Er aukefnunum ofaukið?
Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég að bera saman aukefni í íslenskum matvælum og dönskum. Ég kom auga á að íslenskar matvörur eru oftar en ekki með fleiri aukefni en þær dönsku.
Danskir brauðostar innihalda ekki rotvarnarefnið nítrít (e252) eða önnur rotvarnarefni, en íslenskir brauðostar innihalda margir nítrít og allir sem ég fann innihalda rotvarnarefni. Kotasæla í Danmörku inniheldur ekki rotvarnarefni en íslensk kotasæla inniheldur rotvarnarefni. Rifnir ostar í Danmörku innihalda fæstir aukefni en íslenskir rifnir ostar innihalda m.a. kekkjavarnarefni, rotvarnarefni og bræðslusölt. Þú finnur töluvert úrval af kjötáleggi eins og kæfu í Danmörku án rotvarnarefnisins nítríts en það er aðeins ein íslensk kæfa sem ég fann án nítríts. Mikið hefur verið rætt um nítrít erlendis og verið er að takmarka notkun þess víða vegna krabbameinsvaldandi eiginleika efnisins. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gerði úttekt á nítrít aukefnum í matvörum á síðasta ári. Niðurstaðan var sú að fyrir alla aldurshópa í allri Evrópu stafar neytendum heilsufarsáhætta af núverandi magni nítríts sem þeir verða fyrir úr matvörum.
Það er ekki tilviljun að Danir séu búnir að fjarlægja þessi efni eða minnka þau allverulega úr dönskum matvörum. Samfélagið kallaði eftir því og umræða fór af stað um aukefni. Matvælaframleiðendur fóru því að fækka og taka út mörg aukefni, sem kemur svo í ljós að eru oft og tíðum óþörf og geta sum verið skaðleg eða óæskileg. Vel er hægt að framleiða brauðosta, kotasælu, rifinn ost og sum kjötálegg án nítríts og margra þessara aukefna eins og mörg erlend matvælafyrirtæki hafa gert í áratugi, án þess að það valdi matareitrunum eða veikindum þeirra sem neyta slíkra matvæla, sé það aðeins gert með réttum hætti.
Aukefni í skólamáltíðum
Nýlega rýndi ég (Anna María) og stór hópur foreldra í kringum mig, í innihaldslýsingar á þeim mat sem verið er að bjóða upp á í mörgum leik- og grunnskólum landsins.
Fyrirtækin sem sjá um þessar skólamáltíðir eru með heimasíður þar sem innihaldslýsingar eru öllum aðgengilegar. Þar sem skólamáltíðir eru nú orðnar ókeypis er sérstaklega mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvað börnin okkar eru að fá að borða í leik- og grunnskólum landsins, hvað sveitarfélögin og við sem skattgreiðendur erum að greiða fyrir.
Ég tók saman nokkur atriði úr samantekt okkar og setti saman í þennan pistil. Tek það fram að ég er að rýna í aukefnin, ekki næringarsamsetningu eða næringarinnihald matarins. Ekki eru öll aukefni talin óæskileg eða skaðleg. Lyftiduft, natron og sítrónusýra eru t.d. aukefni sem talin eru frekar meinlaus, en margir foreldrar í dag vilja minnka magn óþarfa aukefna sem börn eru að innbyrða í gegnum fæðu.
Eins og staðan er í dag er magn aukefna í skólamáltíðum barna, sem fá máltíðir frá þessum fyrirtækjum, ansi mikið. Ekki eru allar máltíðirnar með mörg aukefni en hér eru dæmi um máltíðir með ansi mörg aukefni:
- Mexíkósúpa með 19 aukefnum
- Tómatsúpa + meðlæti með 19 aukefnum
- Í eftirmiðdagskaffi hjá leikskóla- börnum voru 10 aukefni í einni máltíð
- Í eftirmiðdagskaffi hjá leikskóla- börnum voru 5 aukefni bara í brauðinu, en samtals í allri máltíðinni voru 13 aukefni
- Indverskur kjúklingaréttur með 21 aukefni + meðlæti = 26 aukefni -Spergilkálssúpa + meðlæti með 17 aukefnum
- Lasagne með 13 aukefnum
- Lasagne + meðlæti = 17 aukefni - Önnur Mexíkósúpa sem innihélt 16 aukefni, máltíðin öll = 18 aukefni - Mexíkó tortilla pönnukökur + meðlæti = 14 aukefni
- Skyr og brauð = 11 aukefni
- Hrísgrjónagrautur + meðlæti með 10 aukefni
- Egg á matseðli innihéldu rotvarnarefni
- Einnig var að finna stroganoff sem innihélt e621 sem er MSG
Skiptar skoðanir eru um MSG, en samkvæmt MAST er óþol við MSG vel þekkt. Þrátt fyrir að MSG flokkist sem „öruggt“ er það enn mjög umdeilt, enda ýmsar rannsóknir bent til neikvæðra áhrifa, til að mynda aukna hættu á efnaskiptaheilkenni og ofþyngd, (óháð heildarorkuinntöku og hreyfingu) og áhrif á örveruflóru í þörmum, en þörf er á ítarlegri rannsóknum á mannfólki.
Þetta er eitt af þeim efnum sem vel væri hægt að sleppa úr skólamáltíðum barna.
Nítrít er aukefni sem er að finna víða í máltíðunum.
Á meðal þeirra aukefna sem er að finna í máltíðunum, eru t.d. E472b og E339 sem nýleg rannsókn í British Medical Journal sýnir að tengist aukinni tíðni hjartasjúkdóma. Töluvert af aukefnum í flokknum E400-E499 eru í skólamáltíðunum. Rannsókn á vegum Oxford Academic bendir til að slík aukefni (ýruefni, bindiefni, þykkingarefni) geti átt þátt í hækkandi tíðni bólgusjúkdóma í þörmum, eins og Crohn’s sjúkdómnum. Niðurstöður annarrar stórrar rannsóknar í tímaritinu Nutrients sýndu að inntaka aukefna í matvælum var meiri á fyrsta æviskeiði meðal sjúklinga með Crohn’s sjúkdóm, í samanburði við viðmiðunarhóp, og niðurstöður voru samhljóða á mismunandi landsvæðum og milli þjóðerna. Þessar upplýsingar auka vægi við þá tilgátu að slík aukefni séu umhverfisþættir sem ýta undir myndun bólgusjúkdóma eins og Crohn's sjúkdóms hjá viðkvæmum einstaklingum. Almenn neysla aukefna í mat var einnig algengari hjá sjúklingum með virkan Crohn's sjúkdóm, sem bendir til þess að slíkt mataræði geti hugsanlega stuðlað að viðvarandi bólgu. Rannsóknir síðari ára hafa einnig bent til þess að aukefni í þessum sama ofangreinda flokki, geti raskað starfsemi og þéttni þekjufrumna í húð, öndunarfærum og meltingarvegi. Í stuttu máli gerir það einstaklinga viðkvæmari fyrir utanaðkomandi ofnæmis- og örverum, sem getur hugsanlega leitt til langvarandi bólguástands (svokallaðrar Th2 bólgu), sem tengist astma og öðrum ofnæmissjúkdómum.
- Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði tók saman þennan stutta kafla um ýruefni og er hann birtur með góðfúslegu leyfi hennar.
Að telja þessi aukefni saman og sjá að eins árs börn á leikskóla geta verið að fá í sig 29 aukefni í samtals tveimur máltíðum á einum degi vekur mig til umhugsunar. Hvað þá þegar maður reiknar þetta saman fyrir heila viku, að eins árs börn geti jafnvel verið að fá í kringum 100 aukefni í líkama sína í gegnum fæðu bara á leikskólum. Ég set a.m.k. spurningarmerki við magnið af þessum aukefnum og hvort ekki sé kominn tími til að setja skýra stefnu og reglur um aukefni í skólamáltíðum fyrir börnin okkar. Ef við eigum þessi aukefni ekki heima í eldhúsinu okkar og myndum ekki nota þau sjálf, eiga þau þá erindi í skólamáltíðir barnanna okkar?
Mikið af matnum sem er á matseðlunum hljómar eins og frekar almennur matur sem er á boðstólum á íslenskum heimilum. Brauðið og áleggið er eitthvað sem fæst í matvöruverslunum og margir vanir að borða dags daglega. Það fær mann til að velta fyrir sér þessum „almenna mat“ sem við erum að borða, hvort ekki sé ráð að íslensk matvælafyrirtæki endurskoði aukefnanotkun. Sérstaklega þegar löndin í kringum okkur sýna að það er vel hægt að sleppa mörgum þeirra án þess að það komi niður á gæðum matarins.
Í flestum tilfellum eru færri aukefni í lífrænt vottuðum matvörum. Með því að velja lífrænt vottuð hráefni í auknum mæli og elda meira frá grunni er hægt að minnka til muna það magn aukefna sem börn eru að innbyrða úr fæðu í skólanum. Í Evrópu eru einungis leyfð 56 aukefni í lífrænt vottuðum vörum, sem öll eru af náttúrulegum uppruna. Í almennum vörum hins vegar (öllu öðru), eru 411 aukefni leyfð.
Hvaða aukefni eru leyfð í lífrænt vottuðum matvörum byggir á ákveðinni varúðarreglu um að fyrirbyggja hugsanlegt tjón á heilsu okkar og umhverfisins.
Neytendur og umhverfið fá sem sagt að njóta vafans ... ekki aukefnin.