Blöndun kúamykju og kjötmjöls til túnáburðar í landbúnaði - lausn eða leiðindi?
Á faglegum nótum 21. nóvember 2024

Blöndun kúamykju og kjötmjöls til túnáburðar í landbúnaði - lausn eða leiðindi?

Höfundur: Logi Jökulsson, stundar búskap í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Lífrænn áburður eins og mykja og kjötmjöl getur aukið heilbrigði jarðvegs og bætt hringrás næringarefna.

Logi Jökulsson

Kjötmjöl er sláturúrgangur sem inniheldur mikilvæg næringarefni og lífrænt efni sem er oft vannýtt í landbúnaði. Nýting á slíkum aukaafurðum eins og kjötmjöli getur stuðlað að aukinni sjálfbærni í landbúnaði. Við á Ósabakka höfum verið að dreifa kjötmjöli á tún hjá okkur síðustu þrjú ár í þeim tilgangi að minnka þörf á tilbúnum áburði og bæta jarðvegsgæði. Það hefur reynst vel í ljósi hækkandi áburðarverðs eftir 2020 en erfitt er að sjá nákvæmlega hversu mikil áhrif kjötmjölið hefur á uppskeru þar sem áburðaráhrif lífræns áburðar eru langvarandi.

Haustið 2022 hófst áburðartilraun varðandi nýtingu kjötmjöls í sambland við kúamykju. Ég, Logi Jökulsson, og bróðir minn, Ísak Jökulsson, framkvæmdum tilraunaskipulag og framkvæmd tilraunar. Við sköffuðum túnin, mykjuna og sáum um alla sýnatöku. Tilraunin kom til af hálfu Orkugerðarinnar ehf. sem skaffaði kjötmjölið, gám til að blanda mykjunni og kjötmjölinu og fjármagnaði allt verkefnið. Vélaútgerðin á Ólafsvöllum kom að dreifingu og hræringu. Markmið verkefnisins var að komast að því hvort hægt væri að sameina kjötmjölsdreifingu og dreifingu mykju á tún í eitt verk. Það gæti sparað keyrslu á túnum, vinnu og tíma, eitthvað sem flestir bændur myndu þiggja. Borin voru saman gæði og magn uppskeru af grasi sem fær hefðbundinn tilbúinn áburð og kúamykju og það sem fær kjötmjöl og kúamykju. Ákveðið var að nota tvö tún frá okkur sem eru hlið við hlið, eitt mjög gamalt sem hafði ekki verið unnið upp í marga áratugi, og eina nýrækt sem unnin var upp fimm árum fyrir framkvæmd verkefnisins. Þessi tvö tún eru ein af þeim fáu túnum hjá okkur sem aldrei eru beitt sem gefur okkur meira frelsi varðandi tímasetningu á dreifingu á kjötmjöli og mykju. Ákveðið var að skipta báðum túnum í þrjár samhliða ræmur þar sem hver þeirra fékk sér útfærslu af áburðargjöf.

Blöndun á mykju og kjötmjöli.

Útfærsla 1 var hefðbundin áburðargjöf sem er 400 kg af þrígildum 23:3:8 NPK áburði og 30 tonn af mykju á hektara, útfærsla 2 fékk 2,8 tonn af kjötmjöli og 30 tonn af mykju á hektara og útfærsla 3 fékk 1,4 tonn af kjötmjöli og 30 tonn af mykju á hektara. Magn kjötmjöls á hektara var ákveðið út frá sekkjafjölda þar sem kjötmjölið var selt í 700 kg stórsekkjum. Eftir útfærslu kom í ljós að það fór minna en áætlað var af kjötmjöli og mykju á túnin en munurinn á milli útfærslna var hlutfallslega svipaður. Notuð var kúamykja úr okkar eigin fjósi sem var um 3,5%. Kúamykjunni og kjötmjölinu var blandað saman í gámi með opinn topp við hliðina á fjósinu. Það þurfti þrjá traktora og einn lyftara til að framkvæma verkefnið; einn til að dæla úr haughúsinu, einn til að hræra í gámnum og einn til að dreifa blöndunum á túnin með 15 tonna haugsugu með slöngubúnaði. Lyftarinn var notaður til að lyfta sekkjunum yfir gáminn þar sem skorið var undir þá og kjötmjölinu sturtað ofan í. Þetta var 3 til 5 manna verk.

Út frá niðurstöðum uppskerumælinga sést að uppskeran af nýræktinni var mest á útfærslu 1 og munurinn á milli útfærslu 2 og 3 var lítill. Hins vegar var uppskeran á Tjarnartúninu mest í útfærslu 2 sem bendir til þess að eldri tún svari betur lífrænum áburði eða verr tilbúnum áburði. Það gæti verið vegna eiginleika jarðvegs eða grasategunda en hér er tækifæri fyrir fleiri rannsóknir. Þegar borin var saman seinni uppskera allra útfærslna var hlutfallið á milli magns þurrefnisuppskeru minna en í fyrri slætti sem bendir til þess að áburðaráhrif kjötmjölsins voru enn marktæk. Kostnaður á tonn heildar þurrefnisuppskeru var mestur á útfærslu 2 á báðum túnum en lægstur á útfærslu 3. Þegar horft er til skamms tíma, eitt ár eða svo, þá lítur kjötmjölið ekkert svakalega vel út miðað við tilbúna áburðinn en hafa þarf í huga langvarandi áburðaráhrif kjötmjölsins. Meirihluti næringarefna í kjötmjöli er bundinn í lífrænar sameindir sem eru ekki aðgengilegar plöntum fyrr en sameindirnar brotna niður í jarðveginum en það ferli eykur örveruvirkni. Það eru margir þættir sem stýra hversu hratt niðurbrotið er á lífrænum sameindum eins og örverusamsetning, jarðvegsgerð og veðurfar. Þetta verkefni var BS ritgerðin mín í Landbúnaðarháskóla Íslands og þar má finna ítarlegri upplýsingar. Hægt er að nálgast BS ritgerðina inni á Skemman.is með titlinum „Blöndun kúamykju og kjötmjöls til túnáburðar í landbúnaði“.

Kjötmjöl er að mínu mati vægast sagt ókræsilegt að vinna með. Það er fínt duft sem þyrlast upp í loftið þegar því er sturtað úr sekkjunum og lyktin festist í nefinu á manni í nokkra daga eftir á. Ekki er æskilegt að dreifa því í roki þar sem það fýkur mjög auðveldlega og dreifist ójafnt en það er einn af göllunum sem hægt væri að útiloka með því að blanda því við mykju og dreifa með haugdreifara. Þrátt fyrir þetta allt saman þá er ekki hægt að neita þeim jákvæðu áhrifum sem þetta hefur á jarðveginn sem veitir alls ekki af.

Með betri útfærslu og tækjabúnaði væri hægt að framkvæma verkið á töluvert auðveldari máta. Ef hægt væri að útbúa gám sem auðvelt væri að færa til með traktor, með innbyggðri hræru og dælu, sem væri líklegast traktorsknúin, þá væri þetta bara tveggja manna og tveggja traktora verk ásamt lyftara fyrir kjötmjölssekkina. Slíkur búnaður væri líklegast rándýr og algjörlega óljóst hvort það myndi nokkurn tímann borga sig en lokaniðurstaðan er sú að kjötmjöl og kúamykja blandast vel saman og hægt er að dreifa því með slöngubúnaði. Ásamt því þá kom í ljós að líklegast er hentugra að dreifa lífrænum áburði eins og kjötmjöli á eldri tún frekar en nýrækt. Þótt kjötmjöl komi ekki í staðinn tilbúins áburðar þá er ljóst, miðað við okkar reynslu, að hægt er að draga verulega úr þörfinni á tilbúnum áburði og byggja upp jarðvegsheilbrigði.

Taflan sýnir efnainnihald efsta 10 cm lag jarðvegs fyrir og eftir áburðardreifingu. Gráu línurnar sýna efnainnihald fyrir áburðardreifingu og appelsínugula línan sýnir æskilegt gildi sem fylgir efnagreiningunni frá búrekstrardeild SS.

Taflan sýnir raunverulegt heildarmagn áburðar sem fór á hverja útfærslu beggja túna. Óvissa er 5%.

Myndin sýnir samanburð á heildar þurrefnisuppskeru beggja túna yfir allt sumarið (uppskera úr fyrri og seinni slætti til samans). Álfsstaðanýræktin er yngra túnið og Tjarnartúnið er eldra.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...