Hvernig kom haustið út?
Hvernig ætli lömbin reynist í haust? Þessi spurning er alltaf jafnforvitnileg. Í ár var ekki undantekning á því enda nokkrir stórir áhrifaþættir sem gátu haft töluverð áhrif á niðurstöður.
Fyrst má nefna að þátttaka í sæðingum tók mikinn kipp á síðasta ári en þá jukust sæðingar um 55% milli ára. Viðbúið var að það myndi ýta undir þátttöku í lambskoðunum. Hversu vel lukkaðir kynbótagripir hinir óreyndu lambhrútar myndu reynast sem á stöðvunum stóðu í fyrra var hins vegar spennandi að fá dóm á. Annar stór áhrifaþáttur var þetta óvenjulega tíðarfar á liðnu sumri. Það var mikil áskorun fyrir margan sauðfjárbóndann að passa upp á lambféð í u.þ.b. vikuhreti í júníbyrjun. Þá var víða sem haustbeit brást sökum kulda og bleytutíðar.
Hvernig kom þetta út?
Umfang skoðanna reyndist svipað og haustið áður, nú voru skráðir dómar á 60.384 lömb (Fjárvís 12.12.2024) sem er örlítil aukning milli ára. Skoðun á lambhrútum jókst talsvert, en stigaðir voru 13.669 hrútlömb. Hefur hrútaskoðun ekki verið meiri síðan 2014 en þá voru skoðaðir rúmlega 15 þúsund lambhrútar.
Heilt yfir var vænleiki lamba ótrúlega góður og reyndist fallþungi lamba samkvæmt niðurstöðum afurðastöðvanna vera 16,9 kg, sem er þriðji mesti fallþungi sem verið hefur á landinu, og gerð sláturlamba var 9,45, sem er sú næsthæsta frá því EUROP-matið var tekið upp. Greinilegt er að fjallagróðurinn hefur verið kjarngóður og því hafa lömb sem sluppu við miklar hremmingar í vor víða komið væn úr sumarhögum. Breytileiki í þroska lamba var mikill milli bæja en ekki síður milli svæða. Hrútlömb í A-Húnavatnssýslu voru 1,8 kg léttari í ár en árið áður og í Skagafirði voru skoðaðir lambhrútar 1,5 kg léttari milli ára. Hins vegar var mest þyngdaraukning í Árnessýslu þar sem hrútlömbin í ár voru 1,1 kg þyngri en í fyrra. Í þessum þrem sýslum var jafnframt mest breyting á skoðuðum lömbum þar sem í Árnessýslu jukust dómar á gimbrum og hrútum um 700 lömb en í Austur- Húnavatnssýlu fækkaði skoðuðum lömbum, aðallega gimbrum, um 860 og í Skagafirði um 520.
Efstu lambhrútarnir
Efsti lambhrútur landsins reyndist vera Toppur 24-974 frá Hófgerði sem jafnframt er efsti hrúturinn í Árnessýslu. Toppur er einn af þeim úrvalslambhrútum sem jafnframt ber verndandi arfgerð og sauðfjárbændur fá að nýta í gegnum sæðingar nú í vetur. Hann er því vel kynntur í hrútaskrá. Næstir að stigum koma fjórir hrútar með 91,5 stig. Í annað sætið raðast Darwin 24-181 frá Hreiðri í Rangárvallasýslu sem er sonur Káts 20-905. Þriðji er hrútur númer 24-713 frá Bræðratungu í Biskupstungum en hann er líkt og efsti hrúturinn sonur Atlasar 23-924 frá Hofi. Fjórði hrúturinn er einnig frá Bræðratungu, FFF hans er Fálki 17-821 frá Bassastöðum. Fimmti hrúturinn er síðan Svanur 24-516 frá Saurbæ á Vatnsnesi. Hann er einnig útaf Fálka en föðurfaðir hans er Glæsir 19-887 frá Litlu-Ávík.
Auk Topps eru fjórir hrútar á úrvalslistanum sem fóru inn á stöð og bera allir ARR. Það eru Dufgus 24-967 frá Sauðafelli sem stóð efstur í Dalasýslu, Gunnsteinn 24-975 frá Hólabæ sem er efsti hrúturinn í A-Húnavatnssýslu, Ósmann 24-968 frá Ríp sem stóð efstur í Skagafirði og Pálmi 24-946 frá Kiðafelli sem er fimmti hæsti hrúturinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þeir stöðvahrútar sem eiga flesta syni á listanum í ár eru þeir Steinn 23-926 frá Kaldbak sem á 8 syni, Moli 23-919 frá Miðdalsgröf sem á 7 syni og Kátur 20-905 frá Efstu-Grund sem á 6 syni. Þykkasti bakvöðvi sem mældist í ár var 45 mm, en bakvöðvameistararnir eru þeir Mæjó 24-669 frá Efri-Fitjum og 24-303 frá Teigi. Nánar má skoða upplýsingar um þá á meðfylgjandi yfirliti yfir úrvalslambhrúta landsins.
Áhrif innleiðingar verndandi arfgerða á niðurstöður dóma
Áhugavert er að velta fyrir sér hvort og hvaða breytingar megi greina í kjölfar þess að innleiðing verndandi arfgerða hófst með breyttum áherslum í vali hrúta inn á sæðingastöðvarnar. Það má m.a. gera með því að bera saman dómagögn frá því í haust við árin 2022 og 2021, sem eru árin áður en innleiðing verndandi arfgerða hófst.
Skýrasta breytingin í dómaniðurstöðum er lækkun hauseinkunnar. Nú fengu 14% lambhrútanna 7,5 eða lægra fyrir haus en að jafnaði voru þetta um 6% haustin 2021 og 2022. Lág hauseinkunn er yfirleitt vegna þess að hrútlömb eru hníflótt eða sívalhyrnd og er þetta afleiðing aukinnar blöndunar á hyrnda og kollótta fénu. Tíðni bitgalla virðist ekki hafa aukist.
Ef horft er til fótagalla þá virðist heldur algengara að lambhrútar sýni frávik frá réttri fótstöðu í dómum haustsins en sem betur fer er aukningin ekki veruleg. Á árunum 2021 til 2022 var 1,5% hrútlamba dæmdir niður vegna fótagalla en í haust voru það 1,9%. Ef skoðað er hlutfall hrútlamba sem fær 7 eða lægra fyrir samræmi, sem í flestum tilfellum er vegna eistnagalla, þá er það hlutfall nokkuð óbreytt. Er nú 0,6% en var 0,7% að jafnaði þessi tvö viðmiðunarár.
Fyrir liggur að eitthvað var um naflaslit í haust en a.m.k. 4 synir Steins 23-926 hafa fundist með þennan galla og eins eru dæmi um slíkt bæði út af öðrum hrútum af Þernuneskyni og einnig í lömbum sem eru óskyld þeirri línu. Þar sem eitthvert arfgengi er á þessum galla þarf að gæta betur að því í framtíðinni að skoða lömb m.t.t. naflaslits.
Fleiri toppar undan stöðvahrútunum
Niðurstaða sæðingastöðvahrúta í ár var heldur breytilegri en oft áður þar sem lambhrútarnir reyndust missterkir lambafeður. Þó er ljóst að meirihluti þeirra reyndist frábærlega vel. Meðaltöl sona stöðvahrútanna í ár eru svipuð fyrir bakvöðvaþykkt og var árin 2021 og 2022.
Meðalbakvöðvaþykkt nú, leiðrétt fyrir þunga var 31,2 mm sem er 0,1 og 0,2 mm minna en þessi viðmiðunarár. Síst var minna af topplömbum í haust undan stöðvhrútunum en síðustu ár. Á meðfylgjandi úrvalslista eru nú 46% hrútanna undan stöðvahrútum en að meðaltali fyrir árin 2021 og 2022 áttu stöðvahrútarnir 38% hlutdeild í úrvalshópnum.
Að lokum
Í heildina var útkoma lamba í haust góð og líklega mun betri en margir ætluðu vegna breyttra áherslna í ræktunarstarfinu og dæmalausrar ótíðar í júníbyrjun. Óhætt er að segja að vel gangi að innleiða verndandi og mögulega verndandi arfgerðir og ekki útlit fyrir að það muni valda sérstakri niðursveiflu m.t.t. úrvals fyrir helstu ræktunarmarkmiðseiginleikum. Ágætur vitnisburður um það er ótrúlega sterk staða Þernuneshrútanna þriggja í kynbótamatinu, þeirra Gimsteins 21-899, Gullmola 22- 902 og Hornsteins 22-901, sem um þessar mundir eru áhrifamestu ættfeðurnir. En þótt útlitið sé býsna bjart er ærið verkefni fram undan í að bæta stofninn samhliða innleiðingu verndandi arfgerða.
Gleðileg jól.