Hús tekið á þýskum bændum
Eins og fram kom í síðustu tveimur tölublöðum Bændablaðsins var hin heimsfræga EuroTier landbúnaðarsýning haldin í nóvember og af því tilefni var fjöldi Íslendinga staddur á sýningunni, m.a. 53 manna hópur sem sótti sýninguna heim tvo af fjórum sýningardögum hennar, auk þess að heimsækja tvö þýsk bú, annars vegar bú í mjólkurframleiðslu og -vinnslu og hins vegar bú í kartöflu-, kjöt- og hauggasframleiðslu.
Fyrri heimsóknin var á lífræna kúabúið Hofmolkerei Dehlwes í Wümmeland-héraðinu, en þar er bæði rekið kúabú og afurðastöð af hjónunum Thomas og Mareike Dehlwes. Mjólkurframleiðsla hefur verið rekin á búinu óslitið síðan 1896 og eru þau nú sjötta kynslóð ábúenda á staðnum. Á búinu eru 285 mjólkurkýr auk þess sem þau hjónin eru með litla eggjaframleiðslu einnig, þá eru þau með 275 hektara lands fyrir fóðurframleiðslu búsins.
Stofnuðu eigin afurðastöð
Árið 1999, þegar lágt afurðastöðvaverð til bænda í Þýskalandi var raunin, ákváðu þau að söðla um og fara í lífrænt vottaða mjólkurframleiðslu. Samhliða stofnuðu þau eigin mjólkurvinnslu sem þau nefndu Bio Hofmolkerei Dehlwes þar sem lítið var um möguleika á að selja lífrænt vottaðar mjólkurvörur. Síðan hefur fyrirtæki þeirra hjóna vaxið og dafnað og í dag framleiða þau 35 mismunandi mjólkurvörur og vinna úr mjólk frá öðrum lífrænt vottuðum kúabúum einnig. Umfang starfseminnar er í dag það mikið að þau ráða ekki lengur við að framleiða allar mjólkurvörurnar sjálf enda er innvegin mjólk um 8 milljón lítrar. Þau hafa því samið við aðra afurðastöð, sem er í um 80 km fjarlægð, um að vinna og pakka hluta af framleiðslu fyrirtækisins.
Um 83 krónur fyrir lítrann
Thomas sýndi hópnum bæði afurðastöðina og kúabúið og aðspurður kvað hann afurðastöðvaverðið núna vera um 57 evrusent, eða um 83 krónur fyrir lítrann. Til samanburðar fá bændur í hefðbundinni mjólkurframleiðslu um 51 evrusent, eða um 75 krónur fyrir lítrann. Sagði Thomas muninn í dag vera orðinn of lítinn til þess að borga þann aukakostnað sem fylgir því að vera í lífrænni mjólkurframleiðslu, en sem kunnugt er gilda töluvert aðrar reglur um slíka mjólkurframleiðslu s.s. bann við notkun á tilbúnum áburði svo dæmi sé tekið.
Litlir styrkir í dag
Að sögn Thomas hefur styrkjakerfi Evrópusambandsins tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur áratugum og nú er svo komið að styrkirnir vega tiltölulega lítið í heildarveltu búanna. Aðspurður um hve hátt hlutfall ársveltu kúabúsins kæmi frá mjólk og kjöti sagði hann það vera um 92%, þ.e. 8% heildarveltunnar væru opinberir styrkir og þá einungis svokallaðir hektarastyrkir, en það eru stuðningsgreiðslur sem bændur fá út á ræktun. Hann benti þó á að Evrópusambandið hefði styrkt byggingu afurðastöðvarinnar um 20%, en hann sagði einnig að hann myndi ekki sækja um slíkan styrk ef hann væri að byggja nýja afurðastöð núna. Ástæðan var sú að til að fá styrkinn þurfti afurðastöðin að uppfylla miklu strangari kröfur en ella, svo það í raun borgaði sig alls ekki.
Hægt uppeldi
Á kúabúinu eru Holstein kýr og er meðalnytin nú 10.500 lítrar en hann tók nýverið í notkun 4 Fullwood mjaltaþjóna. Sagði hann að nytin hefði hækkað, við það að fara í mjaltaþjóna, um 1.500 lítra á kúna á ári. Þau hjónin rækta nánast allt fóður í kýrnar en kaupa þó sérstakt lífrænt vottað kjarnfóður þar sem aðal próteingjafinn eru hörfræmjöl í stað sojamjöls eins og oft er.
Thomas sæddi áður kýrnar sjálfur og var þá að nota 3,2 strá á hvert staðfest fang. Hann var eðlilega ekki ánægður með það og sagði að sæðingafjöldinn á þessu búi væri of lítill á hverju ári, til þess að ná nógu góðum árangri. Hann kaupir því þessa þjónustu að í dag og hefur sæðingum snarfækkað fyrir vikið. Vegna kostnaðar við aðkeypt fóður er hann ekki að ala kvígurnar hratt og byrjar ekki að sæða þær fyrr en við 16 mánaða aldur svo þær bera frekar seint miðað við það sem almennt gerist meðal bænda með Holstein kýr.
Blikkandi kýr
Á kúabúum með margar kýr getur verið erfitt að finna einstaka gripi sem þarf að sinna og þar sem horfa þarf í hvert verk og lágmarka tímanotkun eru þau Thomas og Mareike með ansi sniðugan búnað. Búnaðurinn, sem er hægt að virkja með fjóstölvunni eða snjallsíma, sendir einfaldlega skilaboð í hálsól þeirrar kýr sem þarf að sinna og þá fer rautt ljós að blikka á ólinni. Fyrir vikið tekur nánast enga stund að finna kú sem t.d. þarf að ýta við til að fara í mjaltir, sæða eða meðhöndla með einhverjum hætti.
Með naut, svín, hauggas og rafmagnsframleiðslu
Síðari heimsókn Íslendingahópsins var til hans Christoph Renken, sem rekur myndarlegt bú með 300 holdanautum, 1.400 eldisgrísum auk þess sem hann framleiðir kartöflur. Hann nýtir svo skítinn og moðið frá bæði nautunum og svínunum í hauggasvinnslu, sem svo fer til rafmagnsframleiðslu á búinu. Christoph sagði m.a. að við búið störfuðu 9 manns auk hans sjálfs og að aðeins einn þeirra sinnti hauggasorkuverinu. Hinir sæju um hirðingu á skepnum og/eða ökrum búsins. Tilgangur heimsóknarinnar var fyrst og fremst að fræðast um holdanautabúskap Christoph og því var hvorki svínabúið né hauggasorkuverið skoðað.
Kaupir nautin ársgömul
Það sem er sérstakt við holdanautaeldi Christoph er að hann kaupir að hálfstálpaða gripi, ársgömul Fleckvieh-naut, en þetta kyn er tvínytja og á uppruna sinn að rekja til mið-evrópsks mjólkurkúakyns og Simmental-kúakynsins. Margir mjólkurframleiðendur eru með Fleckvieh-kýr bæði í Þýskalandi og Austurríki svo dæmi sé tekið og er töluvert framboð af nautkálfum af þessu kyni. Þessi ársgömlu naut fær hann því víða að, en kaupir þau þó af einum aðila sem sér um að safna saman gripum af mörgum búum og selja áfram til bænda í kjötframleiðslu. Í Þýskalandi er nefnilega markaður fyrir svokallað lokaeldi á nautum, líkt og í mörgum öðrum löndum, og því eru sumir bændur eingöngu í því að framleiða naut upp að ákveðnum aldri og láta svo öðrum eftir að klára eldið. Ástæðan fyrir þessu getur verið margvísleg, svo sem plássleysi eða einfaldlega sérhæfing. Hann sagðist hafa keypt síðasta skammt af nautum á 1.000 evrur stykkið, um 146.000 íslenskar krónur, en hann kaupir alltaf öll nautin 300 á einu bretti.
Með nautin á hálmi
Fjósið er afar einfalt hjá Christoph, með fóðurgangi í miðju og stíum til beggja handa. Það vakti athygli hve hrein nautin voru, en skýringin var sú að stíurnar eru hálmstíur sem halda nautunum bæði þurrum og hreinum. Stíurnar eru þannig útbúnar að legusvæði nautanna er með 3% hallandi gólfi, en átsvæðið lárétt slétt og aðeins neðar en legusvæðið. Tvisvar í viku er hálmi blásið upp í legusvæðið og nautin sjá svo um að ýta hálminum hægt og bítandi niður á slétta svæðið fyrir framan átgrindina. Fyrir vikið hleðst hálmurinn ekki upp á legusvæðinu og er yfirleitt í kringum 20 cm þykkur að sögn Christoph. Hann mokar svo flórinn við átsvæðið tvisvar í viku og þegar það er gert, lokar hann nautin inni á legusvæðinu sjálfu og getur því athafnað sig auðveldlega á mokstursvél. Fram kom að hann notar 1.200 hálmrúllur, 180 cm stórar, á ári undir nautin.
Fóðrar á fjögurra tíma fresti
Á búinu er alsjálfvirkt fóðrunarkerfi frá fyrirtækinu Trioliet, en kerfið byggir á því að geta keyrt út fóður í nautin allan sólarhringinn, enda verið að stríðala þau. Christoph er með möguleika á að setja sex mismunandi fóðurefni í fóðurblandarann og setur hann efnin í sérstök geymsluhólf sem sjálfkeyrandi fóðurblandari keyrir svo undir og tekur við fyllingu sjálfkrafa. Þau fóðurefni sem hann notar eru maís, hálmur, kartöfluskræl, korn, kjarnfóður og vatn. Þessum efnum sér svo hinn sjálfkeyrandi fóðurblandari um að blanda vel saman og svo ekur hann einfaldlega út á fóðurgang og gefur nautunum alsjálfvirkt og án aðkomu mannshandar. Kerfið keyrir svo allan sólarhringinn, á fjögurra tíma fresti.
Slátrar þegar nautin eru 8–900 kg
Þegar nautin hafa náð nægum vexti, þ.e. tilskildum þunga, sendir hann þau í sláturhús í nokkrum sendingum og slátrar út úr hópnum á 2–3 mánuðum. Í árslok er fjósið orðið tómt á ný og þá er allt hreinsað í hólf og gólf, sótthreinsað og svo settur inn nýr hálmur og byrjað upp á nýtt með 300 ársgömul naut í byrjun næsta árs. Christoph sagðist miða við að senda nautin frá sér þegar þau ná 8–900 kg þunga á fæti en þá er meðalfallið, um 480– 540 kg, að leggja sig á um 2.800 evrur, eða um 410.000 íslenskar krónur. Aðspurður um það hvort þetta væri góður rekstur þá sagði hann það svo vera, sérstaklega með rafmagnsframleiðsluna sem viðbótarbúgrein.
Rafmagnsframleiðslan óhemju mikilvæg
Eins og áður segir er mokað frá nautunum tvisvar í viku og fer þá hálmblandaður skíturinn í sérstakan tank þar sem honum er blandað við svínaskítinn sem fellur til af hinni framleiðslu búsins. Þetta eru tvö megin hráefnin til hauggasframleiðslunnar og telur um 80% af hráefninu sem þarf til framleiðslunnar. Síðustu 20% eru svo maísvothey sem hann blandar saman við, en það er nauðsynlegt til að fá rétt orkustig í hráefnið sem á að afgasa. Út úr þessu öllu fær hann að jafnaði mikið af gasi sem er svo notað til að knýja rafal sem hann svo selur rafmagnið úr út á netið.
Fyrir hverja kílówattstund fær hann 25 evrusent, eða um 37 íslenskar krónur, og er skýringin á þessu háa orkuverði hinn innri markaður Evrópu, þar sem græn orka er gríðarlega eftirsóknarverð og sér í lagi eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu með tilheyrandi áhrifum á snarminnkandi kaup Evrópulanda á rússnesku gasi. Aðspurður um kostnaðinn við að setja upp hauggasvinnsluna og rafalinn sagði hann að ef þetta væri byggt í dag myndi kostnaðurinn við fjárfestinguna líklega vera um 5 milljónir evra, um 890 milljónir íslenskra króna. Þó svo að það sé vissulega mikil fjárfesting sagði hann að endugreiðslutíminn væri innan við 5 ár, svo þetta væri afar góð búgrein og raunar sú sem skilaði mestum hagnaði þegar allt væri talið.