Borið níu kálfum í sex burðum
Kýrin Þruma á bænum Björgum í Köldukinn í Þingeyjarsveit er ansi mögnuð, en hún hefur borið níu kálfum í sex burðum, sem þýðir að hún hefur þrisvar sinnum verið tvíkefld.
Þruma er í eigu bændanna Þóru Magneu Hlöðversdóttur og Arnórs Orra Hermannssonar. Í öll þrjú skiptin voru tvíkelfingarnir kvíga og naut, sem þýðir því að það séu hverfandi líkur á að kvígan sé frjó. Þruma var tvíkelfd í sínum fyrsta burði árið 2019, svo aftur í fjórða burði árið 2022 og aftur nú í desember.
Þræta, Þrjóska og Þver
Þar á milli hefur hún borið kvígum sem allar hafa verið settar á. Það eru dæturnar Þræta, sem hefur sjálf verið tvíkelfd og er á þriðja mjaltaskeiði, Þrjóska, sem er á öðru mjaltaskeiði og svo er það kvígan Þver, sem miklar vonir eru bundnar við.
„Allir burðir Þrumu hafa gengið afar vel og hún borið öllum sínum kálfum sjálf. Tvíkelfingaburðirnir virðast ekki hafa haft nein áhrif á hana því hún hefur mjólkað afar vel alla tíð, eða 43.193 lítra á fimm mjaltaskeiðum, eða 8.600 lítra að meðaltali á mjaltaskeiði,” segir Þóra Magnea.
Á Björgum býr einnig systir Þóru, Jóna Björg, ásamt fjögurra ára syni sínum, Hlöðveri Þóri. Systurnar eru fimmta kynslóð bænda úr sömu fjölskyldu á Björgum, en þar eru um 120 nautgripir, þar af um 50 mjólkurkýr. Einnig eru á bænum nokkrar kindur.
Draumurinn er að fá alsystur í mjaltir
„Það er gaman að fá tvíkelfinga en við höfum ekki enn fengið tvær lifandi kvígur. Við sækjumst alls ekki eftir því að fá tvíkelfinga í burði því það er umtalsvert meira álag á kýrnar. Draumurinn væri þó að fá tvær alsystur í mjaltir, sérstaklega úr þessari öflugu fjölskyldu. Við notum sæðingar nær eingöngu en helst ekki heimanaut nema önnur úrræði dugi ekki til,“ segir Þóra Magnea og bætir við:
„Skemmtilegast við burðinn hjá Þrumu núna var að hann bar upp á átta ára afmælisdaginn hennar, þann 8. desember, og þar bar hún sínum áttunda og reyndar níunda kálfi líka. Það er líka gaman að segja frá því að allar kýrnar í fjölskyldu Þrumu bera nafni með Þ-i, en það er með ráðum gert og ekki síst til gamans.“