Smáforrit til að panta sæðingar
Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frjótækna, hefur verið tekið í notkun í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu.
Í fréttatilkynningu segir að planið sé að byrja þar og sjá hvernig gengur. Í framhaldinu verður farið að taka það í notkun á fleiri svæðum. Markmiðið er að gera það notendavænt og auðvelda pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frjótækna, minnka til dæmis allar handskriftir sem hafa fylgt núverandi kerfi síðustu áratugina.
Markmiðið er einnig að fækka villum og koma alveg í veg fyrir villur í kerfinu, ásamt því að gera störf frjótækna skilvirkari. Pantanir og skráningar í forritinu eru tengdar við Huppu og uppfærast þar.
Smáforritið Fang er aðgengilegt fyrir Android, iPhone og Windows.