Öll fjölskyldan saman á hestbaki á aðfangadag í fyrra. Frá vinstri: Petra Björg Mogensen, Guðmundur Orri, Harpa Rún, Hulda María, Ragnar Bjarki og Sveinbjörn Sveinbjörnsson.
Öll fjölskyldan saman á hestbaki á aðfangadag í fyrra. Frá vinstri: Petra Björg Mogensen, Guðmundur Orri, Harpa Rún, Hulda María, Ragnar Bjarki og Sveinbjörn Sveinbjörnsson.
Mynd / Einkaeign
Viðtal 16. desember 2024

Dýrmætt fjölskyldusport

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Eitt af því sem heillar svo við hestamennsku er að með henni geta heilu fjölskyldurnar notið reglulegra samverustunda, tíma sem oft er af skornum skammti í hröðu þjóðfélaginu. Í Kópavogi býr ein slík. Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Petra Björk Mogensen verja flestum stundum, utan vinnu, saman með börnunum sínum og hrossum.

Sveinbjörn og Petra hafa bæði stundað hestamennskuna frá barnsaldri. „Ég er alinn upp við þetta hálfpartinn. Byrja af alvöru við tíu ára aldur og var þá ekki aftur snúið. Þá fór allt að snúast um hestana og svo sem verið þannig síðan,“ segir Sveinbjörn.

Petra kynntist hestum í hesthúsahverfinu í Reykjavík, „Neðri-Fáki“, en hún ólst upp í Fossvogi og gekk daglega heiman frá sér niður í hverfið til að fá að umgangast hross. „Ég var bara ein úr minni fjölskyldu sem hafði áhuga á hestum. Ég keypti mér fyrsta hestinn fyrir fermingarpeningana. Þegar ég ákvað að fara í sveit í kringum 13 ára aldurinn var hlegið að mér og sagt að ég yrði komin heim eftir viku. Ég endaði á að fara tvö sumur á Berg á Snæfellsnesi og var síðan nokkur sumur á Leirubakka í Landsveit.“

Petra og Sveinbjörn kynntust síðan í gegnum hestana en þau stunduðu bæði nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Myndaðist þar góður hópur af krökkum sem öll höfðu áhuga á hestum og halda þau enn hópinn í dag.

Allir saman í þessu

Háskólanám og barneignir var það næsta sem tók við hjá parinu en saman eiga þau fjögur börn; Huldu Maríu, 20 ára, Ragnar Bjarka, 17 ára, Guðmund Orra, 15 ára og Hörpu Rún, 8 ára.

„Við eignuðumst þrjú börn á fimm árum og var þá hestamennskan aðeins minnkuð en samt alltaf með. Nú erum við eiginlega alveg „all in“ – ríðum út okkur til skemmtunar, krakkarnir taka þátt í keppnum, við ræktum hross og förum í hestaferðir á sumrin. Allir taka þátt, Hulda og Ragnar eru alveg á kafi í þessu, Gummi kemur með okkur í hestaferðirnar á sumrin og svo örverpið, hún Harpa, sem ég held að sé mesti hesthausinn af þeim,“ segir Petra og hlær.

„Hún er mjög mikil dýrakona og til í að eyða öllum stundum í hesthúsinu.“
Petra og Svenni eru afar þakklát fyrir að börnin vilji taka þátt í hestamennsku, enda myndi slíkt fjölskyldulíf ekki ganga upp annars.

„Ef þetta væru bara ég og Svenni, þá værum við ekki að eyða svona miklum tíma í þetta. Það sem gerir þetta svona skemmtilegt er samveran með krökkunum. Við erum bæði í krefjandi vinnu og krakkarnir í öðrum íþróttum líka svo stundum getur þetta orðið svolítið mikið. Dagurinn byrjar oftast klukkan sex á morgnana á ræktinni, svo fullur vinnudagur og í kringum háannatímann erum við kannski að koma heim úr hesthúsinu í kringum ellefu. Við myndum samt ekki vilja hafa þetta neitt öðruvísi,“ segir Petra.

Undir það tekur Svenni. „Við höfum líka alltaf passað okkur á því að gefa krökkunum tíma. Þó hann sé kannski oft af skornum skammti að þá höfum við alltaf lagt mikla áherslu á að sinna börnunum og þeirra hestamennsku en við teljum að það spili mikið inn í að viðhalda áhuganum hjá þeim. Hestmennskan er alls konar og þarf þetta að vera á forsendum hvers og eins á hverjum tíma. Til að mynda var Petra í tvö ár meira og minna hlaupandi hér um hverfið teymandi undir Hörpu og með henni í reiðhöllinni sem skilar sér í miklum áhuga og færni.“

Fjölskyldan unir sér vel í hesthúsinu. Harpa Rún situr Berlín frá Barkarstöðum sem ræktuð er af fjölskyldunni. Mynd/hf

Sprettarar

Fjölskyldan ásamt foreldrum Svenna er í hestamannafélaginu Spretti í Kópavogi og hafa verið þar frá stofnun þess. Hesthús fjölskyldunnar var flutt úr gamla hesthúsahverfinu í Gusti og sett niður í nýja hverfinu í Spretti.

„Það er mjög gott að vera hér í Spretti. Frábær inniaðstaða sem við notum mikið og góðar reiðleiðir. Hér eru alltaf tveir hringir sem hægt er að fara á veturna sem eru upplýstir og oftast mokaðir. Ekki skemmir líka fyrir hvað við búum nálægt og börnin hafa því getað labbað í hesthúsið.“

Þau geta haft allt að fjórtán hesta á húsi í einu og í dag eru þau með tíu hross á járnum. Þau eru nýbúin að sleppa út hrossum sem þau voru að frumtemja og eru keppnishrossin nú komin á hús.

„Við erum með hross á húsi eiginlega allt árið um kring. Þetta er orðið mjög breytt frá því hvernig þetta var áður. Þá fór maður í sleppitúr í júní og hrossin voru sett út í haga og tekin aftur inn rétt fyrir jól. Nú eftir tilkomu allra þessara innanhússdeilda og hvað keppnistímabilið er orðið langt erum við með hross inni næstum allt árið. Haustið er líka frábær tími til útreiða,“ segir Sveinbjörn og Petra bætir við: „Rúna Einarsdóttir sagði einu sinni við mig að fólk í keppnisíþróttum almennt, eins og hlauparar, tækju sér ekki tveggja til þriggja mánaða pásu heldur minnkuðu frekar álagið tímabundið. Það ætti ekkert að vera öðruvísi með hrossin sem stefnt er með í keppni.“

Harpa Rún og hundurinn Kolka leika sér á Byl frá Einhamri. Mynd / hf

Keppnishestamennskan

Greinilegt er að keppnir er orðinn ansi stór partur af hestamennskunni hjá fjölskyldunni. Sveinbjörn byrjaði ungur að keppa en Petra ekki fyrr en eftir að hún hafði eignast þrjú fyrstu börnin. „Ég fékk lánaða hryssu á kvennatölt Gusts hjá góðri vinkonu okkar, Berglindi Ragnarsdóttur, Keldu frá Laugavöllum. Ég sagði við Svenna að ef ég ynni þá þyrfti hann að kaupa hana handa mér. Ég fór og vann og við vorum einnig valdar glæsilegasta parið. Svenni keypti hana og mig minnir að ég hafi unnið allt sem ég gat unnið á henni,“ segir Petra.

Í dag hafa þau bæði lagt keppnisstígvélin á hilluna, í bili að minnsta kosti, því börnin hafa tekið við. Hulda og Ragnar voru meðal annars bæði í íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í sumar. „Eins og það var gaman að þessu að þá er orðið meira gaman að styðja við og fylgja þeim eftir. Áhuginn hjá mér er orðinn miklu meira ræktunarmegin og hef ég meira verið með yngri hrossin. Ég er með trippin sem enginn annar nennir,“ segir Sveinbjörn og Petra samsinnir honum. „Við keyptum hross fyrir nokkrum árum, sem átti að vera fyrir mig og ég sagði að það færi ekki undir krakkana. Áður en maður veit af vantar hross í einhverja keppnisgrein og börnin komin á það. En við höfum mikla ánægju af að fylgja þeim eftir í leik og keppni.“

Samhliða hestamennskunni hafa börnin stundað aðrar íþróttir eins og fótbolta, fimleika og skák. „Við höfum lagt mikið upp úr því að þau hafi stundað líka hópíþróttir, þar sem keppnishestamennska er að miklu leyti einstaklingsíþrótt,“ segir Petra. Samanborið við þær íþróttir sé hestaíþróttin tímafrekari og kostnaðarsamari en á móti veitir hún þeim ógleymanlegar samverustundir.

„Hestamennskan er af allt annarri gráðu, að minnsta kosti hjá okkur. Því þegar maður er farinn að rækta hross, temja, þjálfa, selja og keppa þá er þetta varla orðið áhugamál lengur, frekar lífsstíll. Þetta er bara lífið og okkur finnst það æðislegt.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt