Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Vondir samningar við ríkisvaldið eru ekki kúnni að kenna,“ segir Jökull meðal annars í grein sinni.
„Vondir samningar við ríkisvaldið eru ekki kúnni að kenna,“ segir Jökull meðal annars í grein sinni.
Mynd / Odd Stefán
Lesendarýni 21. febrúar 2025

Blessuð íslenska kýrin

Höfundur: Jökull Helgason, bóndi að Ósabakka 1

Um þessar mundir ríður þankagangur Mammons röftum, meðal sumra kúabænda á Íslandi. Vitnað er í könnun sem gerð var milli kúakynja. Ég spyr, hver bað um hana? Hvað kostaði hún, og hvert er markmiðið með henni þegar niðurstaðan var öllum ljós fyrir fram?

Þetta minnir mig á annað löngu afgreitt mál, sem alltaf dúkkar upp aftur og aftur. Það er brennivínsfrumvarp Heimdellinga á hinu háa Alþingi, en Heimdellingar verða nú seint talinn gáfulegur félagsskapur. Þeir vilja láta brennivín flæða um búðir og sjoppur um allar koppagrundir, væntanlega í nafni lýðheilsu. Ein framákona Sjálfstæðisflokksins varði þetta uppátæki sitt í Kastljósþætti fyrir fáum árum og til andsvars var Kári Stefánsson, og fór hún ekki vel frá því.

Þetta var nú smá útúrdúr, en aftur að íslensku kúnni og mögulegum innflutningi á nýju kyni. Ég trúi því varla að einhver sé svo stjarnfræðilega einfaldur að halda það að hugsanlegur fjárhagslegur ávinningur af því myndi lenda í vasa bænda. Það væri þá sennilega jafnlíklegt og að það séu jólasveinar á tunglinu. Þeir fyrstu með nýju kýrnar myndu sennilega hafa eitthvað meira meðan þeir væru fáir, en það fjarar síðan út. En augljós afleiðing yrði líklega sú að um þriðjungur býla sem nú eru í rekstri myndu hætta í rekstri á einhverjum árum.

Vinnusparnaður vegna þess að það þyrfti færri kýr er sennilega einhver, en stór hluti bænda er með mjaltaþjóna og mun þeim fara fjölgandi. Hjá þeim mun það breyta sáralitlu, því þeir þurfa ekki að mjólka. Ef af þessu óheillaspori yrði tala einhverjir um að vernda íslenska kynið á einhverjum stað, það finnst mér vera lýðskrum því þá yrði hún ekki framleiðslugripur lengur og engin rækt yrði lögð í ræktun hennar. Hún hyrfi við það af sjónarsviðinu og það má ekki gerast.

Ég gef lítið fyrir samkeppnisrök sem miða við bændur og þeirra aðstæður í öðrum löndum. Því þetta yrði svo agnarlítið brot af aðstöðumuninum sem við ráðum lítið sem ekkert við nema með virkum verndartollum hvort sem er.

Það hefur svo sem verið stefna stjórnvalda síðustu sjö til tíu árin, að svelta út úr greininni litlum og jafnvel meðalstórum búum til að rýmka fyrir stórbúum (verksmiðjubúum). Og til að fyrirbyggja misskilning að þá er ég ekki að tala um bú með fimm kýr eða svo þegar talað er um lítil bú. Það var t.d. geirneglt í búvörusamningunum 2016 að minni bú gætu örugglega ekki endurnýjað sig, hvorki til nýliðunar né bætt húsakost sinn o.fl. Þau munu því augljóslega fjara út með núverandi ábúendum og þar með fækkar fólki í þeim byggðarlögum. Þessi samningur var samþykktur af bændum, því miður, því þetta er eyðibýlasamningur og svoleiðis samning er ætlað að búa til eyðibýli. Vondir samningar við ríkisvaldið eru ekki kúnni að kenna. Og að einhverjir vilji svo klóra yfir skítinn sinn með því að flytja bara inn nýtt kúakyn til að redda málunum finnst mér ekki í lagi. Við eigum eftir að búa við þessa samninga í talsverðan tíma í viðbót, en vonum að nýr ráðherra landbúnaðar komi öllum á óvart og geri nú góða hluti fyrir bændur og þá um leið einnig fyrir neytendur. Snúi þá af þeirri ruglstefnu sem verið hefur við lýði varðandi afkomumöguleika bænda.

Ég læt hér fylgja tvö vísukorn sem urðu til í síðasta stríði fyrir tilvist okkar ágæta íslenska kúastofns sem verið hefur einn okkar helsti bjargvættur um aldir.

Það má í raun kalla þetta óð um íslensku kúna.

Íslenska kýrin, skrautleg og skær
skemmtileg framar vonum.
Afurðametin til framtíðar slær
bænda, dætra og sonum.

Rangt mér þykir og dapurlegt núna
og raunalegt reyndar líka.
Að níða niður íslensku kúna
af þeim sem hún gerði ríka.

Góðar stundir.

Skylt efni: erlent kúakyn

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...