Hluti af óteljandi eyjum Breiðafjarðar og kröfugerð ríkisins um þjóðlendur. Nýtingarhættir á strandsvæðum kölluðu á að löggjöf þjóðveldisaldar og Jónsbók gerðu grein fyrir eignarréttarlegri stöðu eyja og skerja með heildstæðum hætti.
Hluti af óteljandi eyjum Breiðafjarðar og kröfugerð ríkisins um þjóðlendur. Nýtingarhættir á strandsvæðum kölluðu á að löggjöf þjóðveldisaldar og Jónsbók gerðu grein fyrir eignarréttarlegri stöðu eyja og skerja með heildstæðum hætti.
Mynd / Skjáskot úr kortasjá Óbyggðanefndar
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Höfundur: Jón Jónsson, lögmaður

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar krafa ríkisins kom upphaflega fram setti ég fram gagnrýni á hana, m.a. í grein sem birtist hér 14. mars 2024.

Jón Jónsson.

Gagnrýnin sneri m.a. að því að krafa ríkisins virti ekki lagareglur um netlög, en einnig að fræðiskrif á sviði lögfræði studdu ekki kröfurnar. Ekki væri tækt að varpa þjóðlendufræðum á landi yfir á eyjar á sker á  ítarlegrar rannsóknar á löggjöf.

Ríkið endurskoðaði kröfugerð sína í haust og hefur m.a. ákveðið að falla frá kröfum í sker og eyjar innan netlaga meginlandsins og við þær örfáu eyjar sem ríkið vefengdi ekki eignarréttarlega stöðu á.

Kröfur ríkisins ná hins vegar enn þá til fjölmargra eyja og skerja rétt utan landsteinanna, sem virðast augljóslega hafa tilheyrt tilteknum jörðum. En eru slíkar eyjur/sker eigendalaus? Hvernig getur staðist að það hafi verið lausung á eignarhaldi á slíkum nytjasvæðum s.l. 1000 ár? Við skoðun löggjafar er ljóst að svo er ekki. Eldri fræðiumfjöllun felur í sér áherslu á þýðingu netlaga, þ.e. eignarréttarlega stöðu þar sem land mætir hafi. Hins vegar er umfjöllun um stöðu eyja og skerja mun takmarkaðri.

Eignarréttarlegt skipulag jarða á þjóðveldisöld og Jónsbók

Þegar Landnáma er skoðuð er athyglisvert að sjá að landnám eyja er í raun sjaldan sérstaklega nefnt. Nýtingarhættir fyrri tíðar og hugmyndir um eignarrétt leiddu til þess að löggjöf þjóðveldisaldar, Grágás, þurfti að vera ítarleg um strandsvæði. Löggjöfin hafði einnig þá þýðingu að koma á skipulagi eignarréttar og samfélags í nýnumdu landi. Jónsbók sem tók gildi á 13. öld, hvíldi að verulegu leyti á Grágás. Sum ákvæði Jónsbókar eru enn þá í gildi. Mikilvægar nytjar tengdust strandsvæðum svo sem reki og veiðar fiska, fugla, sela o.fl. Skipulag þess var hluti skipulags jarða. Einnig var viðskiptafrelsi ríkt, t.a.m. um tímabundna leigu á reka eða varanlega stofnun ítaka.

Í 56. kapitula Landbrigðisþáttar Grágásar var fjallað um kaup á reka af landi manns. Löggjöfin varð að skýra hvað væri land manns svo ekki kæmi upp ágreiningur. Lokamálsgrein hefst svo: Svo er og mælt ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns, og á sá maður það og reka þann er fylgir er meginland á næst, nema kaupum sé á annan veg komið.

Ákvæðið verður einfaldlega skilið þannig að óvissu hafi verið eytt vegna tilefnis sem kom til umfjöllunar Alþingis. Eyjar og sker undan landi væru eign þess aðila sem átti meginland næst. Eyjar/sker voru því ekki eigendalaus. Undantekning frá eignarhaldi næstu jarðar var auðvitað ef búið væri að selja eyju/sker frá jörð eða kveða á um skipti á eyjasvæðum með öðrum hætti.

Ákvæðið var tekið upp í Jónsbók. Þar var það tekið upp í 61. kap. Rekabálks, sem hafði yfirskriftina; Um viðreka og veiði fyrir utan netlög. Í því birtist að litið var á regluna sem almenna reglu um eignarrétt, en ekki sértækt ákvæði um reka. Til samhengis eru næstu setningar einnig teknar upp:

Ef viðr flýtur í netlögum, þann á rekamaðr. En ef útar er viðrinn, ok má þó sjá fisk á borði, þá á sá maðr, er jörð á, ok allt þat er þar flýtr. En fjörumaðr þat, sem í netlögum er, hvárt sem net er lagit af landi eða skeri. Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns, ok á sá þat ok reka þann, er fylgir, er meginland á næst, nema með lögum sé frá komit.

Orðið „þat“ vísar ekki til annars en eyja/skerja skv. eðlilegri orðskýringu og þ.a.l. að „það“ sé eign sem fylgir næstliggjandi meginlandi. Uppruni ákvæðisins í Grágás ber um að lokasetningin er sjálfstæð regla.

Gildandi réttur og tengsl við landamerkjalöggjöf

Ákvæðið er hluti af gildandi rétti og er nú að finna í lagasafni á vef Alþingis 2. kap. Rekabálks Jónsbókar.

Þjóðlendumál á landi hverfast að miklu leyti um það hvort landamerkjabréf hafi tilgreint land innan landamerkjabréfa. Önnur sjónarmið hljóta að eiga við þegar land liggur að sjó. Nefna má að bæði í Grágás og Jónsbók voru ákvæði um að ekki þyrfti að ganga á merki ef „firðir“ deildu landi. En ef eyjar lægju fyrir skyldi kveða á um það. Ákvæðin lýsa þeirri grunnhugmynd að eyjar á fjörðum tilheyrðu jörðum. Ekki þótti nein þörf á umfjöllun um eyjar úti fyrir jörðum að opnu hafi eða flóum. Þannig má álykta að mörk jarða við hafið voru skýrð í öðrum hlutum löggjafarinnar, þ.m.t. staða eyja og skerja úti fyrir landi.

Þegar litið er til landamerkjalaga, bæði hinnar eldri frá 1882 og yngri frá 1919, voru engar sérstakar kröfur gerðar um nákvæmni lýsinga um merki til hafsins. Auðvitað gátu eigendur vísað til helstu eyja í landamerkjabréfum, en í ljósi Jónsbókarákvæðis um eignarréttarlega stöðu eyja við næstliggjandi meginland, var tæmandi talning óþörf.

Samhengi við þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Setning þjóðlendulaga árið 1998 byggði á nauðsyn þess að leita upp eigendalaus svæði og lýsa yfir eignarrétti ríkisins á þeim. Ríkið átti ekki sjálfkrafa land sem var eigendalaust. Þegar staða eyja og skerja er skoðuð er ljóst að ákveðið var fyrir 1000 árum síðan að skýra eignarréttarlega stöðu eyja og skerja úti fyrir landinu. Það var gert þegar á þjóðveldisöld og staðfest með ákvæðum Jónsbókar, sem gilda í dag. Það er því ekki til staðar sambærileg óvissa um eigendalaus svæði og átti við á landi.

Eyjar og sker eru eign þeirrar jarðar/meginlands (getur verið ábýliseyja) sem liggur næst, nema beinar heimildir séu um annað. Búið er að lýsa yfir eignarrétti á eyjum og skerjum með lögum. Mikilvægt er að landeigendur við sjávarsíðuna skoði kröfugerðina á heimasíðu Óbyggðanefndar. Þjóðlendukröfur um að eyjar og sker undan landi, en utan við 115 metra mörk nútímanetlaga, virðast ekki geta staðist.

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...