Nýr skóli byggður
Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samrekinn leik- og grunnskóli ásamt frístund.
Skólastarf var flutt frá grunnskólanum að Dalbraut árið 2022 vegna myglu í húsnæði og hefur síðan farið fram í Gamla skóla, Muggsstofu og Skrímslasetrinu.
Ákveðið var í kjölfarið að reisa skyldi nýjan Bíldudalsskóla á lóð við íþróttamiðstöðina Byltu, sem nýta mætti á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Vonir standa til að húsnæðið verði tilbúið fyrir skólastarf haustið 2025. Í skólanum eru 27 nemendur sem búa allir á Bíldudal og starfsmenn eru 10.
„Það er mikil tilhlökkun með nýja skólann okkar. Það verður einnig spennandi að hafa leikskólann og grunnskólann í sama húsnæði því það á eftir að byggja upp lærdómssamfélagið, sem við höfum verið að vinna að síðustu ár og setja betri tengingu á milli skólastiga,“ segir Lilja Rut Rúnarsdóttir skólastjóri.