Rannsakað hefur verð í Bandaríkjunum að með því að gefa kúm fjörugrös, allt að 6% af heildaráti þurrefnis, þá minnkaði metanlosun þeirra um 14% án þess að það bitnaði á nyt kúnna.
Rannsakað hefur verð í Bandaríkjunum að með því að gefa kúm fjörugrös, allt að 6% af heildaráti þurrefnis, þá minnkaði metanlosun þeirra um 14% án þess að það bitnaði á nyt kúnna.
Mynd / Pixabay
Á faglegum nótum 14. mars 2025

Þörungar, þang og þari í fóðri nautgripa?

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Fyrir nokkrum árum kom út áhugaverð skýrsla frá Matís sem fjallaði um niðurstöður rannsóknar á því hvernig nýta mætti þang sem fóðurbæti fyrir nautgripi.

Markmiðið með þessu verkefni var þríþætt; í fyrsta lagi að auka nyt mjólkurkúa og kanna gæði og efnainnihald kúamjólkur eftir þanggjöf, í öðru lagi að nota þang sem steinefnagjafa í fóður og í þriðja lagi að fá joðríka mjólk frá kúnum. Niðurstöður leiddu í ljós að þanggjöf gæti haft jákvæð áhrif á mjólkurframleiðsluna.

Framleiðsla á bæði náttúrulegum og ræktuðum þörungum, þangi og þara er gríðarlega umfangsmikil víða í Asíu svo dæmi sé tekið, en þessi búgrein er þó minna útbreidd í Evrópu. Í þessari grein verður samheitið „þörungar“ notað fyrir umfjöllunina til einföldunar og þá ekki gerður greinarmunur á þörungum, þangi eða þara enda eru þörungar samheiti yfir tugþúsundir tegunda vatna- og sjávargróðurs. Áhugi á nýtingu þörunga hefur stóraukist í Evrópu og raunar um allan heim undanfarin 5-10 ár. Ástæðurnar eru aukinn áhugi á nýtingu sjávarauðlinda og um leið horft til þeirrar gríðarlegu framleiðslugetu næringarefna sem sjórinn og strandlengjurnar hafa. Þá binda þörungar kolefni auk þess sem þá má nýta til að framleiða orku og prótein, lífvirk efni, heilsueflandi efni og margt fleira. Þessi áhugi á vinnslu og sérvinnslu þörunga hefur svo leitt til þess að þetta sjávarfang er nú einnig áhugavert, eða öllu heldur enn áhugaverðara en áður, sem fóður fyrir skepnur.

Heppilegt fóður?

Næringarlega séð hafa sumar þörungategundir mikla möguleika sem fóður fyrir jórturdýr og alþekkt er að bæði kýr og kindur gæða sér oft á þara sé það í boði við strendur landsins þar sem gripirnir eru á beit. En notkun slíks sjávarfangs sem fóður getur einnig borið með sér margar áskoranir enda er þurrefnisinnihaldið lágt og á sama tíma afar hátt hlutfall steinefna. Þá geta þörungar mögulega borið með sér þungmálma auk þess sem þetta þarf ekki endilega að vera sérlega ódýrt fóður t.d. vegna flutningskostnaðar. En af hverju þá að ræða þetta yfirhöfuð?

Danir áhugasamir

Undanfarin ár hafa danskir vísindamenn unnið að því að rannsaka hvernig megi sem best nýta þörunga sem fóður fyrir nautgripi og þá ekki síður hvaða tegundir henti best enda er um hundruð tegunda að velja í raun. Ástæðan fyrir áhuga danska vísindafólksins á þörungum er að ýmsar rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á að þang getur mögulega dregið úr sótspori nautgriparæktar en þarlend stjórnvöld hafa sett nokkuð stífar kröfur á danskan landbúnað hvað sótspor snertir, sem svo aftur skýrir áherslurnar sem vísindafólkið hefur.

Fjörugrös draga úr metanlosun

Fjörugrös, Chondrus crispus, er rauðþörungur sem vex víða við strendur Atlantshafsins og m.a. á Íslandi við strendur sunnan og suðvestan lands. Þessi þörungur hefur öldum saman verið nýttur til manneldis og ýmsar afurðir unnar úr honum. Vinnsla á þessum þörungi er því víða nokkuð almenn og því tiltölulega gott aðgengi að honum fyrir bændur. Það hefur nefnilega verið rannsakað í Bandaríkjunum að með því að gefa kúm fjörugrös, allt að 6% af heildaráti þurrefnis, þá minnkaði metanlosun þeirra um 14% án þess að það bitnaði á nyt kúnna. Þessi tegund þörungs gæti því verið áhugaverð, sé fóðrun hennar hagkvæm, til að draga úr framleiðslu á metani úr vömb.

Fóðrun með þörungum

Þrátt fyrir að þetta sjávarfang hafi verið notað sem fóður og beitargróður um langa hríð hefur afar takmörkuð þekking verið fyrir hendi um fóðurgildi þess. Norsk rannsókn bendir til þess að þörungar geti verið heppilegir sem próteingjafar í fóðri nautgripa en finna þarf rétta tegund enda getur bæði próteininnihaldið og öskuinnihaldið verið afar breytilegt á milli tegunda. Með öðrum orðum þarf að finna heppilega tegund sem ekki er of há í steinefnum. Þá er þurrefnisinnihald þeirra nokkuð breytilegt einnig en svipar þó til þess þurrefnis sem t.d. má vænta við ræktun á smárablönduðu grasi. Þá sýna rannsóknir að meltanleiki þörunga er gríðarlega breytilegur og allt frá því að vera mjög hár hjá rauðþörungunum og þá á við það besta sem gerist í vel verkuðu grasi Grænþörungar eru með lægri meltanleika en rauðþörungar en brúnþörungar aftur með mjög breytilegan meltanleika allt eftir því um hvaða tegund er að ræða.

Vinnsla þörunga sem fóðurbætandi efni

Blautuppskornir þörungar hafa mjög stutt geymsluþol og því þarf annað hvort að gefa það hratt, helst sama dag og var uppskorið, eða vinna áfram annað hvort með þurrkun eða frystingu. Súrsun er einnig eitthvað sem verið er að skoða enda eru þurrkun og frysting of kostnaðarsamar fyrir almenna notkun fyrir nautgripafóður að því að talið er. Súrsun fóðurs, sem allir bændur þekkja auðvitað vel, er eitthvað sem horft er til sem lausn við verkun á þörungum en vandinn er hið mikla vatnsinnihald. Þá eru þörungar ekki með neina náttúrulega stofna af mjólkursýrugerlum, sem eru nauðsynlegir fyrir góða votverkun fóðurs, svo við vinnsluna þarf að nota íblöndunarefni til að koma réttu ferli af stað, þ.e. með því að bæta út í fóðrið mjólkursýrugerlum.

Auðvelt að fóðra með

Að bæta þörungum í fóður mjólkurkúa hefur þann kost að auðvelt er að gera það í reynd, ef notast er við heilfóður. Nú þegar hefur fengist ágæt reynsla með íblöndunina í Bandaríkjunum en t.d. á svæði í Maine fylki þar í landi, þar sem eru mörg kúabú sem eru með lífræna vottun, nota mörg þeirra eina eða fleiri tegundir af þörungum í fóður kúnna með góðum árangri. Kosturinn við þörunga er að þeir flokkast sem lífrænt vottað fóðurbætandi efni svo það skýrir ásókn þarlendra bænda í lífrænni mjólkurframleiðslu í að nota þá.

Eru þörungar nautgripafóður framtíðarinnar?

Þörungar geta verið hluti af framtíðarfóðri fyrir nautgripi en finna þarf leiðir til þess að rækta þá við aðstæður sem gera þá bæði samkeppnishæfa við aðra fóðurmiðla sem og að finna tegundir sem ekki eru jafn steinefnaríkar og margar þörungagerðir eru. Í dag eru þó sjáanlegar ýmsar áskoranir við þörungaeldi sem fóður fyrir nautgripi svo sem ríkt vatnsinnihald, hátt öskuinnihald eins og áður segir auk þess sem rannsaka þarf í þaula hvort fóðrið sem úr slíkri framleiðslu kemur er með joð, arsen, kadmíum, blý eða kvikasilfur yfir mörkum. Þess utan kemur svo bæði vinnslan sem slík, geymsla og flutningskostnaður svo dæmi sé tekið. Það er því líklegt að framboð á heppilegum fóðurefnum úr þörungum rati ekki inn á fóðurganga kúabúa í stórum stíl á næstunni, en þar sem ótal fyrirtæki og háskólar víða um heiminn eru þessi misserin að keppast við að skoða þessi mál í þaula er ekki loku fyrir það skotið að hagkvæm lausn finnist á komandi árum.

Skylt efni: þörungar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...