Hross um vetur.
Hross um vetur.
Mynd / Jón Eiríksson
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka.

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytjunum og hvað fram undan sé á þeim vettvangi landbúnaðarins.

Kristinn Hugason

Ísteka er lyfja- og líftæknifyrirtæki sem skapar verðmæti með nýtingu hugvits og íslenskrar náttúru. Við framleiðsluna beitir fyrirtækið röð próteinhreinsunaraðferða og frostþurrkun með atbeina menntaðs og sérþjálfaðs starfsfólks síns. Hráefnið er fengið hjá bændum sem eru með hryssur í blóðnytjum samhliða framleiðslu hrossakjöts en kjötframleiðsla af hrossum og blóðnytjarnar hafa átt samleið allt frá byrjun. Ísteka var stofnað árið 1990 en blóðnytjarnar eru eldri, söfnun blóðs úr íslenskum hryssum hófst seint á áttunda áratug síðustu aldar.

Hér er því um rótgróna landbúnaðargrein að ræða. Fyrst í stað var blóðið flutt lítt meðhöndlað til vinnslu erlendis. Nú er afurðin flutt fullunnin úr landi. Virðisaukinn af framleiðslunni hefur vaxið mikið í gegnum árin. Tekjur fyrirtækisins á árinu 2023 voru um 1,9 milljarðar íslenskra króna, allt hreinar gjaldeyristekjur. Gera má ráð fyrir að þær væru orðnar eitthvað hærri hefði ekki komið bakslag í vöxtinn vegna atvika sem upp komu árið 2021.

Brugðist hefur verið við þeim með ýmsum hætti en fjölmiðlaumfjöllun um téð atvik var þó oft og tíðum langt fyrir neðan allt sem sætta sig má við hvað kröfur um málefnalega og þekkingarmiðaða umfjöllun varðar. Ísteka var í ár og hefur verið um árabil í hópi framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo. Á heimasíðu fyrirtækisins, www. isteka.is, er fjallað  nánar um þessi atriði o.m.fl.

Útkoma ársins

Tekjur bænda af blóðnytjunum hafa vaxið ár frá ári og skipta þær nú sköpum hvað rekstrarafkomu fjölmargra búa varðar víða um land, auk þess að dýralæknar og margir fleiri hafa atvinnu af greininni auk vitaskuld starfsliðs fyrirtækisins.

Í ár var fjöldi blóðnytjahryssna 4.225 (4.088 í fyrra) en heildarfjöldi hryssna í stóðum bænda var 5.030 (4.748 í fyrra). Það er rétt tæplega 84% fyljun en forsenda þess að hryssur nýtist í blóðnytjunum er að þær séu fengnar. Hryssurnar fá við folum við náttúrulega pörun snemmsumars og fer blóðsöfnunin fram frá hásumri fram til í fyrstu viku október eða svo.

Hún stendur venjulega yfir í tólf vikur en mest má taka átta sinnum úr hverri hryssu en blóð er tekið einu sinni í viku á hverjum stað. Í ár var blóð tekið alls í um 25.500 skipti á um 100 starfsstöðvum. Fyljunin var örlítið lægri í ár en meðaltal undangenginna ára, síðustu fimm árin var meðaltalið t.a.m. 85%. Þetta er betri frjósemi en almennt er í íslenska hrossastofninum og er þannig mikilvæg erfðaauðlind. Frjósemi er enda lykileiginleiki í blóðnytjunum rétt eins og í öllum hrossabúskap.

Hinn lykileiginleikinn í blóðnytjunum er skiptafjöldinn sem hægt er að taka blóð úr hverri hryssu. Af lífeðlisfræðilegum ástæðum sem margt er á huldu um hvað orsakar, halda hryssurnar afar mislengi uppi styrk af hormóninu sem um ræðir í blóðinu. Mælingar hafa sýnt að jákvæð fylgni er á milli skiptafjöldans sem hryssur ná að gefa blóð með tilskildum styrk hormónsins og magns þess í blóði þeirra. Þetta hefur verið lagt til grundvallar í verðskránni, þ.e. verðgildi blóðsins hækkar með skiptafjöldanum.

Þetta hefur fært bændum mikinn tekjuauka. Ánægjulegt er að um erfðaeiginleika er að ræða og hafa bændur kynbætt stofn sinn m.t.t. þessa með góðum árangri, sjá nánar í greininni; „Efling eiginleikanna“ í 23. tbl. Bændablaðsins ́22, er einnig að finna á heimasíðu Ísteka. Úrvalsgóðar hryssur, þ.e. hryssur sem ná að gefa nýtanlegt blóð í sjö til átta skipti eru í ár 57,8% af heildinni og hefur þeim fjölgað ár frá ári.

Útlit og horfur

Af framansögðu má sjá að staðan hvað varðar gæði hryssustofnsins sem nýttur er í búgreininni, rekstrarafkomu bænda og Ísteka, er afar góð. Það er svo enn til að auka bjartsýni á framtíðarhorfurnar að umframeftirspurn er eftir framleiðsluvöru fyrirtækisins frá lyfjaframleiðslufyrirtækjum erlendis, enda um hágæðavöru að ræða.

Allar ógnir við blóðnytjabúskapinn aðrar en duttlungar náttúrunnar eru því af mannavöldum. Nú eru alþingiskosningar nýafstaðnar og stjórnarmyndunarviðræður standa yfir þegar þetta er ritað. Krafa fyrirtækisins á hendur nýrrar ríkisstjórnar er einföld; að hún viðhaldi og bæti eftir því sem aðstæður leyfa rekstrargrundvöll atvinnulífsins, það kemur öllum vel; atvinnulífinu, almenningi og ríkissjóði. Einnig að hún virði ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og eignarrétt.

Því öll rök eru fyrir áframhaldandi tilvist þessarar búgreinar í landinu og allt bendir til að búpeningur í blóðnytjum eigi jafngott eða betra líf en annar búpeningur á landinu. Á það hefur ítrekað verið bent í ræðu og riti.

Lesendur góðir, megið þið njóta helgi hátíðanna og farsældar á nýju ári, með þökk fyrir liðið.

Skylt efni: Ísteka | blóðmerahald

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...