Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagfirðinga. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri KN, segir að ekki hafi komið til innköllunar á neinum hlut.
Bændablaðið og Ríkisútvarpið hafa greint frá því að Kaupfélag Skagfirðinga hefðu krafist innlausnar á grundvelli hlutafjárlaga á hlutum nokkurra Búsældarbænda sem vildu halda sínum eignarhlut. Ágúst Torfi segir það ekki vera rétt.
Hann segir að samtöl hafi átt sér stað í sumar, eftir undirritun kauptilboðs í byrjun júlí og fram að kaupsamningi í september. „Það var ekki stefnan í upphafi að kaupa félagið í heild, m.v. samskipti milli aðila í upphafi, en þegar ljóst varð hve stór hluti hluthafa Búsældar vildi selja kom fram að kaupandi væri tilbúinn til og sæi fyrir sér að klára viðskiptin að fullu þar sem örhlutur væri eftir og ljóst að við þær aðstæður sem uppi voru væri það einfaldast fyrir Búsæld að selja í heild. Þetta var því sameiginleg niðurstaða í samtali aðila,“ segir Ágúst Torfi.
Búsæld átti um 43 prósenta hlut í KN fyrir sölu en í lok síðasta árs voru 465 hluthafar, en enginn einn hluthafi átti meira en tíu prósent.
„Tilboð KS í hlut Búsældar í Kjarnafæði Norðlenska (KN) var með þeim hætti að Búsæld samþykkti að selja óbeinan hlut hluthafa í KN, sem þeir áttu í gegnum Búsæld, sem vildu selja sína hluti.
Óskað var eftir afstöðu hluthafa til sölu nú í sumar. Eigendur um 93% hlutafjár gáfu upp að þeir vildu selja hluti sína, tæp 2% að þeir hygðust ekki selja en ekki fékkst afstaða hjá þeim sem út af stóðu, um 5%,“ segir Ágúst Torfi.
Þar sem meðeigendur Búsældar, bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, voru búnir að samþykkja söluna lá fyrir að að lágmarki 97 prósent hlutafjár myndu skipta um hendur. „Í ljósi þessarar afgerandi niðurstöðu hluthafa Búsældar til sölunnar ákvað stjórn Búsældar að selja hlutinn í heild. Ekki var um neina innköllun að ræða á neinum hlut, KS kaupir allt hlutafé í KN við undirritun kaupsamnings, sem var í september. Búsæld hefur svo komið þeim verðmætum sem félagið fékk fyrir hlut sinn til hluthafa í framhaldinu,“ segir Ágúst Torfi.