Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Polestar 3 er svipað stór og Volvo XC60. Þetta er smekklega hannaður bíll og þökk sé loftpúðafjöðrun getur veghæðin verið allt að 25 sentímetrar
Polestar 3 er svipað stór og Volvo XC60. Þetta er smekklega hannaður bíll og þökk sé loftpúðafjöðrun getur veghæðin verið allt að 25 sentímetrar
Mynd / ál
Vélabásinn 13. mars 2025

Góður í dreifbýli og borg

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýjan rafmagnsbíl af gerðinni Polestar 3. Þessi bílategund á margt skylt með Volvo og fellur umræddur bíll í sama stærðarflokk og XC60- jepplingurinn.

Að utan fer ekki milli mála að þetta er Polestar. Hann deilir ýmsum einkennum með Polestar 2 sem hefur náð talsverðri útbreiðslu hér á landi. Framljósin eru T-laga eins og á öðrum Polestar og Volvo og á milli þeirra er eftirlíking af grilli. Lagið á bílnum er mitt á milli langbaks og jepplings.

Skandinavískur mínimalismi

Þegar inn er komið blasir við innrétting sem er sérstaklega falleg og öll mínimalísk í skandinavískum anda. Hún er klædd nánast alls staðar með góðu efni og er erfitt að þefa uppi ódýrt plast. Þvert yfir mælaborðinu er listi með áláferð sem rammar inn miðstöðvaropin.

Framan við ökumanninn er lítil aksturstölva með grunnupplýsingum, eins og aksturshraða, drægni, hverjir eru í belti og hámarkshraða. Þar að auki er sjónlínuskjár sem varpar upplýsingum inn á framrúðuna. Í miðju mælaborðsins er snertiskjár og lega hans er á hæðina, ekki breiddina eins og yfirleitt í nýjum bílum. Stýrikerfið er fallegt á að líta og yfirleitt þægilegt í notkun. Neðst á skjánum er borði þar sem er alltaf hægt að komast í stillingar fyrir miðstöð, kveikja á hættuljósum og komast á heimaskjáinn.

Nokkrar villur í stýrikerfi snertiskjásins einkenndu prufuaksturinn og náði undirritaður ekki að leysa úr þeim sjálfur. Helstu vandræðin voru þau að bíllinn tengdist yfirleitt ekki sjálfkrafa við símann, önnur flýtivalmyndin neðarlega á skjánum hvarf á degi tvö og lét ekki sjá sig eftir það og stundum var eins og fjórhjóladrifið dytti út. Svo það komi fram, þá er nokkuð liðið síðan prufuaksturinn átti sér stað og samkvæmt umboðinu hefur framleiðandinn lagfært þessar villur í uppfærslum.

Bíllinn er útbúinn hljóðkerfi frá Bowers & Wilkins sem er býsna gott og fer vel með flestar tegundir tónlistar hvort sem spilað er í hárri eða lágri hljóðstillingu. Í miðjustokknum er einn stór takki og nýtist hann til að kveikja á útvarpinu eða tónlist, hækka og lækka og skipta um lag eða útvarpsstöð. Að öðru leyti eru nánast engir takkar.

Innréttingin er mínimalísk. Snertiskjárinn er hár og mjór

Afar góð sæti

Framsætin eru af allra bestu gerð, bæði mjúk en samt með góðan stuðning. Sessan er breið, stuðningur til hliðanna er ágætur ásamt því að hægt er að lengja sessuna fram til að styðja frekar undir löng læri. Mjóbaksstuðningurinn er stillanlegur á marga vegu.

Í aftursætunum er ágætis pláss. Gólfið er nokkuð hátt en að öðru leyti er nóg pláss fyrir fætur, hné, höfuð og axlir á þremur farþegum. Umhverfið er bjart, þökk sé glerþaki og stórum hliðarrúðum. Á milli aftursætanna er mjúk armhvíla og fremst á henni eru glasahaldarar.

Hægt er að opna og loka skottinu á þessum bíl með því að sveifla fótunum undir stuðarann. Ólíkt því sem er í flestum öðrum bílum þá virkar þessi eiginleiki alltaf á Polestar 3. Skotthlerinn er stór og nær upp á þak. Aftursætin leggjast niður svo gott sem flöt. Gólfið flúttar við skotthlerann og undir því er gott aukahólf. Undir húddinu er geymsluhólf sem er hentugt fyrir hleðslukapla eða annað smádót.

Aftursætin rúma þrjá farþega með sóma.

Sprækur í akstri

Í akstri er bíllinn hljóðlátur og sérlega mjúkur, þökk sé loftpúðafjöðrun. Hægt er að hækka bílinn þannig að undir lægsta punkt eru 25 sentímetrar. Þó svo að Polestar 3 myndi seint teljast til fjallajeppa er hægt að fara áhyggjulaus út fyrir malbik og heflaða malarvegi.

Bíllinn er mjög kraftmikill, eða 489 hestöfl. Á meðan stöðugleikastýringin og spólvörnin eru virk dregur bíllinn verulega úr öllu afli ef hann skynjar að hann sé við það að spóla. Hægt er að slökkva að mestu leyti á þessum kerfum sem gerir bílinn ansi sprækan og skemmtilegan í lélegri færð. Á malarvegi er bíllinn rásfastur, enda fjórhjóladrifinn og finnst vel að hann skilar aflinu þar sem þess er þörf.

Akstursaðstoðin er traustvekjandi. Ökumaðurinn ýtir einu sinni á gírstöngina í akstri og þá sér bíllinn um að halda sér á miðri akrein og vera í hæfilegri fjarlægð frá næsta bíl. Hið hvimleiða hámarkshraðapíp sem er algengt í nýjum bílum virðist ekki vera til staðar í Polestar 3.

Ökumaðurinn fær hins vegar skammir ef hann fylgist ekki nógu vel með veginum. 

Lagið á bílnum er mitt á milli langbaks og jepplings.

Að lokum

Polestar 3 fæst í tveimur útfærslum og er bíllinn í þessum prufuakstri af þeirri ódýrari. Hún nefnist Long Range Dual Motor og kostar frá 13.490.000 krónum. Dýrari týpan heitir Long Range Dual Motor Performance og fæst á 14.490.000 kr. Akstursdrægni á fyrrnefndu týpunni er allt að 610 kílómetrar samkvæmt WLTP-staðlinum, en reikna má með að það sé talsvert minna í raunveruleikanum. Í báðum bílum eru drifrafhlöðurnar 111 kílóvattstundir og taka þær allt að 250 kílóvatta hraðhleðslu. Nánari upplýsingar fást hjá Brimborg, söluaðila Polestar.

Skylt efni: prufuakstur

Gerir út af við drægnikvíða
Vélabásinn 24. apríl 2025

Gerir út af við drægnikvíða

Hér er einblínt sérstaklega á hvernig Tesla Model 3 Long Range reynist í landsho...

Tékkarnir klikka ekki
Vélabásinn 27. mars 2025

Tékkarnir klikka ekki

Bændablaðið fékk til prufu nýja kynslóð af hinum vinsælu Skoda Kodiaq, sem er st...

Góður í dreifbýli og borg
Vélabásinn 13. mars 2025

Góður í dreifbýli og borg

Bændablaðið fékk til prufu nýjan rafmagnsbíl af gerðinni Polestar 3. Þessi bílat...

Áður óþekkt tegund fundin
Vélabásinn 13. febrúar 2025

Áður óþekkt tegund fundin

Bændablaðið fékk til prufu dýrustu útgáfu Xpeng G9 sem nefnist Performance. Hér ...

Alvöru fjallajeppi
Vélabásinn 30. janúar 2025

Alvöru fjallajeppi

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu kynslóð hinna vinsælu Land Cruiser-jeppa frá ...

Eftirminnilegustu tæki ársins
Vélabásinn 16. janúar 2025

Eftirminnilegustu tæki ársins

Á síðasta ári voru 22 tæki tekin fyrir í Vélabásnum hjá Bændablaðinu. Hérna verð...

Ekkert kjaftæði hér
Vélabásinn 2. janúar 2025

Ekkert kjaftæði hér

Bændablaðið fékk til prufu nýjan Dacia Duster í Extreme-útfærslu. Hér er á ferði...

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...