Tóku við kúabúi nágrannanna
Atli Geir Scheving og Jóhanna Bríet Helgadóttir tóku við kúabúinu á Hrafnkelsstöðum 3 um áramótin. Frá því í byrjun árs 2021 hafa þau jafnframt farið með búsforráð á Hrafnkelsstöðum 1 þar sem er 360 kinda sauðfjárbú.
Unga parinu þótti eftirsóknarvert að komast í kúabúskap með það sjónarmið að þurfa að sækja minni vinnu utan bús. Atli er nú í fullu starfi sem bóndi en Jóhanna ætlar að vinna fyrst um sinn sem grunnskólakennari. „Þetta hefur alltaf verið draumurinn, að geta unnið bara sem bóndi,“ segir Atli.

Samkvæmt Jóhönnu og Atla er rekstur á sauðfjárbúi og kúabúi tvennt ólíkt, bæði hvað varðar vinnu og afkomu. „Á kúabúinu er miklu jafnari vinna, þó að það komi tarnir. Á sauðfjárbúinu eru þessar miklu annir á vorin og haustin en á móti eru veturnir rólegur tími. Þegar við sendum í afréttinn þá þarf maður ekki að hugsa um sauðféð í þrjá mánuði en þú ferð ekkert í frí úr fjósinu,“ segir Jóhanna. „Við vorum bæði útivinnandi og búskapurinn var kvöld- og helgarvinna,“ segir Atli. Allir orlofsdagar úr dagvinnunni hafi farið í sauðburð á vorin og smalamennskur á haustin. „Það var enginn tími eftir til að fara í fjölskyldufrí, en núna er maður heima allan daginn og maður hittir börnin og þau eru með manni úti.“

„Maður hefði ekkert farið út í að taka við svona búi nema af því að börnin hafa öll brennandi áhuga,“ bætir Jóhanna við. „Það er svo mikill tími sem fer í búskapinn að fjölskyldulífið yrði frekar leiðinlegt ef bara við Atli hefðum áhugann. Þetta snýst um að leyfa þeim að vera þátttakendur, eiga sína gripi og velja sér hrúta. Þá ölum við líka upp góða vinnumenn í leiðinni.“
Byrjuðu með tuttugu gimbrar
„Í vor verða komin tíu ár síðan við komum hingað eftir að við útskrifuðumst frá Hvanneyri,“ segir Jóhanna. „Þá byrjuðum við smá í búskap og fengum tuttugu gimbrar frá ömmu og afa,“ bætir hún við. Amma hennar og afi ráku þá sauðfjárbúið á Hrafnkelsstöðum 1 en Atli og Jóhanna bjuggu í þéttbýlinu á Flúðum í fimm ár þangað til þau reistu sér hús á Hrafnkelsstöðum 1. „Áramótin ´20– ´21 tókum við alveg við fjárbúinu, en þá áttum við orðið góðan hluta af því,“ segir Atli. Þá eignuðust þau allan fjárstofn og tækjabúnað, en leigja jörðina.
Jóhanna segir að Aðalsteinn Þorgeirsson og Margrét Jónsdóttir, fyrrum bændur á Hrafnkelsstöðum 3, hafi vitað af áhuga nágranna sinna á kúabúskap um árabil. „Þau eru ekkert gömul, bara rétt rúmlega sextug, og voru ekkert endilega að spá í að hætta. Það er hins vegar spurning þegar þú veist af fólki sem hefur áhuga og er tilbúið að stökkva, þá þarftu kannski að taka þá ákvörðun að víkja,“ segir Jóhanna.
„Ég held að þau séu rosalega ánægð að þetta haldist áfram í ábúð,“ segir Atli. „Þau vildu að það yrði áfram búrekstur hérna. Þau eru búin að standa í framkvæmdum og nútímavæða fjósið. Það er kominn mjaltaþjónn og þessu var breytt í lausagöngu á sínum tíma. Öllu er vel við haldið og þetta er flott bú og eðlilega viltu kannski að starfsemin haldi áfram eftir þinn dag,“ segir Atli.

Fjármögnunin ekki ómöguleg
Unga parið gerði fyrir fram ráð fyrir að ferlið á bak við fjármögnunina væri mun erfiðara og fannst þeim ólíklegt að þau kæmust í gegnum greiðslumat til að taka við kúabúi. Jóhanna segir nauðsynlegt að vera bjartsýnn til að ráðast í fjárfestingu sem þessa. „Maður þarf að vera jákvæður og prófa að fara í þetta ferli.“ Atli bætir við að maður fari ekki í svona án þess að hafa blússandi áhuga.
Atli og Jóhanna gátu fjármagnað kaupin með láni frá Byggðastofnun. Þau funduðu með fyrri ábúendum um áramótin 2023–2024 þar sem ákveðið var að setja eigendaskiptin í farveg og var endanleg ákvörðun tekin síðasta vor. „Við hefðum getað tekið við í haust, en okkur fannst hreinlegast að taka við um áramót,“ segir Jóhanna.
Atli og Jóhanna ætla að flytja í íbúðarhúsið á Hrafnkelsstöðum 3 á meðan Aðalsteinn og Margrét ætla að flytja í íbúðarhús Atla og Jóhönnu og koma því fyrir á landskika sem þau héldu eftir. Hrafnkelsstaðir eru þríbýli og býr skyldfólk Jóhönnu á öllum jörðunum. „Þetta var ein stór jörð og henni var skipt í þrjá jafnstóra parta og þrír bræður bjuggu hérna á sínum tíma,“ segir Jóhanna.
Á Hrafnkelsstöðum 3 er hefðbundið kúabú með rúmlega 400 þúsund lítra framleiðslurétti. Þar eru að jafnaði 62 mjólkandi kýr og einn mjaltaþjónn. Jóhanna og Atli gera ekki ráð fyrir að ráðast í stórvægilegar breytingar á næstu árum. „Það verður ágætis verkefni þetta ár að viðhalda því góða búi sem við tókum við,“ segir Jóhanna.
Atli er upphaflega frá Akureyri, en hann var mjög mikið í sveit í Skriðu í Hörgárdal. Hann segir samfélagið í Hrunamannahreppi hafa tekið vel á móti honum þegar hann fluttist þangað með Jóhönnu. „Mig langaði ekki að flytja á Suðurlandið fyrst, en það er gott að búa hérna,“ segir Atli.
„Annaðhvort varð hann að koma hingað eða búa einn fyrir norðan,“ skýtur Jóhanna inn í glettin. Atli er 31 árs og Jóhanna 32 ára.
