Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rangárvöllum.
Meðferðarheimilið hefur verið starfrækt síðustu ár á Geldingalæk í Rangárþingi ytra en húsnæði þess er ónýtt. Lækjarbakki flytur í húsnæðið Miðgarð. Land og skógur eru með starfsemi í húsinu í dag en mun flytja þá starfsemi í önnur hús á staðnum, að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta og barnamálaráðuneytinu.
Þar kemur einnig fram að Lækjarbakki er eina heimili sinnar tegundar á Íslandi, sem býður upp á langtímameðferð fyrir drengi á aldrinum 14 til 18 ára, sem glíma við alvarlegan vanda vegna til dæmis vímuefnaneyslu, ofbeldis, afbrota, skóla og námserfiðleika eða sálfélagslegan vanda, þegar önnur úrræði duga ekki til.
Starfsemi Lækjarbakka er á vegum Barna og fjölskyldustofu en á heimilinu dvelja allt að sex drengir hverju sinni í um sex mánuði í senn, stundum lengur ef ástæða þykir til.