Kvöldmatur á korteri með íslensku lambakjöti
Matreiðslukeppni fyrir áhugakokka var haldin á Matarmarkaði Íslands í Hörpu 8. mars sl. þar sem sex keppendur og/eða lið tóku þátt og fjöldi áhorfenda fylgdist með. Fyrir dómnefnd matgæðinga fór Bessastaðabóndinn Björn Skúlason, eiginmaður forseta Íslands.
Það er óhætt að segja að keppnin hafi fengið prýðilega athygli og vakið eftirtekt á því sem við aðstandendur viljum sýna fram á. Sem er í stuttu máli að lambakjöt er fljótlegur og auðveldur kostur þegar réttir bitar eru í boði fyrir upptekna neytendur í dagsins önn. Korter getur vel dugað til að framreiða nærandi, fallegan og góðan lambarétt fyrir fjölskylduna.
Verkefni keppenda var að elda mínútusteik, þunnar sneiðar úr innralæri sem þau máttu framkvæma hvernig sem er, margir skáru kjötið niður í smærri bita fyrir eldun og elduðu öll fallegan og bragðgóðan mat á korteri án þess að hafa ofn, heldur bara eina hellu, eina pönnu og einn pott.
Sigurvegarinn, Jakob Leó Ægisson, er einungis 13 ára en hann hafði 17 ára bróður sinn, Markús Júlían, sér til aðstoðar og þeir snöruðu fram lambasnitsel með kremuðu hvítkáli og rabarbarasultu með brúnuðu smjöri.
Hvers vegna er lambakjöt fljóteldað?
Snöggsteikt lamb er meyrt, þarf ekki að elda í gegn. Lamb má borða meðalsteikt (e. medium) sem tekur stuttan tíma þegar unnið er með þunnar sneiðar.
Þunnir bitar úr ódýrari vöðvum lambs og gúllas, strimlar, eða mínútusteik þurfa bara örfáar mínútur á pönnu, þegar aðrar tegundir þurfa lengri eldun, hvítt kjöt þarf t.d. alltaf að elda í gegn og nautagúllas þarf alla jafna um 1 klst í eldun til að verða meyrt.
Framboð af lambakjöti
Það er sem sagt ekki erfiðara að elda lambakjöt en að elda aðrar kjöttegundir eða fisk. En vandinn sem neytendur standa frammi fyrir er oftar en ekki að aðgengi að fljótelduðu lambakjöti er slakara en af öðrum valkostum. Flestar verslanir og þau fyrirtæki sem vinna og selja þorrann af lambakjöti hafa lengi sett aðrar tegundir á oddinn. Sem hefur þau áhrif að lambakjöt ratar mun sjaldnar í innkaupakörfuna í miðri viku en annað kjöt.
Yngri neytendur eru margir ögn smeykir við að elda lambakjöt því það hljóti að vera svo flókið og tímafrekt.
Matarmarkaður Íslands er afar mikilvægur í því að mynda bein tengsl milli neytenda við frumframleiðendur og smáframleiðendur sem selja vörur sínar á markaðnum og bjóða vörur sem oft skera sig úr því sem okkur býðst eftir hefðbundnum leiðum.
Kvöldmatur á korteri
Að loknum góðum degi í Hörpu þá fannst ögn af lambakjöti sem hafði ekki verið notað, og þá lá beinast við að henda í kvöldmat á korteri samhliða tiltekt í ísskápnum þar sem öðrum hráefnum var forðað frá skemmdum. Áhöldin við eldamennskuna voru eitt skurðarbretti, einn hnífur, ein hella á eldavélinni og einn steikarspaði.
Lamba-mínútusteik með sveppasósu og grænmeti
Mínútusteikur
Sveppir
Hvítlaukur
Laukur
Soðnar kartöflur
Olía til steikingar
Smjör
Eplaedik
Vatn
Rjómi
Soðið spergilkál
Hitið stóra pönnu, saltið mínútusteikur og steikið í olíunni á meðan þið skerið sveppi, lauk og hvítlauk. Snúið kjötinu reglulega svo brenni ekki og takið af pönnunni þegar það er fallega brúnað og geymið á heitum stað, eða undir loki.
Steikið sveppi í olíunni í 2–3 mínútur, bætið þá lauk, hvítlauk og kartöflum og smjöri á pönnuna, svitið á meðalhita þar til laukurinn verður glær. Setjið ögn af ediki út í og sjóðið niður, setjið skvettu af vatni í og náið upp suðu.
Bætið rjóma eftir smekk í, sjóðið niður og smakkið til með salti og pipar. Setjið kjötið á pönnuna og berið fram ásamt spergilkáli.
PS. Þessi ekki alslæmi lambaréttur sem var hent saman á einni pönnu tók rétt um 10 mínútur í matreiðslu