Sjá metan úr gervihnöttum
Ný tækni gerir vísindamönnum kleift að kortleggja uppsprettur metans.
Sameinuðu þjóðirnar reka eftirlits- og viðvörunarkerfi sem fylgist með losun metans á heimsvísu. Frá því að kerfið var virkjað árið 2023 hefur stjórnvöldum og fyrirtækjum verið bent á 1.200 uppsprettur metans. Skýrsla þess efnis var kynnt á COP29.
Í fréttatilkynningu á vef Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) er greint frá helstu niðurstöðum skýrslunnar. Þar er tekið fram að leki metans kosti olíu- og gasfyrirtæki heimsins mikla fjármuni á ári hverju. Talið er að hægt sé að koma í veg fyrir 40 prósent metanlosunarinnar sem sést með gervihnattamyndunum án þess að heildarrekstrarkostnaður aukist.
Markmið verkefnisins er að auka gagnsæi vegna losunar metans til þess að þrýsta á þá sem bera ábyrgð á uppsprettunum til þess að grípa til aðgerða. Þar má nefna að engin metanlosun er lengur greinanleg úr einni uppsprettu metans í Alsír eftir að stjórnvöldum var gert viðvart. Nígería hefur kynnt metangjald sem verður byggt á áðurnefndum gervihnattagögnum og hyggst Evrópusambandið safna þessum gögnum saman til þess að reikna út innflutta losun.
Árangur verkefnisins hefur enn verið takmarkaður og heldur losun metans áfram að aukast. Þriðjung hnattrænnar hlýnunar má rekja til losunar metans af mannavöldum. UNEP heldur úti gagnvirku korti sem sýnir metanuppsprettur heimsins. Hægt er að nálgast það með því að fletta upp „Eye on Methane Map“ í leitarvél.