„Iðar djúpt í mold og móðu ...“
Orðsins list kemur að þessu sinni frá Einari Benediktssyni. Hann fæddist 31. október árið 1864. Einar gekk í Lærða skólann í Reykjavík og varð stúdent 1884. Þaðan lá leiðin í Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann nam lögfræði og lauk því námi árið 1892.
Einar lét snemma að sér kveða í landsmálaumræðu og árið 1896 stofnsetti hann fyrsta dagblaðið sem gefið var út á Íslandi, Dagskrá, og ritstýrði því í tvö ár. Hann kom að stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og átti drjúgan þátt í að koma upp fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906. Blaðið Dagskrá lifði ekki lengi en Einar kom að fleiri blöðum, svo sem Landvörn, Þjóðinni, Þjóðstefnu og Höfuðstaðnum.
Frá 1908 og fram til 1921 stundaði Einar einkum ýmsa fjármálastarfsemi og bjó þá víða, eins og í Noregi, Edinborg, Kaupmannahöfn og London. Þá ferðaðist hann mikið og dvaldi um tíma í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Hann stofnaði t.d. Fossafélagið Títan árið 1914 ásamt öðrum, en það sóttist m.a. eftir því að virkja Þjórsá sem hins vegar var ekki virkjuð fyrr en hálfri öld síðar, með Búrfellsvirkjun. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til að skoða möguleika á málmvinnslu og sementsframleiðslu.
Við Héðinshöfða á Tjörnesi er minnisvarði um Einar, sem reistur var árið 1972. Þar var heimili Einars frá 1876 og fram á fullorðinsár, en faðir hans, Benedikt Sveinsson, gegndi starfi sýslumanns í Þingeyjarsýslum.
Einar var um skamma hríð eigandi jarðarinnar Þorvaldseyrar en seldi hana fyrir 9 þúsund krónur sem talið var metfé fyrir bújörð.
Frá 1921 bjó Einar lengst af í Reykjavík, en síðustu átta árin, frá 1932, bjó hann í Herdísarvík á Reykjanesskaga.
Fyrsta bók Einars, Sögur og kvæði, kom út 1897. Bækurnar urðu alls fimm talsins og eru hinar Hafblik, 1906, Hrannir, 1913, Vogar, 1921, og Hvammar, 1930. Þá þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen, 1901. Auk þess skrifaði Einar mikið af blaðagreinum, ritgerðir og fleira sem birtust víða. Hann taldist til nýrómantískra skálda og var skáldskapur hans, jafnt sem athafnir, iðulega umdeildur. Orðin „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ eru úr ljóði hans, Einræður Starkaðar, III.
Einar lést árið 1940 og var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum. Stytta af Einari, eftir Ásmund Sveinsson, stendur við Höfða í Reykjavík, en Einar bjó í húsinu um árabil. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur gaf út ævisögu Einars í þremur bindum á árunum 1997–2000.
Hafblik
Haugaeldur
III
...
Iðar djúpt í mold og móðu
magn og líf, sem hefja þarf,
Niðjar Úlfs það niður tróðu,
nærri málmsins eldum stóðu, —
þekktu ei rétt sinn ríka arf,
ráku tign og auð á hvarf.
Rífa, slétta, hvað þeir hlóðu,
hátt og lágt — er fyrsta starf.
Kynið er þó gott frá grunni,
grær í sól og fjallahlé.
Heyrist enn hjá hlíð og unni
hljóma frónska í bóndans munni,
gullhrein eins og goðans vé. —
Glitblóm anga, dafna tré;
orkuhönd með orfi og hlunni
iðjar snauð að stjórn og fé.
... Vogar
Morgunn
...
Og kotbúar rísa sem kóngar í höllum, —
þeir krýnast í sóldýrð af austurfjöllum;
þótt bærinn sé lágr, — engin borg við ský,
veit burstin mót himnum, frá gróandi völlum.
Og dögunin unga, að eilífu ný,
alheiminn leggur við mannsins fætur.
Að baki' eru allra aldanna nætur,
en eggjun í stundhraðans vængjagný.
...
Einar Benediktsson, Kvæðasafn, bls. 101, 102, 460, Bragi hf. 1964