Vilja fá Gömlu Þingborg gefins
Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að selja „Gömlu Þingborg“ svonefndu, sem er húsnæði við þjóðveg 1.
Þingborgarhópurinn, sem er öflugur prjónahópur, hefur haft aðstöðu í húsinu og er þar með ullarvinnslu og verslun.
Á fundi sveitarstjórnar 5. nóvember sl. var tekið fyrir erindi frá hópnum þar sem kemur fram að honum hafi verið brugðið að sjá að húsið er komið á sölu. Sala hússins myndi setja starfsemi hópsins í uppnám en hópurinn hefur starfað frá árinu 1990.
Þingborgarhópurinn hefur óskað eftir því við Flóahrepp að húsið verði afhent hópnum til eignar endurgjaldslaust og að sveitarfélagið styðji starfsemi hópsins með því að fella niður gjöld af húsinu. Sveitarstjórn Flóahrepps hefur hafnað erindinu og segist með þeirri ákvörðun vera að gæta að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og fylgja ábyrgri fjármálastjórnun og ráðstöfun eigna sveitarfélagsins.
„Sveitarstjórn ber að gæta jafnræðis í ákvörðunum sínum en ljóst er að ákvörðun um að gefa frá sér eignir eða fella alfarið niður gjöld af eignum skapar fordæmi til framtíðar,“ segir m.a. í bókun sveitarstjórnar. Þá má geta þess að uppsafnað tap á Gömlu Þingborg er um 5,4 milljónir króna á síðustu sjö árum þrátt fyrir innkomnar leigutekjur á þeim árum. Þá hefur viðhaldi og endurbótum húsnæðisins ekki verið sinnt eins og þörf krefur og því ljóst að húsið þarfnast töluverðra endurbóta á næstu árum.
Í Þingborgarhópnum eru 27 konur en fimm af þeim eru búsettar í Flóahreppi.