Varðveisla erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði
Erfðaauðlindir eru skilgreindar sem lífverur sem bera fjölbreytta eiginleika í erfðaefni sínu og hafa fætt okkur og klætt, veitt okkur skjól, orku, byggingarefni og yndi, auk þess að vera hluti af sögu og menningararfleifð okkar.
Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins (2024-2028) hefur verið birt í fjórða sinn, með henni er mótuð stefna nefndarinnar um varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði.
Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni sem Alþingi fullgilti 1994 nær til allra tegunda lífríkisins. Nytjaplöntur og húsdýr hafa þar nokkra sérstöðu og af hálfu Íslands er ábyrgð þeirra erfðaauðlinda falin sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með búnaðarlögum nr. 70/1998 með síðari breytingum, nú matvælaráðuneyti. Sér til fulltingis hefur ráðuneytið erfðanefnd landbúnaðarins, en verkefnum hennar er lýst í 16. grein laganna. Með reglugerð 151/2005 um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði og lögum 54/1990 um innflutning dýra er nánar kveðið á um verkefni nefndarinnar.
Varðveisla erfðabreytileika og sjálfbær nýting erfðaauðlinda eru lykilatriði varðandi framtíð matvælaframleiðslu í landbúnaði. Erfðabreytileiki er undirstaða þess að nytjategundir geti aðlagast breyttum umhverfisaðstæðum og er jafnframt forsenda þess að hægt sé að stunda árangursríkar kynbætur til framtíðar. Í umræðu dagsins um loftslagsbreytingar og aðrar umhverfisógnir sem geta haft veruleg áhrif á framleiðslu matvæla í landbúnaði verður þetta starf sífellt mikilvægara.
Landsáætlunin nær yfir nytjaplöntur, skóg, búfé og villta ferskvatnsfiska og í öllum þessum flokkum eru tegundir og/eða stofnar sem gæta þarf að. Á Íslandi eru það ekki síst íslensku búfjárkynin sem skapa sérstöðu landbúnaðar hér á landi og þau eru því áberandi í áætluninni hverju sinni. Til að standa vörð um erfðaauðlindir í landbúnaði er nauðsynlegt að verndun þeirra búfjárkynja sem standa höllustum fæti sé tryggð.
Töluvert hefur áunnist frá því að síðasta landsáætlun var sett fram og ber þar að nefna fjölgun geita og aukin nýting afurða af geitum. Íslenska geitin er enn í útrýmingarhættu en hættan hefur minnkað og vonandi heldur sú þróun áfram. Íslenskt forystufé hefur verið skilgreint sem sérstakt sauðfjárkyn og er einnig í útrýmingarhættu. Með stuðningi frá erfðanefnd landbúnaðarins hefur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins unnið að eflingu skýrsluhalds sem er mikilvægt fyrir framtíð stofnsins og varðveislu hans. Varðandi íslenska hænsnastofninn er mikilvægt að gerð verði rannsókn á uppruna hans og skyldleika við önnur kyn svo hægt verði að leggja drög að verndaráætlun og mat á varðveislugildi stofnsins. Arfgerðir sem veita sauðfé vernd gegn riðu hafa fundist og gefa möguleika á að verjast riðuveiki með ræktun þolins stofns í stað niðurskurðar heilla hjarða eða sauðfjár í heilum sveitum. Erfðanefnd landbúnaðarins veitti styrk til arfgerðagreininga riðuhjarða til að meta áhrif mögulega verndandi arfgerða. Að óbreyttu verður að telja að varðveisla erfðafjölbreytileika nautgripa, sauðfjár og hrossa sé í ágætu lagi og ekki ástæða til sérstakra aðgerða varðandi þá stofna. Þó er nauðsynlegt að fylgjast með þróun skyldleikaræktar og lækkun virkrar stofnstærða nautgripa, sauðfjár og hrossa því að á undanförnum árum er merki um allhraða aukningu í skyldleikarækt.
Töluverð uppbygging hefur verið í laxeldi í sjókvíum og landeldi hér á landi og hefur erfðanefnd landbúnaðarins lýst yfir áhyggjum af þróun þeirra mála. Nefndin hefur hvatt til þess að menn fari sér hægar á meðan ekki liggur fyrir meiri þekking á hættu á erfðablöndun við villta stofna og telur nauðsynlegt að unnið sé að þróun og rannsóknum á kynhlutleysingu fiska í eldi.
Í áætluninni er fjallað er um mikilvægi þess að stofnaður verði genbanki til varðveislu erfðaefnis íslenskra búfjárkynja. Eðlilegt er að þessi starfsemi heyri undir genbanka í umsjón opinberra aðila til að draga úr hættu á ófyrirséðum áföllum. Genbankar þjóna mikilvægu hlutverki og eru öflug tól til að varðveita erfðaefni og geta þjónað sem öryggisnet fyrir framtíðina og til að styðja við plöntu- og búfjárrækt. Helstu ógnanir sem steðja að húsdýrum á heimsvísu eru hve fá húsdýrakyn, af þeim fjölda sem til er, standa undir stærstum hluta af matvælaframleiðslu heimsins, hnattræn hlýnun, sníkjudýr og smitsjúkdómar, ágengar tegundir og mengun svo eitthvað sé nefnt. Evópusambandið og FAO hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á að aðildarlönd starfræki genbanka fyrir húsdýr
hliðstætt genbanka fyrir plöntur.
Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins má nálgast
á heimasíðu nefndarinnar www.agrogen.is