„Það er ekki allt með slaufu“
Einsemd er víða og einsemd er val þykir mörgum, þar á meðal höfðingja einum vestan á Bíldudal sem gerir sitt besta til þess að lita dagana ljósi.
Nafnið Jón Kr. Ólafsson er mörgum kunnugt en hann er einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar. Jón hóf feril sinn með hljómsveitinni Facon frá Bíldudal, en stóð á sviði með samferðafólki sínu, Ragnari Bjarnasyni, Hauki Morthens og Ellý Vilhjálms svo einhver séu nefnd.
Jón býr í einbýlishúsi sínu á Bíldudal og hefur rekið tónlistarsafnið Melódíur minninganna þar innan húss í um það bil fjórðung aldar. Það er hreint hugsjónastarf Jóns sem hefur yfir árin safnað munum og heimildum íslenskrar tónlistarsögu svo unun er á að líta. Ljósmyndir, auglýsingaplaköt, klæðnaður á borð við hinn fræga rauða jakka Hauks Morthens, hljóðfæri og annað setja taktinn fyrir því hvernig einstaklingur getur upp á sitt einsdæmi gætt mikilvægra menningarverðmæta án opinbers fjárstuðnings, þó ekki vaði hann í seðlum sjálfur.
Einsemd er val
Jón talar um hvernig einsemdin er víða, þá ekki síst um jólaleytið. Þetta er val, segir Jón sem þykir samfélagið á Bíldudal í smærra lagi, en þar búa rétt rúmlega tvö hundruð manns og áberandi flestir undir fimmtugu. Maður þarf að reyna að klóra í bakkann og vera sósíal.
„Ég tala íslensku og er ekki að fegra hlutina. Ég reyni sjálfur að vera í sambandi við fólk því ég tel einangrun óholla. Það gengur ekkert öðruvísi því fólk er orðið svo sjálfhvert í dag, situr bara heima og skoðar samfélagsmiðla í stað þess að stíga út úr þægindarammanum og hitta aðra í persónu, eða slá á þráðinn.
Svo velta allir því fyrir sér hvaðan hún kemur, öll þessi einsemd í þjóðfélaginu í dag? Hvers vegna ber fólk sig ekki eftir félagslegum samskiptum? Við vitum það að fjölmiðlageggjunin hefur orðið til þess að fólk liggur í samfélagsmiðlum og er sífellt að bera sig saman við aðra. Þetta er orðinn vítahringur því fólk situr svo heima morgun, kvöld og miðjan dag. Finnur fyrir einsemd en enginn gerir neitt róttækt í þessum málum.
Fólk hengir hvert hausinn framan í annað því það er nefnilega svo auðvelt að sitja og koðna heima hjá sér.
Miklu auðveldara en að gera eitthvað og líta sér nær. Þarna þarf að verða breyting á,“ segir Jón með snúð.
Hann hefur rétt fyrir sér í þessum efnum, en samkvæmt nýlegum rannsóknum telst einmanaleiki til alvarlegrar heilbrigðis- og samfélagsvár sem kunni að vaxa enn frekar á tækniöld. Má þar nefna rannsókn Aðalbjargar S. Helgadóttur, Einmana. Tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar – sem má ma. finna á vefsíðu stjórnarráðsins.
Maður gerir sitt besta
Sjálfur reynir Jón eftir bestu getu að lifa lífinu til fulls þótt hann sé alleinangraður á Bíldudal.
„Ég þarf að komast til útlanda nú á næsta ári, það er svo gott fyrir andann að upplifa og sjá aðra menningu,“ segir Jón.
Stuttu áður en hann hætti öllu almennu tónleikahaldi hélt hann ásamt hljómsveit ferna tónleika í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.
„Það var frábær lokahnykkur á mínum ferli, útúrtroðið, mikil stemning og frábærir hljóðfæraleikarar.“
Hann minnist sérstaklega þjóðhátíðardagsins árið 2022 þar sem hann stóð á sviði Jónshúss ásamt Ingimar Oddssyni, félaga sínum, og léttsveit fyrir fullu húsi. Jón, sem er fagurkeri og listunnandi fram í fingurgóma, er dyggur talsmaður þess að upplifa heiminn á nærandi hátt, menningu og fólk, lýkur samtalinu: „Það er ekki allt með slaufu, Sigrún mín. En maður gerir sitt besta.“
Þess má geta að á komandi ári verður Tónlistarsafnið 25 ára og Jón sjálfur fagnar stórafmæli. Í tilefni þess verður að sjálfsögðu blásið til hátíðahalda, enda segir Jón nauðsynlegt að hafa eitthvað á dagskránni til að hlakka til. Hann áætlar því tónleikahald í september að öllu óbreyttu, eitthvað „intimate“ en að sama skapi vandað og elegant.
Hægt er að sækja tónlistarsafnið heim að Tjarnarbraut, Reynimel, á Bíldudal, alla daga og til viðbótar má ná í Jón í símum 4562186 og 8472542.