Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Reynsla Noregs sýnir að tollahækkanir geta verið öflug tæki til að styðja við landbúnaðarstefnu sem miðar að verndun innlendra framleiðenda,“ segir Erna í grein sinni. Mynd frá Guðbrandsdalnum.
„Reynsla Noregs sýnir að tollahækkanir geta verið öflug tæki til að styðja við landbúnaðarstefnu sem miðar að verndun innlendra framleiðenda,“ segir Erna í grein sinni. Mynd frá Guðbrandsdalnum.
Mynd / Kato Bergli
Lesendarýni 26. febrúar 2025

Hvernig nýtir Noregur heimildir til tollahækkana til að framfylgja landbúnaðarstefnu sinni?

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni.

Norsk landbúnaðar stefna byggir á fjórum meginstoðum: (1) fæðuöryggi, (2) landbúnaði sem er stundaður um allt land, (3) aukinni verðmætasköpun og (4) samkeppnishæfni.

Erna Bjarnadóttir.

Eitt af grundvallaratriðum stefnu norskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum er að tryggja stöðugar tekjur bænda og halda uppi innlendri framleiðslu. Þar gegna tollar lykilhlutverki. Þannig hafa breytingar á tollum og þá í seinni tíð tollahækkanir verið nýttar sem stjórntæki til að draga úr innflutningi erlendra landbúnaðarvara og efla stöðu innlendra framleiðenda.

Norsk landbúnaðarstefna og hlutverk tollverndar

Í Noregi er tollvernd hornsteinn landbúnaðarstefnunnar og er beitt til að tryggja rekstrarskilyrði bænda. Í stefnu stjórnvalda segir að tollvernd sé „bærebjelke i norsk landbrukspolitikk“ og nauðsynleg til að tryggja afkomu bænda. Stjórnvöld í Noregi hafa undirstrikað að þau hyggjast standa vörð um innlenda framleiðslu og leggja áherslu á að háir tollar á tilteknar vörutegundir séu réttmæt leið til að vernda hag bænda og tryggja fæðuöryggi.

Norsk stjórnvöld hafa frá árinu 2012 í tvígang hækkað tolla verulega á innfluttar landbúnaðarvörur. Í fyrra skiptið, árið 2012, voru tollar á nautakjöt, lambakjöt og osta hækkaðir. Í seinna skiptið, árið 2024, voru tollar á grænmeti og kartöflur stórhækkaðir. Þessar tollahækkanir eru dæmi um hvernig stjórnvöld hafa nýtt sér lagalegt svigrúm sitt til að efla innlenda framleiðslu og auka tekjur bænda. Í bæði skiptin fór norski Verkamannaflokkurinn með forsætisráðuneytið, í fyrra skiptið undir forsæti Jens Stoltenberg en það síðara með Jonas Gahr Støre, leiðtoga norska Verkamannaflokksins, sem forsætisráðherra.

Tollahækkanir 2012 – kjöt og ostar

Árið 2012 hækkuðu norsk stjórn- völd tolla á tilteknar land- búnaðarvörur sem hluta af stefnu sinni um aukna tollvernd. Tollarnir voru færðir frá krónutolli yfir í hlutfallstolla („ad valorem“ tolla) sem gerði þá sveigjanlegri og áhrifameiri. Hækkanirnar voru sérstaklega miklar á eftirfarandi vöruflokkum:

  • Nautakjöt: Tollur hækkaði úr NOK 119,01 kr/kg í 344%.
  • Lambakjöt: Tollur hækkaði úr NOK 76,96 kr/kg í 429%.
  • Ostar: Tollur hækkaði úr NOK 27,15 kr/kg í 277% á vissum tegundum.

Þessar aðgerðir voru gagnrýndar af Evrópusambandinu sem setti Noreg á lista yfir ríki sem viðhefðu viðskiptahindranir. Samt sem áður héldu norsk stjórnvöld sig við þessa stefnu og lögðu áherslu á að tollvernd væri nauðsynleg til að tryggja efnahagslegan stöðugleika bænda og viðhalda sjálfbærri matvælaframleiðslu í landinu.

Tollahækkanir 2024 – grænmeti og kartöflur

Árið 2024 fóru norsk stjórnvöld í svipaða aðgerð þar sem tollar voru stórhækkaðir á ýmsar grænmetistegundir og kartöflur. Markmiðið var að styrkja innlenda framleiðslu og minnka ósann- gjarna samkeppni frá innfluttum vörum. Tollarnir voru hækkaðir úr krónutolli í hlutfallstolla á eftirfarandi vörum:

  • Kartöflur: Tollur hækkaði í 95-209%.
  • Grænmeti (t.d. salat, rauðbeður, sellerí og rófur): 147-288%.

Með þessu fylgdu norsk stjórnvöld sömu leið og árið 2012 og beittu tollvernd til að vernda hagsmuni bænda. Þessar breytingar sýna að Noregur hefur bæði pólitískan vilja og lagalegt svigrúm til að grípa til slíkra ráðstafana.

Hvað með Ísland?

Ísland stendur frammi fyrir svipuðum áskorunum og Noregur þegar kemur að landbúnaði.

Skilyrði ræktunar eru krefjandi og framleiðslukostnaður hár í alþjóðlegu samhengi og getur innlend framleiðsla illa keppt við erlendar landbúnaðarvörur. Íslensk stjórnvöld gætu farið að fordæmi Norðmanna og nýtt heimildir sínar til að hækka tolla á tilteknum landbúnaðarvörum til að styðja við innlenda framleiðslu. Hins vegar er Ísland, eins og flest önnur ríki, bundið af alþjóðlegum samningum, þ. á m. GATT-samningnum, en þó bindur tvíhliða samningur við Evrópusambandið enn frekar hendur okkar að þessu leyti.

Tollabindingar samkvæmt GATT-samningnum gefa Íslandi verulegt svigrúm til tollahækkana. Til dæmis er heimilt að hækka tolla á osta úr 30% og 798 kr/kg í 485% án þess að brjóta gegn þessum samningi.

Getum við nýtt okkur þessa reynslu Norðmanna?

Reynsla Noregs sýnir að tollahækkanir geta verið öflug tæki til að styðja við landbúnaðarstefnu sem miðar að verndun innlendra framleiðenda.

Norðmenn hafa ítrekað gripið til þessara aðgerða til að viðhalda rekstrarskilyrðum bænda og draga úr ósanngjarnri samkeppni frá erlendum vörum.

Þótt slíkar aðgerðir hafi verið gagnrýndar af hálfu Evrópusambandsins, hafa þær sannað gildi sitt í því að tryggja stöðugleika og afkomu bænda. Þetta sýnir nýleg ákvörðun Norðmanna um að endurtaka leikinn frá 2012, sjá hér að framan.

Ísland hefur svigrúm til að hækka tolla á tilteknar vörur líkt og Noregur hefur gert. Slík skref þyrftu að byggja á vel ígrundaðri stefnumótun sem gæti einnig falið í sér endurskoðun viðskiptasamninga við Evrópusambandið.

Slík endurskoðun væri í samræmi við úttekt utanríkisráðuneytisins frá 2020 þar sem m.a. kom fram að núgildandi samningur nýttist illa íslenskum landbúnaði.

Skylt efni: tollamál

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...