Draumur að rætast
Nýir garðyrkjubændur tóku við rekstri garðyrkjustöðvarinnar Reykáss í Brekkuhlíð fyrr á árinu. Þau Oddrún Ýr Sigurðardóttir og Þorleifur Þorri Ingvarsson hyggja á samspil grænmetisframleiðslu og hestamennsku.
Þorleifur er menntaður garðyrkjufræðingur og Oddrún Ýr Sigurðardóttir er búfræðingur, þroskaþjálfi og reiðkennari frá Hólum að mennt, auk þess að vera í kennaranámi við Háskóla Íslands. Þau fluttu í Skeiða- og Gnúpverjahrepp fyrir nokkrum árum með þá stefnu að kaupa sér jörð og hefja búskap.
„Ég var í Garðyrkjuskólanum þegar við fluttum hingað austur með það að leiðarljósi að fara út í þetta. Ég hef alltaf haft gaman af garðyrkju, var mikið í skógrækt með afa mínum þegar ég var yngri og hef síðan alltaf verið með annan fótinn í skrúðgarðyrkju og hinu og þessu. Mamma mín hefur verið að tala um Garðyrkjuskólann við mig í tuttugu ár svo ég ákvað að prófa. Það byrjaði ekki vel, skólinn hrundi, svo kom Covid en þetta hafðist þó að lokum,“ segir Þorleifur.
Hesthús og gróðrarstöð
Þorleifur sér um daglegan rekstur á stöðinni en Oddrún sér um launamál og annað sem við kemur rekstrinum en auk þess starfar hún sem kennari við Þjórsárskóla. Draumur hennar er að byggja íbúðarhús og hesthús á jörðinni. „Þorleifur plataði mig hingað til að skoða stöðina. Ég var nú bara að skoða en hann var að fara til að kaupa hana. Hér erum við og getum látið drauma okkar beggja rætast. Þegar við fluttum austur var það stefnan að eignast jörð og vera okkar eigin herrar; vera með hross og gróðrarstöð, en ég bjóst nú kannski ekki alveg við svona stórri stöð. Þetta hefur gengið vonum framar en það var hér rosalega góður rekstur og við búum vel að fyrri eigendum.“
Garðyrkjustöðin Reykás var stofnuð árið 1998 af þeim Sólveigu Sigfúsdóttur og Reyni Jónssyni en þá voru þau aðallega með útiræktun. Árið 2006 að var byggt 2.016 fm gróðurhús fyrir gúrkur og árið 2011 var reist 1.440 fm gróðurhús fyrir tómatrækt og 2016 var byggt annað 1.440 fm gróðurhús með pökkunaraðstöðu. Þá bættist salatræktun við starfsemina árið 2018. Reynir rekur einnig fyrirtækið NPK, ásamt Gunnari Th. Gunnarssyni, en það fyrirtæki er leiðandi í sölu á rekstrarvörum og í þjónustu við garðyrkjubændur.
„Við þekktum Sólveigu og Reyni ekki en ég hafði fyrst samband til að fá vinnu en síðan kom þetta tækifæri og ákváðum við að slá til,“ segir Þorleifur en vistaskiptin hafa gengið vel. „Þau standa við bakið á okkur og ég get alltaf fengið ráðleggingar og aðstoð frá þeim. Ég var búinn að vera hér í viku áður en við tókum við 1. júní. Þann 3. júní fóru þau út á ráðstefnu þannig ég fékk eldskírn í nokkra daga. Ég heyri alltaf í Reyni af og til en það er margt sem maður þarf að læra því hver stöð er sérstök. Hann er alltaf við símann og tilbúinn að koma og leiðbeina manni sem er ómetanlegt. Annars væri þetta ekki hægt,“ segir Þorleifur.
Rækta alla salatskálina
Í dag er fyrst og fremst framleitt salat, gúrkur og tómatar í Reykási en í framtíðinni sjá þau Þorleifur og Oddrún fyrir sér að stækka og bæta við ræktunina.
„Við erum líka með grænkál og steinselju í einhverju magni. Í kaupunum fengum við 2.500 fermetra í viðbót sem við getum farið að rækta í. Ég er svolítið spenntur fyrir heilsárs ræktun á papriku en þá er maður kominn með alla salatskálina. Við eigum líka tún hérna sem við getum verið með útiræktun,“ segir Þorleifur en Oddrún segist þó ætla að fá að nota hluta túna fyrir hrossin og fái kannski 500 fermetra sem uppistöður fyrir hesthús.
Raforkuverðið galið
Hingað til hefur rekstur gengið vel og engin stór skakkaföll orðið á vegi þeirra. Þeim blöskrar hins vegar raforkuverðið og hefur Oddrún birt nokkra pistla um málið á samfélagsmiðlum sínum. Að þeirra sögn hefur raforkuverðið hækkað um fjórðung á aðeins hálfu ári.
„Raforkuverðið er stærsta áskorunin í rekstrinum. Þegar við tökum við þá göngum við ekki inn í neinn samning. Það var munnlegt samkomulag að við myndum gera það en það var ekki staðið við það. Í tvo mánuði stuttu eftir að við tókum við vorum við að borga krónu meira fyrir hverja kílóvattstund af þessari 5.000 fermetra stöð en við gerðum heima hjá okkur í 124 fermetra húsi. Það var smá biti,“ segir Þorleifur.
Oddrún segir að þau hafi fengið örlitla leiðréttingu á því en segir þó að raforkuverðið sé galið. „Öllum samningum við garðyrkjubændur verður sagt upp nú um áramótin og á það eftir að hafa afleiðingar. Þetta er orðið þannig að raforkuverð á mánuði er orðið rúmlega launakostnaðurinn, við erum ekki að tala um einhverja hundrað þúsund kalla heldur milljónir. Ef þetta heldur svona áfram verður minna framboð á íslensku grænmeti, verð til neytenda mun hækka og engin nýliðun í greininni. Við erum eyja úti í ballarhafi og ættum að geta verið sjálfbær með allt en með svona áframhaldi verðum við það ekki. Maður getur alveg orðið klikkaður á að tala um þetta. Þetta er svo mikil bilun.“
Þau vilja sjá garðyrkjubændur flokkaða sem stórnotendur á raforku og samið verði við þá þannig. „Stóriðjan er að fá lægsta verðið. Það er enginn að segja mér það að allir grænmetisbændur á Íslandi flokkist ekki undir stóriðju. Þetta er eitthvað sem þarf að berjast fyrir. Við munum aldrei gefast upp og höldum áfram með hnefann á lofti og látum heyra í okkur hvað þetta varðar á meðan hlutirnir eru óbreyttir.“
Þau eru farin að leita annarra leiða í raforkuframleiðslu en Þorleifur hefur verið að kynna sér sólar- og vindorku. „Ég er búinn að vera í viðræðum við sólarsellu- og vindmyllufyrirtæki í Þýskalandi til að koma fyrir hérna. Átta mánuði á ári gæti þetta létt vel undir. Við búum það vel hérna, öfugt við marga aðra, að við höfum mikið land í kringum okkur að hægt væri að setja slatta undir sólarsellur. Á meðan ástandið er svona þarf maður að skoða alla möguleika. Ég er alveg tilbúinn að skoða vindorkuna líka en erfiðara yrði að fá það samþykkt hjá nágrönnum og öðrum.“
Ekkert frí
Í garðyrkjustöðinni vinna átta manns með Þorleifi og segjast þau vera heppin með starfsmenn. Öll hafi þau unnið lengi í Reykási en þrír starfsmenn hafi starfað þar í um 20 ár. Unnið er á hverjum degi enda tekur grænmeti sér ekki helgarfrí.
„Hér er unnið á hverjum degi, á virkum dögum er þetta frá átta til rúmlega fjögur og síðan er það misjafnt um helgar, allt frá tveimur tímum og upp í sex. Fer bara eftir því hvað þarf að gera mikið og hvað náðist að gera í vikunni á undan. Við verðum að skera gúrkur á hverjum degi og nýtum helgarnar í að pakka. Tómatarnir eru síðan þrisvar í viku en mesta vinnan er í kringum gúrkurnar, þær vaxa svo hratt.“
Þetta er kunnuglegt stef í eyrum bænda en þeir þekkja það flestir að frítími er af skornum skammti og orðið veikindadagur jafnvel ekki til í þeirra orðabók. „Ábyrgðin er líka öll á manni sjálfum svo þú getur ekkert mætt illa fyrirkallaður eða verið veikur heima. Maður verður bara að mæta. Ég var hér brjóstbeinsbrotinn í fimm vikur. Það var mjög erfitt en það gekk. Hefði alveg verið til í að vera að gera eitthvað annað akkúrat þá en þurfti bara að mæta. Maður þarf að vera svolítið galinn til að vera í þessu,“ segir Þorleifur.
Oddrún hnýtir því við að ef Þorleifur fengi að ráða væri hann í garðyrkjustöðinni allan sólarhringinn. „Það er staðreynd – hann myndi vera hérna alltaf. Þess vegna held ég að sé sniðugast fyrir okkur að deiliskipuleggja fyrir húsi og hesthúsi og flytja hingað sem fyrst.“
Öðruvísi jól
Nú eru jólin fram undan og munu þau Oddrún og Þorleifur eyða þeim að mestu leyti í gróðurhúsinu. Eru þetta fyrstu jólin þeirra sem garðyrkjubændur og munu nýjar jólahefðir myndast.
„Við verðum að vinna öll jólin. Þurfum aðeins að skipuleggja hvernig við ætlum að hafa þetta. Mamma mín verður hjá okkur um jólin og bróðir minn kemur líka eitthvað. Við ætlum að halda eitt jólaboð á jóladag. Það góða við það er að mamma verður þá heima á meðan við förum að vinna og dóttir okkar verður þá ekki ein um jólin,” segir Oddrún. Þorleifur er strax kominn með lausn á jólaboðinu og bendir á borðið í kaffistofunni í garðyrkjustöðinni. „Tilvalinn staður fyrir jólaboðið.“