Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á einn eða annan hátt.
Nytjaskógur er skógur sem gefur af sér við til sölu eða til að nota í gagnlega hluti. Þú gætir byggt þér hús úr trjánum í nytjaskógi. Birkið var hér áður fyrr notað til að refta þök, til eldiviðar og fleira. Notað undir torfið, en þá þurfti rafta undir til að halda þakinu uppi. Birkiskógar voru nytjaskógar hér áður fyrr. En við byggjum ekki hús úr birkiskógunum okkar í dag, eða hvað? Til þess er íslenska birkið of kræklótt, ekki nothæft í borðvið, eða rafta. Er birkiskógur þá ekki lengur nytjaskógur? Er kanski hægt að nota hann til að binda kolefni? Breyta CO2 í kolefni í trjám og minnka þannig koltvísýring í andrúmsloftinu: Auka súrefni andrúmsloftsins á kostnað koltvísýrings? Auðvitað er það hægt. Er það varanleg aðgerð eða er það bara skammtímalausn?
Ég hef áður bent á að beit eykur uppskeru. Það gerist líka þegar túnið er slegið aftur. Slegið tvisvar sama sumarið. Uppskeran eykst. Þetta vita bændur. Skógarplöntur sem er plantað á árinu 2024 fara ekki að binda kolefni fyr en eftir 12–14 ár. Fram að þeim tíma er plantan að borga fyrir uppeldið. Borga upp lánið, fjárfestinguna. Eftir það fer hún að safna ,,kolefnisspori“, binda kolefni og minnka koltvísýring andrúmsloftsins. Heldur hún áfram að safna kolefnisspori um aldur og ævi, eða hvað? Nei, það gerir hún ekki.
Nýting er forsenda hringrásar
Hér þurfum við að staldra við. Tré, eins og aðrar lífverur, eiga sitt æviskeið. Í náttúrunni vaxa tré upp af fræi, og byrja því strax að leggja inn á bankann, en það er samt ekki talið eins ,,hagkvæmt“ að láta ,,nytjaskóg“ vaxa upp af fræi.
Nytjaskógur gefur mest af sér ef hann er nytjaður eftir ákveðinn árafjölda, þegar flest trén hafa náð ,,fullum þroska“. Þetta þarf að gerast á ákveðnum tímapunkti. Þá er skógurinn höggvinn og framleiddur viður. Viður sem við notum, nytjaviður, nytjaskógur. Skógarbóndinn veit að það er hagkvæmara að planta nýjum trjáplöntum, í stað þess að láta skóginn vaxa upp af fræi.
Í skógi sem ekki er nytjaður vaxa trén áfram þar til þau hætta að vaxa og deyja. Rotna og skila kolefninu aftur til náttúrunnar í formi koltvísýrings. Nytjaskógur, skógur sem er nýttur til viðarframleiðslu. Byggja eitthvað sem gagnast okkur mannfólkinu til að lifa á eða af.
Nytjaskógur, nytjaplöntur (t.d. grænmeti), grös, beit fyrir búfé (til að framleiða kjöt) er eitthvað sem við nýtum okkur til framfærslu. Ef við nýtum ekki skóginn, grasið eða grænmetið, þá rotnar það og skilar kolefninu, í formi koltvísýrings, aftur út í andrúmsloftið.
Nýting auðlinda er frumskilyrði þess að þær hjálpi okkur að minnka koltvísýring andrúmsloftsins. Hvort sem auðlindin er hvalur, gras, skógur, lundi eða annað sem leggur sitt af mörkum til að viðhalda lífi á móður jörð. Stundum leiðir það að nýta ekki tegundina til hnignunar hennar. Þetta gæti hafa gilt um lundastofninn, en veiðar á lunda voru bannaðar á liðnu hausti. Rétt hefði verið að leyfa háfaveiðar. Þær leiða til þess að geldfugl veiðist, sem ætti að leiða til meira fæðuframboðs fyrir fugla sem eiga unga, og til ungfugla. Betri skilyrða fyrir aðra fugla stofnsins. Meiri viðkomu. Frumskilyrði þess að skógur bindi kolefni til langs tíma er að hann sé nýttur. Trén séu ,,hoggin“ og nýjum skógi plantað, eða hann látinn vaxa upp af fræjum. Þá erum við með nytjaskóg, hringrás, og varanlega bindingu kolefnis til langs tíma. Skógurinn bindur meira kolefni ef hann er nytjaður heldur en ef hann er látinn deyja og rotna engum til gagns. Hið sama gildir um grasið. Ef það er ekki nýtt, til dæmis sem beit fyrir búfé til að framleiða kjöt, mjólk eða annað (til dæmis reiðhesta), þá hverfur það aftur til náttúrunnar, rotnar og myndar gös sem valda hlýnun andrúmsloftsins. Það gerist auðvitað ekki á einu ári. Ekki heldur á 10, 20 eða 30 árum. Við erum að tala um þróun. Aldir! Það sem ég er að reyna að segja er, að til að kolefnisbinding í skógi hafi áhrif, bindi kolefni til langs tíma, þarf að nýta skógarviðinn okkur til framdráttar. Við byggðum hús úr viði í staðinn fyrir að byggja hús úr steypu, sem dæmi. Við smíðuðum bekki og borð úr viði í stað plasts. Notum efni sem binda kolefni. Hættum að nota efni sem hafa hátt kolefnisspor í stað efna sem hafa bundið kolefni. Tekið kolefnið, C, úr koltvísýringi, CO2, og skilað súrefni út í andrúmsloftið!
Nytjaskógar, nytjaplöntur og nytjaland eiga það sameiginlegt að binda kolefni. Hafa jákvætt kolefnisspor.