Krísa í kornframleiðslu
Búist er við töluverðum samdrætti í kornframleiðslu í Evrópu og voru áhyggjur þess efnis viðraðar á fundi Evrópuþingsins í nóvember.
Gert er ráð fyrir að framleiðsla á korni í Evrópu á þessu ári verði í heild níu prósent undir meðalári í ár. Samdrátturinn er sérstaklega áberandi í framleiðslu á maís en framleiðslan mun vera tólf prósentum lakari en í meðalári, samtals 58 milljón tonn. Spáð er 112,6 milljón tonna uppskeru í hveiti, sem er ellefu prósentum minna en í meðalári. Aðeins er búist við örlítilli aukningu í ræktun á byggi miðað við síðasta ár, en verði áfram 5 prósentum undir meðalári.
Fjölmiðillinn Euronews greinir frá því að Pierre Bascou, embættismaður hjá framkvæmdastjórn ESB, hafi vakið máls á samdrættinum á fundi Evrópuþingsins nú í nóvember.
Tilteknar eru nokkrar ástæður samdráttarins. Veðrið hefur verið kornrækt óhagstætt en bæði þurrkar í Suðaustur-Evrópu og miklar haustrigningar hafa haft neikvæð áhrif á magn og gæði uppskerunnar í ár.
Vandinn snýr einnig að gæðum kornsins. Þannig sýna mælingar á uppskeru lægra próteinmagn kornsins en einnig mengun vegna alkalóíða. Haft er eftir sérfræðingum frá Evrópusamtökum bænda, Copa Cogeca, að vegna lakra gæði hafi margar framleiðslulotur lækkað frá manneldiskorni í fóðurkorn sem hefur mikil áhrif á afkomu ræktenda.
Bent er á að minni framleiðsla sé einnig vegna samdráttar í ræktarlandi fyrir korn á lykilsvæðum. Frakkland er þar nefnt sem dæmi. Cédric Benoist, franskur kornbóndi sem einnig er formaður kornræktarhóps Copa-Cogeca, segir við euronews að kornbændur tapi á ræktun í ár.
Heimsmarkaðsverð á korni hefur verið sveiflukennt undanfarin tvö ár en verðið hefur síður en svo hækkað samhliða auknum framleiðslukostnaði í Evrópu.
Í frétt Euronews er sagt frá því að framleiðslukostnaður í Frakklandi hafi hækkað úr 1.512 evrum á hektara árið 2021 í 2.065 evrur árið 2023. Milli sömu ára hækkaði framleiðslukostnaður í Írlandi úr 1.330 evrum á hektara í 2.199 evrur.