Hið rétta um raforkuna
Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna meiri orku til að fylgja eftir vexti og framþróun samfélagsins og til að bæta raforkuöryggi.
Viðbrögð við þeim varnaðarorðum voru lengst af lítil. Landsvirkjun hefur gert sitt besta, en mjög tafsamt leyfisveitingaferli er meðal þess sem hefur staðið okkur fyrir þrifum. Við erum núna fyrst að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun, eftir hátt í þriggja áratuga undirbúning og fyrsta vindorkuver landsins rís loks við Vaðöldu, rúmum áratug eftir að fyrst var farið að huga að því.
Tvískiptur markaður
Á Íslandi er raforkumarkaður tvískiptur. Annars vegar stórnotendamarkaður, en 85% af þeirri raforku sem Landsvirkjun vinnur er seld þar. Þar eru gerðir samningar til langs tíma við fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Hins vegar er almenni markaðurinn þar sem níu smásölufyrirtæki keppast um að selja heimilum og smærri fyrirtækjum orku til skamms tíma. Samkeppnislög heimila ekki langtímasamninga á þeim markaði með sama hætti og á stórnotendamarkaði en neytendur hafa notið góðs af kvikum samkeppnismarkaði með stöðugu og lágu verði, hinu lægsta í Evrópu.
Landsvirkjun selur ekki orku til grænmetisbænda
Árið 2003 felldu ný lög niður þá skyldu Landsvirkjunar að sjá almenna markaðnum fyrir raforku. Þrátt fyrir það hefur Landsvirkjun aukið sölu inn á hann umtalsvert á síðustu árum og dregið úr sölu annars staðar. Raforkusala okkar til gagnavera er t.a.m. einungis um þriðjungur af því sem hún var árið 2022 því skammtímasamningar hafa ekki verið endurnýjaðir. Að gefnu tilefni er rétt að nefna að sú orka fer ekki í rafmyntagröft, heldur hátækniútreikninga og gagnavinnslu.
Hlutdeild Landsvirkjunar á almenna markaðnum er nú orðin 52% og hefur vaxið úr 42% frá því fyrir fjórum árum. Önnur orkuvinnslufyrirtæki s.s. HS Orka, Orka náttúrunnar og Orkusalan hafa verið með um 60% hlutdeild sem hefur farið minnkandi og er nú komin í 48%. Smásölufyrirtækin kaupa þessa orku og selja áfram.
Landsvirkjun er ekki með smásölufyrirtæki, ólíkt öðrum framleiðendum. Við seljum því ekki raforku til garðyrkjubænda og sjáum ekki breytingar á samningum þeirra.
Hins vegar get ég upplýst að verð á raforku í heildsölu hjá Landsvirkjun hefur að meðaltali hækkað um 11% milli áranna 2023 og 2024, sem jafngildir 5% raunhækkun.
50 þúsund fleiri á áratug
Á árunum 2010–2020 reisti Lands- virkjun þrjár af þeim 10 virkjunum sem fyrirtækið hefur byggt: Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfells-virkjun II. Í grófum dráttum hélt orkuvinnslugeta þá í við eftirspurn, en þó bentum við sífellt á hvert stefndi. Hið sama hafa Landsnet, Orkustofnun og Samorka gert.
Það hefur einfaldlega ekki verið fjárfest nógu mikið í raforkukerfinu sem var byggt upp af miklum metnaði og framsýni af þeim sem á undan okkur gengu. Flutningskerfið er ekki nógu öflugt og við höfum ekki getað hafið neinar framkvæmdir við stærri aflstöð síðustu ár, þrátt fyrir góðan vilja. Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað um rúmlega 50 þúsund og þriðju orkuskiptin eru hafin.
Það er hverjum manni ljóst að þessi vöxtur og umbreytingar í samfélaginu krefjast meiri orku. Hún verður ekki sótt til núverandi stórnotenda og nýtt framboð kemur ekki inn í kerfið fyrr en síðla árs 2026 ef vel gengur með nýtt vindorkuver. Næstu ár verða því án nokkurs vafa erfið þar sem samkeppni um þá orku sem er í boði á almennum markaði mun vaxa. Tveggja ára seinkun á Hvammsvirkjun vegna tafa á síðustu metrunum í leyfisferlinu mun reynast dýrkeypt.
Forgangsröðun
Í endurnýjanlegu raforkukerfi eins og okkar þýðir ekkert að hækka verðið og búast við að framboð aukist. Það tekur þrjú til fimm ár að byggja virkjanir eftir að öll leyfi liggja fyrir. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé tryggt framboð í samræmi við þá eftirspurn sem er í samfélaginu.
Ráðherra veitti opnum viðskiptavettvangi með raforku á heildsölumarkaði starfsleyfi fyrr á þessu ári. Þar hafa öll raforkufyrirtækin tækifæri til að bjóða orku fyrir almennan markað og þar hefur Landsvirkjun tekið þátt. Samkvæmt raforkulögum og orkustefnu stjórnvalda skal ríkja samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Aukin eftirspurn hækkar verð vöru, hvort sem sú vara er raforka eða agúrka og það er það sem hefur gerst.
Allt var þetta fyrirsjáanlegt. Það er hins vegar mín skoðun að í þessari þróun raforkumarkaðar þurfi að gæta að því að setja skýrar leikreglur og að þær séu til hagsbóta fyrir neytendur. Þar verða stjórnvöld að stíga inn í og móta reglurnar.
Við hjá Landsvirkjun erum reiðubúin að leggja okkar af mörkum, nú sem fyrr.