Það þarf um það bil fjórar bómullarplöntur til að framleiða nægar trefjar fyrir einn þunnan stuttermabol, en helmingi meira ef bómullarefnið á að vera vandaðra.
Það þarf um það bil fjórar bómullarplöntur til að framleiða nægar trefjar fyrir einn þunnan stuttermabol, en helmingi meira ef bómullarefnið á að vera vandaðra.
Mynd / Pixabay
Líf og starf 7. apríl 2025

Dropinn holar steininn

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Eins og áður hefur komið fram er tískuiðnaðurinn mikill skaðvaldur náttúrunnar. Áhugasamir lesendur hafa nú þegar fræðst um þennan mengunarvald í greinum þar sem úrgangsmálin hefur borið hæst.

Til viðbótar við þá skemmtun er rétt að bæta því við að iðnaðurinn hefur að sjálfsögðu einnig áhrif á ferskvatn.

Í skýrslu Ellen MacArthur Foundation frá árinu 2017, A New Textiles Economy: Redesigning Fashion's Future, er að finna ýmsa fróðleiksmola. Þar er m.a. bent á að tískuiðnaðurinn noti um 93 milljarða rúmmetra af vatni árlega eða nóg til að mæta þörfum 5 milljóna manna og búist er við að sú tala tvöfaldist fyrir árið 2030.

Ein flík þarf þúsundir lítra

Það er ýmislegt sem stuðlar að þessu óskaplega „vatns-fótspori“ tískunnar, enda vatn notað í nær öllu framleiðsluferli fatnaðar. Fyrst þarf auðvitað að rækta plöntur á borð við bómull eða ala upp dýrin sem ull, skinn eða annað er notað af. Það fer svolítið vatn í það. Til dæmis getur bómullin sem þarf til að framleiða eina flík þurft þúsundir lítra, auk þess sem mikið magn af skordýraeitri þarf til að uppskeran skemmist ekki – en skolast svo út í vötn eða árfarvegi og kemst þannig inn í vistkerfin.

Þegar þarf svo að meðhöndla efnisstrangann aðeins frekar, eða lita, fer affallsvatnið að sama skapi aftur út í hringrásina og ber gjarnan með sér mengun eiturefna eða þungmálma. Það hefur sem sé komið fram í rannsóknum að til viðbótar við óhóflega notkun tískuiðnaðarins á vatni, losast árlega milljónir lítra af ýmsum ófögnuði í vatnsfarvegi sem veldur í kjölfarið umhverfisspjöllum, sjúkdómum eða öðru miður gleðilegu. Gallabuxnaunnendur ættu t.a.m. að reyna sitt besta í að versla „vintage“ varning því denim-efnið sem slíkt er bæði eitt hið vatnsfrekasta – sterkt og þykkt efni úr bómullartrefjum – en krefst einnig sérstakra litunarog frágangsferla sem eru skaðlegir á margan hátt. Framleiðsluaðilar gallabuxnaiðnaðarins vinna þó víst að því að koma á fót nýrri litunaraðferð sem á að minnka vatnsmagnið sem til þarf.

Áframhaldandi ógn við umhverfi

Því miður halda flíkurnar áfram að menga vatnið löngu eftir að þær hafa farið úr hillunum. Pólýester er eitt algengasta efni heims og er gert úr sömu fjölliðunni og notuð er til að framleiða plastflöskur. Þannig að þegar við þvoum pólýesterfötin berast þúsundir örtrefja úr plasti út með skolvatninu. Þessar örtrefjar leggja leið sína til hafs þar sem þær ógna vistkerfum af miklum móð og lenda að lokum í fæðukeðjunni okkar líka.

Svo snýst vatnsfótsporið ógurlega ekki bara um magn vatnsins sem notað er, heldur kemur landfræðileg staðsetning inn í málið. Oft er um að ræða akra af plöntum sem þurfa mikið vatn en eru staðsettir á svæðum þar sem sú auðlind er af skornum skammti. Forsvarsmenn tískunnar þurfa því að huga að ýmsu. Það þarf að ganga úr skugga um að vörur þeirra séu ekki framleiddar á svæðum þar sem hætta er á vatnsskorti, hafa þarf yfirsýn yfir meðhöndlun vatns heilt yfir, hvort draga megi úr því, hafa yfirlit yfir hvert úrgangsvatnið fer og ferla sem hreinsa það ef mögulegt er.

Mögulegt meðvitundarleysi

Á vefsíðu fyrirtækisins Good on You, sem sérhæfir sig í rannsóknum á vörumerkjum með sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í huga, kemur fram að því miður virðist sem stærstu vörumerkin leggi minnst af mörkum þ e g a r kemur að þessum atriðum. Segir á vefsíðunni að það sé að hluta til vegna þess að fyrirtækin séu ekki nægilega meðvituð og því miður sé einnig mikill skortur á gagnsæi vörumerkja varðandi umhverfisstefnu þeirra almennt.

Skýrslan frá Ellen MacArthur Foundation setur fram framtíðarsýn og metnaðarfullar aðgerðir byggðar á hringrásarhagkerfi en þó virðist enn langt í land.

Tískuiðnaðurinn virðist þó verða æ meðvitaðri með hverjum deginum og vilji til frekari samræmingar og gagnsæis ríkjandi – eitt skref í einu enda erfitt að búa í heimi fatalaus og vitlaus. Hvað þá vatnslaus.

Skylt efni: bómull

Bæjarnöfn á ská og skjön
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árin...

Prjónavetri lýkur
Líf og starf 10. apríl 2025

Prjónavetri lýkur

Íslenskur prjónaiðnaður hættir aldrei að vera móðins enda hefur Listasafn Sigurj...

Falleg sumarpeysa
Líf og starf 9. apríl 2025

Falleg sumarpeysa

Falleg peysa fyrir sumarið, prjónuð úr DROPS Muskat eða DROPS Belle sem er á 30%...

Bændablaðið á Suðurskautinu
Líf og starf 8. apríl 2025

Bændablaðið á Suðurskautinu

Hjörleifur Jóhannesson flugstjóri greip Bændablaðið með sér á Suðurskautslandið ...

Búvörusýning í Reykjavík
Líf og starf 8. apríl 2025

Búvörusýning í Reykjavík

Snemma árs 1984 hófst samstarf mjólkurdagsnefndar og markaðsnefndar landbúnaðari...

Dropinn holar steininn
Líf og starf 7. apríl 2025

Dropinn holar steininn

Eins og áður hefur komið fram er tískuiðnaðurinn mikill skaðvaldur náttúrunnar. ...

Alþjóðlegt skákmót í Mývatnssveit
Líf og starf 3. apríl 2025

Alþjóðlegt skákmót í Mývatnssveit

Helgina 15.-16. mars fór fram alþjóðlegt skákmót í félagsheimilinu Skjólbrekku í...

Kvöldmatur á korteri með íslensku lambakjöti
Líf og starf 2. apríl 2025

Kvöldmatur á korteri með íslensku lambakjöti

Matreiðslukeppni fyrir áhugakokka var haldin á Matarmarkaði Íslands í Hörpu 8. m...