Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Eflum íslenska nautgriparækt
Mynd / Odd Stefán
Lesendarýni 20. febrúar 2025

Eflum íslenska nautgriparækt

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson kúabóndi og Jón Viðar Jónmundsson fyrrverandi nautgriparæktarráðunautur BÍ og búfjárræktarráðunautur BÍ.

Í Bændablaðinu 23. janúar sl. birtum við pistil í framhaldi af skýrslu LbhÍ um samanburð á erlendum mjólkurkúakynjum og því íslenska með notkun á viðurkenndum erlendum módelum.

Hún sýndi möguleika á verulegri framlegðaraukningu hjá íslenskum mjólkurframleiðendum og hagkvæmari framleiðslu á mjólkurvörum hér á landi. Í síðasta tölublaði eru síðan fjórar greinar sem snúa að þessu máli. Eina skrifar Aðalbjörg Ásgeirsdóttir í Stóru-Mörk sem rekur afurðahæsta kúabú á Íslandi á síðasta ári. Þar koma fram sjónarmið sem falla vel að þeim sem við höfðum sett fram og tökum undir. Guðni Ágústsson skrifar grein í sínum þekkta stíl. Gerum örlitla athugasemd síðar. Sagnfræði hans brenglast stundum ef hún nær til atburða nálægt í tíma þó að hún sé vonandi hárrétt þegar hann fjallar um atburði í austurhluta Rangárvallasýslu á landnámsöld og hafa greinilega mótað hann sterkt. Þá skrifa Egill Gautason og Magnús B. Jónsson hvor sinn pistil sem báðir víkja að okkar skrifum og gefur okkur tilefni til frekari umfjöllunar og ábendinga.

Vaxandi munur

Áður en umfjöllun hefst um meginatriði þá bendum við Guðna á að hann hefði átt að bera tölur sínar saman við hliðstæðar tölur erlendis frá. Þá hefði blasað við að hámarkstölur Guðna fyrir íslensku kúna eru undir sams konar meðaltalstölum flestra viðmiðunarlanda. Nythæstu búin á Norðurlöndum státa af meðal afurðum yfir 15.000 kg eftir árskúna nú um daga. Enn verra ef horft er til afurðaþróunar, þar hefur munur á milli aukist með hverju ári. Frá 2020–2024 hafa meðal afurðir hér skv. skýrsluhaldi aukist um 122 kg á árskú, miðað við orkuleiðrétta mjólk. Hliðstæð aukning í Danmörku milli áranna 2020 og 2024 var 454 kg.

Magnús gefur í skyn að tekjuþróun mjólkurframleiðenda í nágrannalöndum sé jafnvel lakari en hérlendis. Þetta er ekki í takti við veruleikann og birtist m.a. í hlutfallslega hraðari fækkun mjólkurframleiðenda hér á landi en á hinum Norðurlöndunum allra síðustu ár. Árið 2022 var langbesta rekstrarár í sögu danskrar mjólkurframleiðslu; hagnaður kúabúa var þá að jafnaði um 100 m. kr. Afkoman 2023 var mun lakari en þó vel yfir meðaltali undanfarinna ára; hagnaður meðal búsins var 35 m. kr. Frá Noregi berast þær fregnir þessa dagana að metfjöldi kúabúa hafi skipt um eigendur á nýliðnu ári og að aldrei hafi fleiri ný fjós verið á teikniborðinu en þessar vikurnar. Því miður er ekki sömu sögu að segja hér. Að okkar mati er ósmekklegt að halda því fram að við séum að vega að höfundum skýrslunnar 2007. Við erum aðeins að benda á það sem skýrir muninn þá og nú og allir geta kynnt sér með að lesa þá kafla í skýrslunum. Skýrsluhöfundar 2007 hefðu þá mátt horfa aðeins betur á niðurstöður Gunnars Ríkharðssonar úr Færeyjatilrauninni. Þær voru þá nýlegar og eini beini samanburðurinn sem þeir gátu horft til. Má bæta við að Færeyingar létu nánast strax af sæðiskaupum frá Íslandi, sem var þeirra hugmynd þegar tilrauninni var hleypt af stokkunum. Það er líka rétt að minna á að þegar skýrslan var kynnt á aðalfundi LK 2007 voru ýmsar forsendur hennar gagnrýndar nokkuð harðlega af mörgum fundarmönnum, m.a. vinnuþörf við mjaltir, sem er stór kostnaðarliður og sá eiginleiki þar sem íslenska kynið stendur einna höllustum fæti.

Varðveisla á erfðabreytileika

Víkjum þá að varðveislu erfðabreytileika sem Egill fjallar aðallega um og Magnús víkur að. Þarna höldum við að gagnlegt sé að horfa til starfs í öðrum löndum því þar er þessu starfi sinnt ekki síður en hér. Þar er t.d. á öllum Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu þar sem við þekkjum til mörgum skyldustu kynjum því íslenska viðhaldið í mjög litlum hópum. Nautastöðvarnar sjá þessum hópum síðan fyrir sæði og erfðanefndir eða leiðbeiningaþjónustan aðstoðar með að halda skyldleikarækt í skefjum hjá þessum örhópum. Þetta meta þeir sem þekkingu hafa á nægjanlegt til viðhalds þessum kynjum.

Nýr erfðabreytileiki

Víkjum að athugasemdum Magnúsar um notkun okkar á orðinu hugarórar um þær hugmyndir að leitað yrði í íslenska kúakynið á komandi árum eftir erfðabreytileika til að kynbæta einhverja eiginleika. Þetta byggjum við m.a. á nýlegri yfirlitsgrein í þessum fræðum eftir finnska búfjárerfðafræðinginn Juha Kantanen sem einna best hefur fjallað um spurninguna um það hvar sennilegt sé að nýs erfðabreytileika hjá mjólkurkúm yrði leitað, gerðist þess þörf í framtíðinni. Það yrði gert hjá kynjum ræktuðum við mjög afbrigðilegar umhverfisaðstæður, vegna þess að þar væri það sem þyrfti að bregðast við helst að finna. Bendir hann á dæmi um slík kúakyn í Síberíu og við hliðstæðar umhverfisaðstæður og slík gen séu nýlega fundin og hvetur til að verndun slíkra kynja sé í forgangi. Fráleitast yrði að leita til kúakynja sem aðeins hefðu dregist aftur úr aðalkynjunum, sem að sjálfsögðu væru þau sem mundu leita eftir þessu. Þetta væri augljóst í ljósi þess að kynin sem hefðu lent aftur úr, hefðu verið með ræktun með hliðstæð ræktunarmarkmið og flest önnur kyn og því fráleitast að þar væri nokkurs að leita. Þessi kyn hefðu orðið undir vegna ytri þátta eins og lítils stofns í okkar tilviki, sem er þáttur sem við höfum hvergi séð hugmyndir um hvernig eigi að stökkva yfir. Alvarlegur ungkálfadauði, sem flestum er orðið ljóst að er að einhverju leyti eiginleiki sem bundinn er íslenska kyninu verður seint til að bæta þá stöðu. Í hinni stórgóðu doktorsritgerð Egils koma hvergi fram ábendingar um slíkan breytileika sem að framan er ræddur, hafi við lesið ritgerðina rétt.

Val bænda

Egill nefnir ýmsar hugmyndir um verndun íslenska kúakynsins. Gallinn við þær er að okkar mati hins vegar sá að sá tími er liðinn að mjólkurframleiðslunni verði haldið í einhvers konar herkví. Það verður í framtíðinni vonandi val bænda hvaða erfðaefni þeir kjósa að nota í sinni framleiðslu. Við erum sammála Agli um að hreinræktaðar íslenskar kýr fari þar halloka. Hins vegar teljum við að þar sé fátt að óttast. Hér á landi er áreiðanlega ekki lægra hlutfall velunnara en erlendis sem mun varðveita íslenska kynið líkt og þar er gert. Þar er erfðabreytileika gömlu kynjanna viðhaldið eins og við höfum bent á. Það er talið fullgilt og við vitum að þau sem vilja stuðla að varðveislu þess hérlendis myndu læra af framkvæmd í öðrum löndum. Við teljum það háskalegt sjónarmið og siðferðilegt óbjóðandi að stór hluti bænda og neytenda sé í framtíðinni í herkví þess sjónarmiðs að hér megi framleiða mjólk með einu, og aðeins einu kúakyni.

Mjólk framleidd á Íslandi er íslensk

Víkjum í framhaldinu að hugmyndum Guðna um að neytendur bregðist öndverðir við og vitnar þar til skoðanakannana sem þjóðin stjórnast af þessa dagana. Hvers vegna hafa afurðastöðvar þá ekki sótt hærra verð til að auka tekjur bænda? Gæti verið að það gengi gegn markmiðum búvörulaga? Tæpast er Guðni að hvetja til brota á lögum sem hann kom að því að setja? Þar eru víst markmið um að bjóða neytendum búvöru á hagstæðu verði. Grunur okkar að ef neytendur væru spurðir hvort þeir væru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir að fá mjólk og mjólkurvörur úr kúm af íslensku kyni kæmi annað hljóð úr strokknum og í okkar huga er ljóst að núverandi verðlagning og staða tollverndar er komin að þolmörkum hvað það varðar. Halli greinarinnar upp á fleiri milljarða króna, samkvæmt nýju verðlagslíkani, segir allt sem segja þarf í þeim efnum. Miklu fremur yrðu þeir því jákvæðir gagnvart því að fá þessar vörur á lægra verði. Við þekkjum hvergi frá nágrannalöndum þá þjóðerniskennd að aðeins sé bjóðandi mjólk úr gömlum landkynjum. Danir, Svíar, Norðmenn, Finnar og jafnvel Færeyingar kalla mjólk framleidda í löndunum, danska, sænska, norska, finnska og færeyska eftir því hvað við á hafi mjólkin verið mjólkuð í viðkomandi landi úr kúm af fjölmörgum erlendum kynjum sem flutt voru til viðkomandi landa á síðustu öldum og áratugum. Umræða um óhollustu hennar fyrir neytendur af þeirri ástæðu fer að okkar viti hvergi fram í þessum löndum.

Að ýmsu þarf að hyggja

Við trúum því hins vegar að nauðsynlegt sé sem fyrst að bæta afkomu og samkeppnishæfni mjólkurframleiðenda eigi framleiðslan að blómstra á komandi árum. Til þess er erlent erfðaefni aðeins einn þáttur. Um leið þarf að umbreyta stjórnkerfi framleiðslunnar og greiðslum ríkisins á stuðningi; fjárfestingar, framsal stuðningsgreiðslna og nýliðun svo að veigamestu atriðin séu talin.

Þarna eigum við að vera óhrædd að sækja góðar hugmyndir erlendis. Aðeins hrossarækt, sauðfjárrækt og nýting hlunninda byggja að hluta á innlendum grunni. Í öðrum greinum hefur bændum vegnað best þegar góðar hugmyndir hafa verið sóttar utan landsteinanna, framfarir orðið mestar og landbúnaður blómstrað mest. Þannig hafa framfarir í landbúnaði á undangengnum áratugum orðið. Þetta er t.d. meðal aðalmarkmiða búvörulaga sem móta öðru fremur afkomu bænda. Sú einangrunarstefna, sem að hluta kemur fram í greinunum sem við höfum rætt, er íslenskum landbúnaði stórhættuleg.

Grísir gjalda, gömul svín valda

Íslenskir mjólkurframleiðendur mega ekki endurtaka afgreiðsluna fyrir tæpum aldarfjórðungi. Syndir feðranna bitna á börnunum er oft sagt. Sú afgreiðsla hefur þegar orðið þeim og neytendum of dýru verði keypt. Nú verða þeir að afgreiða innflutning á þann hátt að mjólkurframleiðendur fái hliðstætt starfsumhverfi og kollegar þeirra í nágrannalöndum. Enda kalla íslenskir bændur eðlilega oft eftir slíku í mörgum málum. Skýrsla LbhÍ er sterkt vopn í því máli. Við teljum okkur hafa bent á fleiri rök.

Að lokum er sú skoðun viðruð að aðeins innlendu greinarnar sem nefndar eru hér á undan munu í framtíðinni skila okkur möguleikum á útflutningi þekkingar og framleiðslu. Hinar greinar landbúnaðarins hafa það meginhlutverk að sinna markaði innanlands með hollar vörur á hagstæðu verði sem neytendur sækjast eftir. Þar er talsvert verk að vinna fyrir mjólkina að endurheimta einhvern hlut þess sem nú er sinnt með innflutningi og verjast því að sá hlutur aukist enn frekar. Rekstur þessara greina verður um leið að skila þeim sem þær stunda bærilegri lífsafkomu. Takist það mun birta yfir landbúnaði á Íslandi. Við erum sannfærðir um að slíkt er mögulegt og við teljum leiðina að því markmiði vera þau sjónarmið sem við höfum reifað.

Skylt efni: erlent kúakyn

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...