Djúpavogsskáldið loks komið á bók
Fáir lifa ástar án er heiti nýrrar ljóðabókar eftir Antoníus Sigurðsson, sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var að senda frá sér.
Antoníus Sigurðsson (1875–1944) var eitt þekktasta alþýðuskáld Austurlands á sinni tíð og hafði auknefnið Djúpavogsskáld.
Hann var fæddur og uppalinn á Berufjarðarströnd. Foreldrar hans voru Halldóra Gísladóttir og Sigurður Sigurðarson frá Krossgerði en hann ólst upp hjá hjónunum Kristínu Bessadóttur og Sigurði Ásmundssyni í Kelduskógum. Hann minntist fósturforeldranna og átthaganna með mikilli hlýju í ljóðum sínum.
Vísur hans gengu manna á meðal
Kona Antoníusar var Þórunn Erasmusdóttir úr Meðallandi og eignuðust þau dótturina Ragnhildi árið 1901. Þau hófu búskap á Djúpavogi árið 1906 og þar biðu störf verkamannsins Antoníusar. Einnig var hann mörg sumur kaupamaður í sveitum, m.a. í Löndum í Stöðvarfirði og á Berunesi í Berufirði. Hann var sjálfmenntaður og fékkst við barnakennslu í heimahúsum, auk þess að vera lengi meðhjálpari í Djúpavogskirkju.
Antoníus varð strax á unga aldri kunnur fyrir háttbundna ljóðagerð sína og fékk í viðurkenningarskyni auknefnið Djúpavogsskáld. Aðeins fá ljóða hans og lausavísna hafa birst á prenti en hann hélt kveðskapnum saman og fjöldi vísna hans flaug
manna á milli.
Búverk og trúariðkun toguðust á
Kristján Ingimarsson á Djúpavogi ritar lokaorð. „Ljóð Antoníusar bera það með sér að hann hefur verið tilfinninganæmur eins og skáld eru gjarnan, líf hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum en náttúran, fjölskylda og vinir hafa veitt honum gleði og hamingju“, segir m.a. í lokaorðunum og fram kemur að ljóðin beri þess vitni að Antoníus hafi verið trúmaður. Finna megi togstreitu milli þess að sinna búverkum og iðka trúna.
Bókin er 135 síður í harðspjöldum og er 24. bókin í röðinni Austfirsk ljóðskáld. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur, sem fyrr segir, út.