Guðmar Freyr Magnússon ásamt syni sínum, Friðriki Rafni, tveggja ára, sem situr Flygil frá Íbishóli.
Guðmar Freyr Magnússon ásamt syni sínum, Friðriki Rafni, tveggja ára, sem situr Flygil frá Íbishóli.
Mynd / Aðsend
Viðtal 2. apríl 2025

Ákveðinn draumur að rætast

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Guðmar Freyr Magnússon og Berglind Ósk Skaptadóttir festu kaup á jörðinni Bjarmalandi í Skagafirði á síðasta ári ásamt hjónunum Halldóri Svanssyni og Jóhönnu Elku Geirsdóttur. Þar stendur hin þekkta Hrímnishöll sem byggð var árið 2008 og hefur gegnt ýmsum hlutverkum síðan.

Guðmar Freyr kemur úr mikilli hestafjölskyldu en faðir hans er Magnús Bragi Magnússon, hrossaræktandi á Íbishóli, og varði Guðmar öllum stundum í kringum hross svo lengi sem hann man. Guðmar Freyr útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum árið 2023 og Berglind stundar nú nám við Háskólann á Akureyri þar sem hún nemur líftækni. Saman eiga þau tvo drengi, Friðrik Rafn, 2 ára og Axel Eyþór, 4 mánaða.

„Það kom aldrei neitt annað til greina en að verða atvinnumaður í hestamennsku. Það er áskorun að vera ungur einstaklingur í rekstri í dag, með miklum útgjöldum, og krefst það mikillar elju og útsjónarsemi. Ég get alveg viðurkennt að stundum læðist sú hugsun að mér að ég hefði kannski átt að snúa mér að einhverju öðru,“ segir Guðmar kankvís.

Fjölskyldan við útskrift Guðmars Freys Magnússonar frá Háskólanum á Hólum. F.v.: Valborg Jónína Hjálmarsdóttir, móðir Guðmars, Berglind Ósk Skaptadóttir, Guðmar Freyr situr Snilling frá Íbishóli, Magnús Bragi Magnússon, faðir Guðmars, og systur Guðmars, þær Sigurlína Erla og Þórey Elsa. Mynd / Aðsend

Fá úrræði í boði

Hrímnishöllin var formlega vígð árið 2008 en bændurnir Björn Sveinsson og Magnea Guðmundsdóttir á Varmalæk reistu mannvirkið og nefndu það í höfuðið á hinum þekkta stóðhesti, Hrímni frá Hrafnagili. Hrímnishöllin hafði verið til sölu í nokkur ár en hún hefur hýst ýmiss konar starfsemi í gegnum árin.

„Ég kom hér um mánaðamótin febrúar/mars í fyrra með það í huga að kaupa þetta. Ég leigði hér til að byrja með og var farið í að leita leiða til að ég gæti eignast þetta. Ég var mjög heppin að ég var að temja hryssu fyrir Halldór Svansson, sem ræktar hross kennd við EfriÞverá. Hann kom um vorið og tók út hryssuna og leist vel á. Hann spurði mig hvort ég væri ekki að hugsa mér að kaupa þetta, sem ég jánkaði. Hann hafði áhuga á að kaupa þetta með mér og hófum við samstarf.“

Þegar hugmyndin að kaupum Bjarmalands var fædd fóru þau í að leita leiða til að láta fjárfestinguna ganga upp. Guðmar segist hafa leitað til flestra banka, Byggðastofnunar og jafnvel Kaupfélags Skagfirðinga til þess að fjármagna jarðarkaupin. Ferlið hafi verið flókið og krafist mikillar vinnu en þau endað á að fjármagna í gegnum Arion banka, ásamt því að fá úthlutuðum nýliðunarstyrk.

„Við gátum ekki fengið lán hjá Byggðastofnun því það er ekki íbúðarhúsnæði á jörðinni. Mín upplifun af þessu ferli er svolítið sú að það er voða lítið hjá ríkinu sem er að reyna að halda nýliðun í landbúnaði gangandi. Miðað við að það eru til alls konar ráðstafanir fyrir ungt fólk að kaupa sér fyrstu eign er engin einhvern veginn sem grípur ungt fólk sem langar að kaupa sér jörð og byggja sér framtíðarheimili,“ segir Guðmar og bætir við að það þýði samt ekkert að væla heldur bara setja undir sig hausinn og vinna myrkranna á milli.

Hrímnishöllin á jörð Bjarmalands hefur verið til sölu í nokkur ár. Mynd /Aðsend
Hestatengd ferðaþjónusta

Á jörðinni Bjarmalandi stendur Hrímnishöllin og er jörðin um 4,5 hektara beiti- og ræktarland. Hrímnishöllin er 1.080 fermetrar að stærð og eru 20 stórar stíur í hesthúsinu, skeiðbraut er í gegnum reiðhallarsvæðið og út á 200 metra hringvöll sem er upp við höllina. Höllin var ekki hönnuð einungis sem hesthús og reiðhöll heldur var hún hugsuð fyrir móttöku gesta og sýningarhald.

„Þetta er rakið hús fyrir samkomur en hér er meðal annars eldhús sem uppfyllir alla staðla sem iðnaðareldhús, aðgengi fyrir hjólastóla og pallur með góðu útsýni yfir bæði hesthús og reiðhöll. Þetta er afar góð aðstaða til tamninga og mjög gott að vinna hér. Í kaupunum fylgdi félagið Íslenskar hestasýningar ehf. sem er ferðaþjónustufyrirtæki og undanfarin ár hafa í kringum 3.000 manns komið hingað á sýningar,“ segir Guðmar.

Í augnablikinu er verið að vinna í því að útbúa litla íbúð fyrir starfsmann en eins og er hefur Guðmar borið allan þungann af starfseminni. Segir hann það vera kærkomið að geta ráðið inn starfsmann sem Guðmar vonast til að geti hafið störf í sumar.

„Þetta er auðvitað ákveðinn draumur að rætast þó þetta sé ekki bara dans á rósum en markmiðið er að það verði það einhvern tímann og það þarf bara að halda vel á spöðunum. Ég var einmitt að ræða það við félaga minn að hvern hefði grunað að þegar við sátum 14 og 17 ára í hæfileikamótun LH, að láta lesa yfir hausamótunum á okkur, að innan tíu ára væri annar okkar búinn að sýna yfir 9,0 fyrir hæfileika og ég búinn að kaupa Hrímnishöllina? Þetta er búið að vera draumur síðan maður var barn.“

Hugur í Skagfirðingum

Guðmar segir mikinn hug vera í Skagfirðingum og finnur hann fyrir auknum áhuga á hestamennsku, sérstaklega meðal áhugamanna og ungra einstaklinga.

„Ég tel hestamennskuna vera í sókn hér í Skagafirði. Það er mikið líf og fjör, mótaraðir í stórum stíl og ég heyri að fólk er með hugann við Heimsmeistaramót og Fjórðungsmót. Síðan eru Skagfirðingar að fara að halda Landsmót næsta sumar og kominn mikill spenningur fyrir því. Það er samstaða í Skagafirði um að gera mótið stórglæsilegt.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt