Möguleg neikvæð áhrif á dýr með nýjum stjórnvöldum
Donald J. Trump, nýkjörinn forseti Bændaríkjanna, hefur heitið miklum breytingum á vissum þáttum stjórnkerfisins sem gætu haft djúpstæð áhrif á dýralíf Bandaríkjanna.
Í New York Times var nýlega fjallað um möguleg neikvæð áhrif á dýralíf í Bandaríkjunum með nýjum stjórnvöldum. Alríkisstjórnin geti haft mikið um afkomu dýrategunda að segja, hvort sem um villt dýr eða búfé sé að ræða.
Yfirlýsingar Trumps um breytingar á reglugerðum gefi tilefni til að hafa áhyggjur af framtíð dýralífs þar í landi, þar sem látið sé í það skína að hagsmunir fyrirtækja og iðnaðarins verði teknir fram fyrir velferð dýra.
Slakað á kröfum um aðbúnað dýra
Í New York Times segir að í fyrri stjórnartíð Trumps hafi reglur verið einfaldaðar um dýr í útrýmingarhættu, þannig að auðveldara hafi verið að taka dýrategundir út af listanum. Þá herti hann kröfurnar fyrir vernd dýrategunda sem stafar ógn af loftslagsáhrifum. Biden snéri þessum breytingum við í sinni stjórnartíð, en nú eru horfur á því að Trump breyti þeim á ný til fyrra horfs.
Í umfjölluninni kemur fram að Trump hafi veikt reglugerðarumhverfið sem snýr að velferð búfjár í fyrri stjórnartíð sinni og líkur séu á að hann muni stefna í breytingar í þá veru á ný. Búast megi við að slakað verði á almennum kröfum um aðbúnað dýra og eftirlit í sláturhúsum til að hraða megi á framleiðsluferlinu.