Minkaveiðiátak
Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var alin upp í Kollafirði, mér sögur af því að þegar hún var barn fékk hún oft að fara með eldri bræðrum sínum að veiða silung í Kollafjarðaránni.
Veiðarnar fóru þannig fram að sett var lukt yfir hyl, beðið smá stund, síðan var fiskinum mokað upp með heykvísl (ótrúlegt en satt) og oft var góður afli. En svo kom minkurinn.
Minkar voru fyrst fluttir til Íslands árið 1931 og byrjuðu að sleppa sannarlega 1932 í Grímsnesi en einnig í Reykjavík og Mosfellssveit á næstu árum á eftir.
Fyrsta minkagrenið fannst við Elliðaárnar 1937, ári seinna við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu áratugum alltaf á stærra og stærra svæði, stöðvaði að sunnanverðu við Skeiðarársand, en hélt áfram norður og austur með landinu og endaði landnámið í Öræfasveit 1975.
Á uppvaxtarárum móður minnar í Kollafirði minnkaði veiði í ánni mjög og svona veiðiaðferðir heyrðu sögunni til. Þetta ber einmitt upp á sömu áratugi og minkar voru að dreifast um svæðið og ná varanlegri búsetu, enda löngu ljóst að þeir hafa áhrif á fiskgengd á minni vatnasvæðum, lækjum, skurðum, tjörnum og minni ám þar sem seiðauppeldi er oft mikið.
Minkar eru miklir tækifærissinnar í fæðuvali og veiða bara það sem hentar hverju sinni, hvort sem það er fugl eða fiskur, veiða oft miklu meira en þeir torga, sem er trúlega forðasöfnun, gjöreyða oft heilu vörpunum eins og var í fréttum í vor þar sem kríuungar komust upp á Seltjarnarnesi þegar leyft var að fara með minkahunda um svæðið öðru hvoru.
Það er fróðlegt að skoða á YouTube , „mink vs svan“, og veit ég um tvö dæmi hér á landi þar sem minkar hafa sést drepa álftir, þetta er örugglega ekki algengt en sýnir vel hörkuna og dugnaðinn í þessum litlu skepnum. Einnig má sjá á sama stað minka veiða miklu stærri fiska en þeir eru sjálfir.
Höfundur þessarar greinar er gamall sjóari með áhuga á skotveiðum. Ég hef verið með fimmtán til tuttugu minkagildrur í rúm fimm ár á svæði sem er um einn þriðji af Flóahreppi í Árnessýslu. Í þessar gildrur hafa, þegar þetta er skrifað, komið 208 minkar, sem er ekki mikið á ári. En áhrifin á fuglalífið eru mjög augljós. Til að hafa áhrif á fiskgengd þarf örugglega stærra svæði í miklu lengri tíma.
Úr því að þetta er hægt samhliða sjómennsku í fjögur ár af fimm geta menn ímyndað sér hvað er hægt að gera í alvöru átaki hjá miklu fleiri á öllu landinu í miklu lengri tíma. Ég held að skaði af völdum minka í náttúrunni yrði orðin lítill eftir tíu ár þó ekki mætti láta þar við sitja.
Tilgangurinn með þessari grein er einmitt sá að hvetja alla sem búa úti í sveit, eiga sumarbústaði við ár, vötn eða sjó, eða alla sem eru þar sem minkar halda sig, yfir höfuð alla sem láta sig málið varða, að gera eitthvað í málinu. Það tekur kannski tvo til fjóra klukkutíma í upphafi að útbúa tvær til fjórar gildrur og koma þeim fyrir en síðan bara klukkutíma á viku í mesta lagi. Minkar eru nefnilega ofboðslega duglegar, grimmar skepnur en afskaplega vitgrannar og með smá tilsögn auðveiddar. Það þarf enga sérfræðinga í það.
En fyrir alla muni, minkar eru lifandi dýr og eiga að njóta sömu réttinda og önnur dýr, að gildrur sem þeir eru veiddir í sé útbúnaður sem aflífar þá strax. Slíkan útbúnað er bæði hægt að kaupa á Íslandi og smíða sjálfur, forneskjuleg pyntingaveiðarfæri eru óþörf. Það er árið 2024 og við, hinn viti borni maður. Mjög mikilvægt er, hvernig sem gildran er útbúin, að gatið inn í hana sé ekki meira en sjö sentímetrar í þvermál. Minkar fara auðveldlega inn í það en kettir ekki. Ég hef einu sinni fengið kött í gildru, þá var gatið stærra.
Minkar sluppu fyrst út í náttúruna 1932 sem fyrr segir og byrjuðu strax að dreifast um landið. Að sporna við útbreiðslu þeirra og síðar fækkun var í höndum ríkisins, síðar sveitarfélaganna. Löngu er komið í ljós að það hefur ekki skilað nema litlum áragri ef einhverjum þar sem aldrei hefur verið gert nema hluti af því sem þarf. Sparnaðarsjónarmið tekin fram fyrir árangur allt of víða og afraksturinn hjakk í sama farinu. Allavega er fullt af mink á Íslandi eftir áttatíu til níutíu ára aðgerðir.
Það er kominn tími til að allir sem láta sig eitthvað varða fuglalíf eða fiskgengd geri ettthvað í málinu sjálfir. Ég hvet reynslubolta í gildruveiðum að miðla af reynslu sinni. Það er síða á Facebook sem heitir „Refaveiðar og minkaveiðar á Íslandi“ og er upplagður vettvangur fyrir leiðbeiningar og til að bera saman bækur. Margar hendur vinna létt verk.