Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnaði sett fram í myndrænu formi í þúsundum tonna CO2 ígilda.
Í skýringum við myndina segir: „Myndin hér að ofan sýnir flokkun á losun frá landbúnaði, eins og hún er framsett í loftslagsvegvísi bænda. Byggt er á sömu forsendum og Umhverfisstofnun notar við vinnslu landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (ICCP).“ Síðar í myndatexta segir: „Bein losun sem landbúnaðurinn ber ábyrgð á var á árinu 2022 618 þ.t. CO2íg. Losun vegna landnotkunar sem landbúnaðurinn getur haft áhrif á, er um 7.743 þ.t. CO2íg.“ Síðan er beinni losun deilt á framleidda einingu matvæla og sú niðurstaða sýnd að losun sé 3,5 kg CO2íg. á hvert framleitt kg matvæla.
Fyrir liggur að landsskýrsla Umhverfisstofnunar er byggð á samantekt sem unnin var á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands m.a. eftir forskrift IPCC. Miklir fyrirvarar voru af háskólans hálfu settir við þá vinnu og ætlaðar niðurstöður, m.a. tengt takmarkaðri þekkingaröflun og norðlægri legu landsins.
Sé reynt að reikna losun út frá afurðum er afar brýnt að sem réttastir reiknistuðlar séu notaðir, stuðlar sem taka mið af raunverulegum aðstæðum þar sem afurðirnar eru framleiddar. Ekki er síður mikilvægt að samfara útreikningi á losum sé reiknuð binding við sömu framleiðslu.
Losunartölur þær sem settar eru fram í loftslagsvegvísi bænda eru í raun reiknaðar á grundvelli IPCC og virðast í of litlum tengslum við raunverulegt kolefnisjafnvægi landbúnaðarins.
Þótt reiknuð séu 3,5 kg CO2íg losun á hvert kg matvæla bendir flest til að í vel reknum sauðfjár- og nautgripabúskap hérlendis sé kolefnisjafnvægi eða jafnvel binding. Kolefnisjafnvægi er vel lýst með eftirfarandi setningu:
„Kolefnishlutleysi vísar til þess að losun og binding kolefnis sé í jafnvægi, þ.e. að losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda sé ekki meiri en það magn kolefnis sem fjarlægt er úr andrúmsloftinu, t.d. með því að binda það í jarðvegi eða gróðri eða með öðrum hætti.“
(SG)
Mat á loftslagsáhrifum metans við íslenskar aðstæður
Rúmur helmingur af ætlaðri beinni losun vegna landbúnaðar kemur frá metan, en fyrir liggur eftirfarandi ábending þar um: „Sameindarþyngd CH4 er um 16 en sameindarþyngd CO2 um 44. Við umbreytingu CH4 í CO2 (oxun og vatnsmyndum virðist stuðullinn því nálægt 44/16 = 2,75 en ekki 25 eins og gert er ráð fyrir í mati á loftslagsáhrifum CG4 losunar. Er þá horft til þess að CH4 eyðist á 10–12 árum og sé atvinnugrein í jafnvægi eyðist jafn mikið og losnar af CH4.“ (JG 2016) .
Á viðmiðunarári kolefnisjöfnunar 1990 voru hér á vetrarfóðrum 548.508 kindur og 78.889 nautgripir. Haustið 2023 voru vetrarfóðraðar kindur 354.986 og nautgripir 78.732. Frá 1990 hefur því verið fjarlægt (eyðst) meira af metan úr andrúmslofti en komið hefur inn vegna sauðfjár og nautgripa. Því virðist rétt að nota stuðulinn 2,75 við losun metans frá sauðfé og nautgripum meðan fjöldi gripa er minni en var 1990.
Þá má finna á erlendum vettvangi efasemdir um þær reiknikúnstir sem notaðar eru við útreikninga á losun metan frá búfé og væri ástæða til að skoða þær frekar.
Fyrirvarar varðandi losunarstuðla
Ofmat losunar í þeim tölum sem notaðar eru í Loftslagsvegvísi bænda eru raunar staðfest af Jóhanni Þórssyni líffræðingi í Bændablaðinu en þar segir hann: „Stuðlar IPCC samkvæmt aðferðarþrepi 1 eru oftar en ekki í hærri kanti þess sem gæti verið að gerast enda hvetur það ríki til að afla sér betri gagna. Það er hins vegar ekkert sem segir að útkoman verði betri þegar komnir eru landsstuðlar en í tilviki Íslands má alveg gera ráð fyrir að svo verði í einhverjum tilvikum innan sumra landnýtingarflokkanna eða undirflokka þeirra. Þetta gæti til dæmis átt við um framræst land.“
Í umfjöllun Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) um stuðla til útreiknings kolefnislosunar eru einnig verulegir fyrirvarar:
Um áreiðanleika matsins segir í inngangi: „Það mat sem hér er sett fram á losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði og tengdri landnýtingu er háð verulegri óvissu og því mjög mikilvægt að efla þekkingu á þeim ferlum sem eru í gangi.“ (JG 2016)
Í umfjöllun um losun frá framræslu segir m.a: „Almennt þá hefur það mikil áhrif á hversu hratt niðurbrot lífrænna efna gengur fyrir sig hve mikið er af auðniðurbrjótanlegum efnum eins og einföldum kolvetnum í þeim. Eftir því sem lífrænu efni brotna meira niður verður hlutfallslega minna og minna af þessum efnum, og það hægir á heildarniðurbrotinu. Þannig að búast má við að því eldri, sem viðkomandi framleiðsla er því minni sé losunin. Í gömlum framræslum hér á landi eru efstu lög jarðvegsins að mestu full niðurbrotin og þarf jafnvel að fara niður á 40–50 cm til að finna merkjanlegar plöntuleifar.
Miklu getur skipt að bæta mat á áhrifum þessara þátta á losun úr framræstu landi og jafnframt að skipta því upp m.t.t. þessara þátta.“ (JG 2016)
Um landnýtingu segir m.a: „Það skiptir líka máli hvernig meðferð er á landinu innan hvers landnýtingarflokks. Það er t.d. vel þekkt erlendis að kolefnisforði lands í ræktun getur bæði aukist og minnkað eftir því hvernig staðið er að ræktuninni. Innan Kyoto bókunar loftslagssamningsins er ríkjum gert kleift að nýta sér breytingar í ræktun (Cropland management) til að binda kolefni til mótvægis við þá losun sem er hjá þeim. Hér á landi hefur þessum þætti lítið verið sinnt, en að öllum líkindum þurfa að verða breytingar þar á á næstu árum, m.a. vegna samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir í loftslagsmálum.“ (JG 2016)
Enn fremur segir: „Hver staðan er núna á almenna mólendinu liggur ekki ljóst fyrir eins og rætt er hér að framan. Mögulega eru hér á ferðinni mjög stórar tölur í losun og eða upptöku kolefnis.“ (JG 2016)
Um breytingar á gróðurfari segir m.a: „Mælingar Skógræktar ríkisins hafa sýnt að birkikjarr er að aukast bæði að umfangi og kolefnisforða á hverri flatareiningu (Hellsing et al. 2014).
Skýring aukningarinnar liggur ekki ljós fyrir en m.a. hefur verið bent á minni beit en var á níunda áratug síðustu aldar og hlýnandi veðurfar. Einnig kann hluti skýringar að vera að kjarr sé að sækja inn í framræst votlendi.“ (JG 2016)
Að lokum segir m.a: „Til að nálgast heildarlosun einhverrar framleiðslu er oft gerð s.n. lífsferilsgreining á viðkomandi framleiðslu, en þá er framleiðsluferlið rakið lið fyrir lið og allir þættir þess innan skilgreindra marka metnir m.a. m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda. Slíkar greiningar eru utan viðfangsefnis þessarar skýrslu, en væru að mati höfunda skynsamlegt næsta skref til að skerpa myndina fyrir einstakar greinar landbúnaðarins.“ (JG 2016)
Samkvæmt því sem fram kemur hér að ofan eru þeir reiknistuðlar sem notaðir eru í loftlagsvegvísi landbúnaðarins í besta falli ótraustir og virðast raunar oft rangir í okkar landbúnaðarumhverfi.
Afleiðingar af notkun of hárra losunarstuðla:
Markaðsstaða landbúnaðar veikist, sbr: „Fræðimenn við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa þannig reiknað út að losun við framleiðslu á einu kílói af íslensku lambakjöti sé svipuð og af flugferð frá Íslandi til meginlands Evrópu“ (Ólafur Stephensen Mbl. 17.12. 2022).
Áhugi bænda á þátttöku í loftslagsverkefnum minnkar sé landbúnaður borinn röngum sökum varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.
Virtir vísindamenn gagnrýna að ósekju stöðu landbúnaðar í loftslagsmálun, sbr. ummæli Halldórs Þorgeirssonar í RÚV 27. nóv. sl.
Því lengur og meir sem rangir stuðlar eru notaðir, því meiri trúverðugleika öðlast þeir.
Tækifæri til sóknar:
Í umfjöllun LbhÍ sbr. hér að ofan felast einnig tækifæri til sóknar í landbúnaði:
Skynsamleg nálgun á raunverulegri stöðu metan frá íslenskum landbúnaði í lofthjúpi jarðar breytir mjög sýn á loftslagsáhrif landbúnaðarins.
Rangt er að reikna árlega aukningu metan í lofthjúpi jarðar vegna íslenskra jórturdýra þegar fyrir liggur að metan í andrúmslofti frá þeim komið minnkar ár frá ári.
Heimild bænda til að nýta sér breytingar í ræktun til að binda kolefni til mótvægis við þá losun sem er hjá þeim kann að breyta miklu varðandi kolefnisjafnvægi hjá fjölda búa.
Breytingar í ræktun gætu m.a. falist í bættri nýtingu búfjáráburðar og takmörkun á plægingu og annarri jarðvinnslu. Einhver umfangsmesta kolefnisbinding hérlendis er binding kolefnis við framleiðslu á heyi af vel ræktuðum túnum. Sé allur búfjáráburður borinn aftur á túnin á heppilegum tíma má ætla að a.m.k. 20% af því kolefni sem bundið er í heyinu, við kolefnistillífun með tilstyrk sólarljóss, bindist varanlega í túnunum. Sú binding gæti numið allt að 1,5 tn CO2íg á hektara.
„Nýleg safngreining á fjölda rannsóknaniðurstaðna alls staðar að úr heiminum sýnir að búfjáráburður eykur mjög kolefnisforða jarðvegs og enn frekar ef einnig er borinn á tilbúinn áburður (Gross, Glaser 2021). Áhrifin eru mest hlutfallslega í köldu loftslagi og þar sem kolefnisinnihald jarðvegsins er mjög lágt“. (ÞS og fl. 2022)
Staðfest er breytt gróðurfar og auking á öflugum kolefnisbindandi gróðri á eldra framræstu landi.
Víða má sjá í eldri skurðahólfum sem ekki hafa verið tekin til ræktunar að þar vex nú upp öflugri gróður en í næsta umhverfi, m.a. birki og víðirunnar. Skýringin er væntanlega að losun köfnunarefnis samfara framræslu nýtist plöntunum til vaxtar en skortur á köfnunarefni er yfirleitt takmarkandi þáttur við vöxt jarðargróða í úthögum hérlendis. Ætla má að þegar allangt er liðið frá framræslu (30 ár?) hafi dregið svo úr kolefnislosun að binding vegna vaxandi gróðurs sé meiri en losun og því kolefnisjafnvægi í eldri framræslu víða jákvætt.
Lífsferilsgreining einstakra búa mikilvæg
Lífsferilsgreining á búskap og búskaparháttum á einstökum búum virðist forsenda fyrir raunhæfu mati á kolefnisjafnvægi hvers bús. Við það mat verður að nota losunar- og bindistuðla sem taka mið af aðstæðum búsins svo sem nýtingu búfjáráburðar, jarðvinnsluaðferðum, aldri framræslu, gæði beitilanda og fl. Hvorki mun fást rétt né skynsamleg niðurstaða með notkun fjarlægra IPCC stuðla
Eru vísindin á undanhaldi?
Með breyttu formi tjáskipta eykst hætta á að fagleg umræða og nýting þekkingar eigi í vök að verjast gagnvart hugmyndafræði og hleypidómum. Þessari hættu er vel lýst í lok greinar sem Þröstur Eysteinsson ritaði í Skógræktarritið (síðara hefti 2023) við lok farsæls starfs sem skógræktarstjóri, en þar segir hann:
„Taka ber hugmyndafræði með fyrirvara. Að hugsa út frá hugmyndafræði felur í sér að fylgja ákveðnum viðmiðum/skoðunum sem einhver annar hefur þróað, eða það sem verra er, einhver hópur fólks. Ekki það að hópar geti ekki komist að skynsamlegri niðurstöðu, það er bara að þeir gera það oft ekki, af því að meðlimir hópsins hafa að minnsta kosti jafn mikla þörf fyrir að samsamast hópnum og að ná skynsamlegri niðurstöðu. Þess vegna hafa ráðandi hugmyndir, annað hvort þær sem meirihlutinn heldur fram eða þær sem ráðandi einstaklingar hafa, tilhneigingu til að verða að hugmyndafræði fremur en þær sem eru skynsamlegar, í takti við raunveruleikann eða vísindalega staðfestar. Fólk sem aðhyllist hugmyndafræði tekur því sem gefnum hlut að það hafi rétt fyrir sér og að það sé siðferðilega æðra þeim sem ekki fylgja sömu hugmyndafræði. Skoðanir sem ekki eru í samræmi við hugmyndafræðina eru einfaldlega rangar í þeirra huga. Þar sem hugmyndafræðin er gefin er ekki þörf á að rökræða hana. Andmæli skoðast sem árásir frekar en rökræða. Það er kaldhæðnislegt að fylgjendur hugmyndafræði saka oft aðra um þröngsýni.“
Vonandi fellur umræða um kolefnisjafnvægi landbúnaðarins ekki í gryfju hugmyndafræðinnar.