Glúmur frá Dallandi
Einn stóðhestur hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á ráðstefnu fagráðs í október en áður hefur verið fjallað um þá hesta sem hlutu afkvæmaverðlaun í sumar í blaðinu. Þetta er hesturinn Glúmur frá Dallandi en hann náði lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi eftir útreikninga á kynbótamati nú í haust. Glúmur á nú 17 dæmd afkvæmi og er með 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. Ræktendum og eigendum, þeim Gunnari og Þórdísi í Dallandi, er óskað innilega til hamingju með þennan árangur. Hér á eftir er yfirlit yfir ættir Glúms og umsögn um afkvæmi.
Faðir: Glymur frá Flekkudal
Móðir: Orka frá Dallandi
Umsögn um afkvæmi: Glúmur frá Dallandi gefur hross um meðallag að stærð með myndarlegt höfuð og vel opin augu. Hálsinn er hvelfdur, mætti vera hærra settur en herðar eru háar og bógar skásettir. Bakið er burðugt og lendin öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt, jafnvaxin og sterklega gerð, þrekin á bolinn. Fætur eru öflugir, hófar efnisþykkir. Glúmur gefur rúm, skrefmikil og hágeng hross sem eru yfirleitt fljót að ná jafnvægi á gangi, í meðallagi reist í reið. Þau eru rúm og takthrein á tölti, mættu vera svifmeiri og rýmri á brokki. Greiða stökkið er rúmt, hæga stökkið jafnvægisgott og takthreint. Glúmur gefur prúð hross með sterka yfirlínu og virkjamikið skref, viljug og yfirveguð, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi.