Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildandi áhættumat erfðablöndunar.
Í álitsgerðinni kom fram að gildandi áhættumat, sem er frá árinu 2020, væri komið til ára sinna, upplýsingar væru úreltar og að tölfræðilegri úrvinnslu væri áfátt. Í kjölfarið óskaði Landssambandið eftir því að Arev myndi smíða nýtt líkan sem byggði á nýjustu upplýsingum og styddist við hermun, ásamt því að endurspegla tölfræði sleppinga. Hermun er notuð þar sem sleppiatburðir eru almennt gikk-atburðir og hermun nær að endurspegla tölfræði þeirra.
Með breytingu á lögum um fiskeldi (Lög um fiskeldi nr. 71/2008, 6 gr.a), sem tóku gildi árið 2019, var lögfest að leyfilegt heildarframleiðslumagn frjórra laxa yrði byggt á áhættumati erfðablöndunar. Í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi kom fram að mismunur var á útgefnu burðarþoli og hámarkseldi frjórra laxa samkvæmt áhættumati erfðablöndunar, en útgefið burðarþol var þá 132.000 tonn, en hámarkseldi skv. áhættumati reiknaðist 71.000 tonn. Með lögunum árið 2019 var leitt í lög að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti skyldi áhættumatið endurútgefið. Síðast var áhættumat gefið út árið 2020, en þegar birta átti nýtt mat haustið 2023 var því frestað og hefur það ekki enn verið gefið út. Við uppfært áhættumat árið 2020 var hámarkslífmassi eldislax hækkaður í 106.500 tonn.
Líkan
Stuðst er við opinber gögn, auk vísindagreina sem birtust í Noregi (Skilbrei) varðandi sleppingar eldislaxa. Líkanið reiknar m.a. hlutfall endurheimtu úr strokum sem byggir á reynslu af fyrri sleppiatburðum í Noregi og nýlegum atburðum á Íslandi, en líkan Hafrannsóknastofnunar styðst við sömu gögn
Samkvæmt tölum sem komu fram í svörum við fyrirspurn Gísla Ólafssonar á Alþingi haustið 2023, þá eru tilkynntar sleppingar 0,54 á hvert framleitt tonn af eldislaxi. Í gildandi áhættumati er fjöldi tilkynntra sleppinga margfaldaður með fjórum, sem er í samræmi við niðurstöður úr rannsóknum Skilbrei í Noregi. Leyfilegt hámark framleiðslu á Vestfjörðum er 64.500 tonn og samkvæmt því þá má ætla að meðaltal árlegra sleppinga á Vestfjörðum verði um 139 þúsund laxar þegar framleiðsla nær hámarki. Á Austfjörðum er leyfilegt hámark framleiðslu 42 þúsund tonn, og því má ætla að meðaltal árlegra sleppinga á Austfjörðum verði um 91 þúsund laxar. Sleppingar eru dæmigerðir gikk-atburðir (sjá mynd 1) þar sem mikill fjöldi sleppur í hvert sinn, en töluverður tími getur liðið á milli atburða.
Með því að byggja á reynslutölum frá Noregi og Íslandi megum við eiga von á því að þegar framleiðslan verður komin í hámark á Vestfjörðum, að yfir 200 fullorðnir laxar muni árlega leita í ár, yfirleitt innan sama ársins. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að yfir 130 laxar sem sluppu þegar þeir voru gönguseiði, og eru að koma eftir vetrardvöl á hafi úti, gangi einnig upp í ár. Laxar sem koma eftir vetrardvöl koma flestir eftir eins ár dvöl (50%), en geta þó skilað sér á þriggja ára tímabili eftir að þeir sluppu.
Niðurstöður
Líkanið er svokallað hermilíkan sem byggir á því að herma eftir sleppingum í þúsund ár miðað við mismunandi framleiðslumagn á eldislaxi. Notað er spálíkan sem spáir fyrir um í hvaða ár laxar sem hafa sloppið munu leita, en líkanið notar m.a. gögn úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar vegna sleppingar úr kvíum í Kvígindisdal sumarið 2023.
Við mat á hættu á erfðabreytingum í náttúrulega laxastofninum er byggt á að hún sé í réttu hlutfalli við sleppilaxa sem ganga í ár (en hlutfallið kallast ágengni). Áhættumat Hafrannsóknastofnunar miðar við að ágengni fari ekki yfir 4% í tilteknum ám.
Myndin sýnir í árafjölda hversu oft fjöldi eldislaxa fer yfir 4% í einstökum ám miðað við mismunandi framleiðslumagn í hermilíkani Arev, þar sem hermt er yfir þúsund ára bil. X-ásinn sýnir framleiðslutonn í þúsundum á Vestfjörðum og Y-ásinn sýnir tilteknar ár. Rauði liturinn gefur til kynna að fjöldi eldislaxa sé yfir 4% í tilteknum ám í 300 eða fleiri ár af 1.000, á meðan að græni liturinn gefur til kynna að eldislaxar séu sjaldan eða aldrei (50 ár eða sjaldnar af 1.000 árum) yfir 4% í tilteknum ám.
Myndin sýnir að allar árnar á myndinni fara einhvern tímann yfir 4% og flestar mjög oft, sérstaklega þegar hámarks framleiðslumagni er náð.
Á heimasíðu okkar, Arev.is, má finna ítarefni um málið en þar er listi yfir flestar ár og veiðivötn sem stafar hætta af vestfirsku eldi.