Alvöru fjallajeppi
Bændablaðið fékk til prufu nýjustu kynslóð hinna vinsælu Land Cruiser-jeppa frá Toyota. Þessi bíll ber heitið 250 og tekur við af 150, sem hefur verið framleiddur með ýmsum breytingum frá 2009. Hér er á ferðinni farartæki með öllu því sem alvöru fjallajeppi þarf að bera.
GX Plus-útfærslan er sú næstódýrasta sem umboðið flytur inn, en hún situr á milli GX og VX. Meðal staðalbúnaðar þessarar útfærslu umfram GX má nefna leðuráklæði á sætum og 360 gráðu myndavél.
Þegar bíllinn er skoðaður að utan sést að framleiðandinn hefur fallið frá þeim mjúku og aflíðandi línum sem hafa einkennt fyrri kynslóðir. Í staðinn hefur verið farin sú leið að útbúa þennan með ferköntuðum ljósum og grilli, ásamt beinum og skörpum línum á öllum hliðum.

Minnst fimmtíu takkar
Innréttingin er ekki síður breytt, en í staðinn fyrir að vera bogalaga einkennist hún af láréttum og lóðréttum línum með nokkuð skörpum hornum. Nóg er af tökkum, en undirritaður taldi allavega fimmtíu í stýri og innréttingu. Þetta er þveröfugt við marga nýja bíla þar sem stefnan er oft að fjarlægja alla takka og færa stjórnun í snertiskjáinn. Þar sem viðmótið í snertiskjánum er nokkuð takmarkað er hægt að þakka fyrir að hafa fýsíska takka fyrir flestar algengustu skipanirnar.
Plássið er með því besta sem gerist og getur Land Cruiser flutt fimm fullorðna einstaklinga af ýmsum stærðum með sóma. Farangursgeymslan er jafnframt stærðarinnar geimur, en bíllinn í þessum prufuakstri var ekki útbúinn aukasætum í skottinu. Ökumannssætið er mjúkt og gefur ágætis stuðning, en ekki mesta lúxussætið á markaðnum.

Kunnuglegir aksturseiginleikar
Aksturseiginleikar þessa bíls ættu að vera kunnuglegir þeim sem hafa kynnst Land Cruiser í gegnum tíðina. Toyota hefur greinilega haldið sig við sömu uppskrift og áður, en að þessu sinni er hún í nýjum umbúðum. Sá sem þetta ritar hefur nokkra reynslu af Land Cruiser 120 og er akstursupplifunin merkilega lík milli þessara tveggja bíla, þó svo að tveir áratugir skilji þá að. Vélarhljóðið, skiptingin og það hvernig bíllinn hagar sér á götunni er keimlíkt.
Þar sem bíllinn er kassalaga í laginu er framrúðan áberandi ferhyrnd og brött. Vegna lögunar framrúðunnar er efri brún hennar aðeins lægri en algengt er og fékk undirritaður kvartanir frá hávöxnum farþega þar sem efri hluti útsýnisins var skertur. Þetta hefur minni áhrif á ökumanninn þar sem hann getur lækkað sætið sitt. Að öðru leyti er útsýnið nær óhindrað allan hringinn, enda stórir gluggar á öllum hliðum og lítið um blinda punkta. Með 35 tommu breytingunni er jeppinn býsna hár og er ánægjuleg upplifun að ferðast á þjóðvegunum á slíku ökutæki og njóta þess að horfa niður á almúgann á sínum fólksbílum og jepplingum.
Vélin er fjögurra strokka, 2,8 lítra og skilar 204 hestöflum. Dráttargetan er 3.500 kílógrömm. Aflið er alveg mátulegt og lítið mál að keyra glannalega fyrir þá sem það vilja. Það finnst hins vegar alltaf hversu þungt ökutækið er og er hraðakstur á hlykkjóttum og mjóum vegum lítil skemmtun. Skynvæddi hraðastillirinn og akstursaðstoðin virka yfirleitt ágætlega á vel merktum vegum og léttir það álagið á ökumanninum.

Tæknibúnaður í torfærum
Átta þrepa sjálfskiptingunni er stjórnað með því að hreyfa til hefðbundna stöng á milli sætanna. Þá eru takkar fyrir hátt og lágt drif og til að læsa millikassanum. Um leið og ekið er út fyrir malbik og möl finnst í hvað peningurinn hefur farið, en Land Cruiser er sannarlega góður í torfærum. Þessi stóru dekk skila sér ekki síst í mikilli veghæð og auknu floti.
Við hliðina á gírstönginni eru takkar til að virkja „hill decent control“ sem heldur við niður brekkur, og „crawl control“ sem er hraðastillir fyrir mjög lítinn hraða í lága drifinu. Hægt er að stilla upp á kílómetra hversu hratt bíllinn ekur. Það kemur sér vel í erfiðum torfærum, enda getur breytt miklu hvort ekið er á fjögurra eða fimm kílómetra hraða.
Land Cruiser hefur allt sem ökutæki þurfa að bera til að fara um allt hálendið að sumri og með 35 tommu breytingunni kemst hann ansi víða að vetri. Í flestum útgáfum eru driflæsingar í afturdrifinu staðalbúnaður, en ekki í GX Plus- bílnum.

Að lokum
Vinsældir þessara bíla hafa verið miklar um árabil sem má eflaust skýra af því að þetta eru vandaðir bílar sem komast ótrúlega mikið. Þá endast þeir von úr viti og er stórmerkilegt að sjá hversu hátt endursöluverðið á þeim er.
Notkunin á Land Cruiser er á ýmsan hátt gamaldags og er augljóst að peningurinn hefur farið í öflugan drifbúnað, áreiðanlega vél og sterka grind, í staðinn fyrir óþarfa lúxus. Það er mikið til af talsvert betri lúxusjeppum og jepplingum á hagstæðara verði en Land Cruiser er sennilega einn traustasti fjallagarpurinn. Þeir sem eru að leita sér að alvörujeppa geta ekki annað en tekið þennan til skoðunar.
Helstu mál eru í millimetrum: Breidd, 1.980; lengd, 4.925; hæð, 1.925 (án breytingar). Veghæð óbreytts bíls eru 205 millimetrar, en 300 millimetra með 35 tommu breytingu. Ódýrastur fæst Land Cruiser í GX-útgáfu á 16.790.000 krónur. Í GX Plus-útfærslu kostar hann 19.390.000 krónur. 35 tommu breyting kostar 1.050.000 krónur. Öll verð eru með virðisaukaskatti. Nánari upplýsingar fást hjá Toyota- umboðinu.