Metinnflutningur á koltvísýringi
Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af koltvísýringi fyrir tæpan milljarð króna. Aldrei hefur jafnmikið af efninu verið flutt inn til landsins og stefnir í metinnflutningsár.
Eftirspurn eftir koltvísýringi hefur aukist hér á landi, sér í lagi með tilkomu fiskeldis og þörungavinnslu, en efnið er einnig notað í drykkjarframleiðslu og matvælapökkun og fleira. Koltvísýringur er mikilvægt hráefni í garðyrkjuframleiðslu þar sem efninu er dælt inn í gróðurhús til að auka vöxt og gæði plantna.
Hér á landi er koltvísýringur einungis framleiddur á jörðinni Hæðarenda í Grímsnesi en fyrirtækið Linde Gas á þar allan nýtingar- og vinnslurétt. Framleiðslan þar hefur verið á bilinu 3.800 – 4.900 tonn á ári sl. áratug en Sigurður Karl Jónsson, eigandi jarðarinnar, hefur sagt að með góðu móti væri hægt að framleiða ríflega landsþörf.
Innflutningur á koltvísýringi hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðin ár. Árið 2019 voru hingað flutt rétt rúm 1.000 tonn, þau voru rúm 1.500 árið 2021 og rúm 1.800 í fyrra.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru tæp 2.600 tonn af koltvísýringi flutt hingað til lands á fyrstu níu mánuðum ársins. Langmest af innflutta koltvísýringnum, eða tæp 2.400 tonn, komu frá Svíþjóð, þaðan sem Linde Gas flytur inn efnið. Samkvæmt Hagstofunni var meðal CIF-verð á kílóið 27 krónur. Samkvæmt Sigurði Karli greiðir Linde Gas honum tæpar 3 krónur fyrir hvert kíló af koltvísýringi sem það vinnur ásamt því að útvega honum vatn í hitaveitu.