þægileg þar sem það skortir víða á stuðning, eins og við mjóbak. Að auki við hinar hefðbundnu stillingar, eins og að færa sætið fram og aftur og breyta hallanum á bakinu, getur bílstjórinn hækkað og lækkað sessuna. Það er sennilega óþarft að taka fram að allt er þetta gert handvirkt.

Áklæðið á sætunum er dökkt og skilja minnstu matarleifar eftir áberandi bletti, sem er reyndar auðvelt að ná úr með rakri tusku. Rýmið í aftursætunum er með besta móti og ættu þrír fullorðnir að geta setið þar án vandræða. Skottið er rúmgott og þegar aftursætin eru lögð niður eru þau svo gott sem flöt og flútta við gólfið í skottinu. Skotthlerinn er stór og er neðri hlutinn í sömu hæð og gólfið.

Plássið í aftursætunum er til sóma.

Ekki allir fjórhjóladrifnir

Duster fæst sjálfskiptur en þá er hann eingöngu framhjóladrifinn. Bíllinn í þessum prufuakstri er með sex gíra beinskiptingu og drifi á öllum hjólum. Kúplingsfetillinn er léttur og er sex þrepa gírkassinn lipur í notkun þó hann verði seint kallaður sportlegur.

Nú hafa dísilvélarnar dottið út af sakramentinu og verða allir nýir Dusterar með bensínvélar hér eftir, ýmist með tvinnkerfi eða léttu tvinnkerfi (e. mild hybrid). Fjórhjóladrifnu og beinskiptu bílarnir eru með síðarnefnda kerfinu.

Hestöflin 130 skila bílnum áreynslulaust að umferðarhraða. Togið er þokkalegt miðað við að þetta sé bensínhreyfill og er það sennilega tvinnkerfinu að þakka þar sem lítill rafmagnsmótor styður við aðalvélina á lægri snúningum. Ökumaðurinn þarf því ekki að hræra stanslaust í gírkassanum í innanbæjarakstri, þó þetta jafnist ekkert á við dísilbíla. Á móti kemur að bensínvélin er sérlega þýð með lágmarks titring og hávaða.

Eins og gengur og gerist í nýjum bílum í dag kemur viðvörunarhljóð þegar ekið er yfir hámarkshraða. Þar sem Dacia er dótturfyrirtæki Renault er sama kerfið í Duster og í Renault Scenic sem var fjallað um í síðasta blaði, það er hnappur í mælaborðinu til þess að slökkva á pípinu. Undirritaður áttaði sig ekki á því strax að það er hægt að stilla hvað þessi takki gerir og slökkti því óafvitandi á akstursaðstoð og fleiri öryggiskerfum í leiðinni.

Hafi ökumaðurinn ekki drepið á öllum kerfum er þægilegt að njóta stuðnings akstursaðstoðarinnar, en hún grípur inn í þegar óviljandi er ekið yfir hvíta línu. Hraðastillirinn í Duster er af gamla skólanum, en hann bregst ekki við þegar bíllinn fyrir framan hægir á sér og heldur ekki við þegar ekið er niður brattar brekkur.

Á þessum bíl eru 217 millimetrar undir lægsta punkt, sem er sambærilegt og hjá alvöru jeppum.

Að lokum

Samkvæmt framleiðanda á bensíneyðslan að vera í kringum sex lítra á hverja hundrað kílómetra, en í þessum prufuakstri sýndi aksturstölvan sjö lítra í blönduðum aðstæðum. Bíllinn er ekki stór, eða 4.343 millímetra langur, sem gerir hann tæpum fjórum sentímetrum lengri en Toyota Corolla hlaðbakinn.

Duster er hins vegar áberandi hár og kraftalegur í samanburði við jepplinga af svipaðri stærð, eins og Hyundai Tucson, Nissan Qashqai eða Kia Sorento. Flestir aðrir jepplingar í þessum stærðarflokki eru eins og upphækkaðir fólksbílar á meðan Duster er eins og samanskroppinn fjallajeppi. Þá eru 217 millímetrar undir lægsta punkt, sem er svipað og hjá Toyota Land Cruiser 250. Þessir bílar munu því eflaust halda áfram að sjást í röðum á vinsælustu áfangastöðunum á hálendi Íslands, enda Duster með allt til slíkra ferðalaga.

Að mati þess sem þetta ritar er Duster einn besti bíllinn sem hefur komið á markaðinn á undanförnum misserum, en hér tekst framleiðandanum að bjóða upp á fallegt ökutæki á hagstæðu verði, með öflugan drifbúnað og mikið rými fyrir farþega og farangur. Framleiðandinn er ekki með neitt kjaftæði.

Dacia Duster í Expression- útfærslu kostar frá 5.990.000 krónum á meðan Extreme-útgáfan sem ritað er um hér kostar 6.390.000 krónur. Áðurnefndir bílar eru báðir beinskiptir með fjórhjóladrifi. Sjálfskiptur og framhjóladrifinn Duster í Extreme-útfærslu kostar 6.290.000 krónur. Öll verð eru með vsk. Nánari upplýsingar fást hjá BL, umboðsaðila Dacia á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Ekkert kjaftæði hér
Vélabásinn 2. janúar 2025

Ekkert kjaftæði hér

Bændablaðið fékk til prufu nýjan Dacia Duster í Extreme-útfærslu. Hér er á ferði...

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...