Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Honda CR-V e:PHEV er vel útbúinn bíll og kraftalegur á að líta. Tengitvinnútgáfan af þessum bíl fæst ekki með fjórhjóladrifi.
Honda CR-V e:PHEV er vel útbúinn bíll og kraftalegur á að líta. Tengitvinnútgáfan af þessum bíl fæst ekki með fjórhjóladrifi.
Mynd / ál
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, sem er stór jepplingur með tengitvinnkerfi.

Hér er á ferðinni sjötta kynslóð af Honda CR-V og hefur bíllinn lengst um tíu sentímetra frá þeirri fyrri sem skilar sér í meira rými fyrir farþega í aftursætum og farangur í skotti. Ytra útlit Honda CR-V er ferskt og smekklegt. Í voldugu grillinu er stórt Honda-merki og eru framljósin grönn og löng. Að aftan eru ljós sem gætu næstum því átt heima á BMW-jepplingi. Bíllinn er nokkuð kraftalegur á að líta þökk sé þakbogum og stórum dekkjum með felgum af hóflegri stærð.

Afturljósin gætu átt heima á BMW-jepplingi.

Hefðbundin innrétting

Þegar sest er um borð tekur á móti manni býsna hefðbundið umhverfi þar sem allt er til staðar og nóg af nytsamlegum tökkum, eins og snúningshnappar fyrir miðstöð og útvarp ásamt hnöppum fyrir hita og kælingu í sætum. Í miðjustokknum er slatti af tökkum, þar af fjórir fyrir gírana sem koma í staðinn fyrir gírstöng.

Ofarlega í miðju mælaborðsins er snertiskjár. Viðmótið í honum getur einstaka sinnum verið ruglingslegt og vegna smæðar skjásins vantar stundum yfirsýn yfir valmyndir. Í ljósi þess að öllum algengustu skipunum er stjórnað með venjulegum tökkum er auðvelt að fyrirgefa stýrikerfi sem er ekki það háþróaðasta á markaðnum. Skjárinn er með innbyggt Android Auto og Apple CarPlay, en það fyrrnefnda virkar ekki nema síminn sé tengdur með snúru. Bluetooth-tengingin við símann er áreiðanleg og fljótvirk.

Eins og í öllum nýjum bílum kvartar þessi þegar ekið er yfir hámarkshraða og þarf að slökkva sérstaklega á viðvörunarhljóðinu í hverri ökuferð. Sá böggull fylgir skammrifi í Honda CR-V að ekki er hægt að komast inn í valmyndina til að skrúfa fyrir hljóðið nema bíllinn sé kyrrstæður og í P.

Þessi bíll er með hefðbundnar stangir við stýrið. Vinstra megin er stefnuljósum og lýsingu stjórnað og rúðuþurrkum hægra megin. Á endunum á þessum stöngum eru nytsamlegir takkar, en þegar ýtt er á hnappinn hægra megin virkjast 360 gráðu myndavélakerfið. Með því að þrýsta á takkann vinstra megin kemur upp mynd í skjáinn sem samsvarar sjónarhorninu úr hliðarspeglinum hægra megin.

Í pílárunum í stýrinu eru takkar fyrir hraðastilli og akstursaðstoð hægra megin og útvarp vinstra megin. Í stafnum neðst er takki fyrir hita í stýrinu. Framan við ökumanninn er sjónlínuskjár sem varpar helstu upplýsingum um aksturinn á framrúðuna.

Innréttingin er hefðbundin með tökkum fyrir algengustu skipanir.

Rúmgóð sæti

Í miðjustokknum eru tveir glasahaldarar og undir armhvílunni er lokað hólf sem er nokkuð grunnt. Hanskahólfið er af miðlungsstærð en hurðavasarnir eru drjúgir. Fremst í miðjustokknum er bakki þar sem hægt er að leggja farsíma í þráðlausa hleðslu. Í þakinu er gleraugnahólf, en ef það er opnað hálfa leið birtist kúptur spegill sem sýnir vel hvað er í gangi í aftursætunum.

Framsætin eru þægileg og rúmgóð. Fólk af flestum stærðum og gerðum ætti að geta komið sér vel fyrir, enda stillimöguleikarnir margir og allt gert með rafmagni. Í aftursætunum rúmast þrír fullorðnir einstaklingar ágætlega. Þau eru á sleða og er hægt að stilla hallann á bakinu. Þeir allra hávöxnustu gætu rekið höfuðið í þakið þar sem það er dregið niður til að rúma topplúguna. Skottið er 617 lítrar með sætin uppi.

Aftursætin rúma þrjá fullorðna einstaklinga.

Blindir punktar í lágmarki

Útsýnið úr bílnum er býsna gott, en framrúðan er stór og eru a-bogarnir alls ekki þykkir. Þrátt fyrir að hliðarspeglarnir séu veglegir eru þeir ekki í kverkinni við hliðarrúðuna og því ekki samfelldur blindur punktur milli þeirra og a-boganna. Þá er þessi bíll með 360 gráðu myndavél sem gefur enn betri skynjun fyrir umhverfinu á lægri hraða.

Þar sem þetta er tengitvinnbíll er hægt að aka hann talsvert á rafmagninu einu, eða allt að 82 kílómetra samkvæmt framleiðanda. Jafnvel þó svo að rafhlaðan hafi ekki verið hlaðin lengi heldur bíllinn eftir einhverri hleðslu til þess að nýta í innanbæjarakstur. Bensínvélin fer því sjaldan í gang á lægri hraða sem skilar sér í hljóðlausum akstri án alls titrings. Þó svo að hljóðvistin sé almennt góð er eitthvað um nið frá vetrardekkjunum sem bergmálar um farþegarýmið á hærri hraða.

Fjöðrunin er nógu mjúk til þess að óþarft er að stressa sig of mikið á holum eða grófum hraðahindrunum. Akstursaðstoðin heldur bílnum á miðri akrein af ágætlega miklu öryggi. Bíllinn er jafnframt með fjarlægðartengdan hraðastilli sem stendur sig yfirleitt vel. Hluti þessa prufuaksturs átti sér stað í úrhellisrigningu og myrkri, en við þær aðstæður duttu hraðastillirinn og akstursaðstoðin út vegna óhagstæðs skyggnis. Honda CR-V er alls ekki eini bíllinn þar sem þetta gerist.

Skottið er 617 lítrar með sætin uppi.

Að lokum

Þessi bíll er með 17,7 kílóvattstunda rafhlöðu sem knýr 135 hestafla rafmagnsmótor og 2.000 rúmsentímetra bensínvél sem skilar 148 hestöflum.

Akstursdrægnin samkvæmt framleiðanda er allt að 82 kílómetrar. Helstu mál eru í millimetrum: Lengd, 4.706; breidd, 1.866; hæð, 1.684.

Sá bíll sem ritað er um í þessum pistli var af Advance Tech gerð sem er með veglegasta staðalbúnaðinn og kostar 9.290.000 krónur með vsk. Sá ókostur fylgir tengitvinnútgáfu af Honda CR-V er að bíllinn er eingöngu fáanlegur með framhjóladrifi, á meðan hefðbundni tvinnbíllinn er með drifi á öllum hjólum. Þetta atriði mun eflaust beina mörgum kaupendum í átt að fjórhjóladrifnum tengitvinnbílunum, eins og Kia Sorento eða Toyota Rav4, sem eru álíka stórir og á svipuðu verði. Þeir sem láta skort á fjórhjóladrifi ekki trufla sig fá í Honda CR-V rúmgóðan og sparneytinn bíl með hárri sætisstöðu og sérstaklega gott orðspor þegar kemur að endingu.

Skylt efni: prufuakstur

Ekkert kjaftæði hér
Vélabásinn 2. janúar 2025

Ekkert kjaftæði hér

Bændablaðið fékk til prufu nýjan Dacia Duster í Extreme-útfærslu. Hér er á ferði...

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...