Hryssur með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi 2024
Alls hlutu fjórtán hryssur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á árinu en til að hljóta verðlaunin þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins eða aðaleinkunn án skeiðs.
Hérna fyrir neðan má lesa um þær hryssur sem náðu þessum merka áfanga á árinu, aðaleinkunnþeirra í kynbótamatinu, ásamt umsögn um
afkvæmin. Þar sem hryssur er jafnar að stigum voru það aukastafir sem skildu þær að.
Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu – 120 stig
Faðir: Gári frá Auðsholtshjáleigu
Móðir: Trú frá Auðsholtshjáleigu
Umsögn um afkvæmi: Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu gefur hross í rúmu meðallagi að stærð, þau eru reist með sterka yfirlínu, hlutfallarétt og myndarleg, með úrvals hófa. Afkvæmin eru fjölhæf á gangi, með virkjamikið skref og góðar hreyfingar en á meðal afkvæmanna er bæði úrvals alhliða gæðingur og úrtöku klárhryssa með tölti. Tíbrá er framúrskarandi ræktunarhryssa, hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.
Prýði frá Auðsholtshjáleigu – 120 stig
Faðir: Kvistur frá Skagaströnd
Móðir: Perla frá Ölvaldsstöðum
Umsögn um afkvæmi: Prýði frá Auðsholtshjáleigu gefur svipfalleg hross með langan og hátt settan háls, jafnan fótahá og hlutfallagóð. Þau eru léttstíg og hágeng, viljug og þjál, alhliða hrossin skeiða fallega og sniðfast og þá er úrvals klárhestur á meðal afkvæmanna. Prýði hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.
Vár frá Auðsholtshjáleigu – 120 stig
Faðir: Spuni frá Miðsitju
Móðir: Vordís frá Auðsholtshjáleigu
Umsögn um afkvæmi: Vár frá Auðsholtshjáleigu gefur skarpleit hross með mjúkan háls og skásetta bóga. Þau eru myndarleg og fótahá með trausta fætur. Afkvæmin eru viljug, rúm og skrefmikil með fallegar hreyfingar og þá er yfirburða gæðingur á meðal afkvæmanna. Vár hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.
Auður frá Hofi – 118 stig
Faðir: Hróður frá Refsstöðum
Móðir: Perla frá Hömluholti
Umsögn um afkvæmi: Auður frá Hofi gefur skarpleit hross, fínleg og fótahá, með sterka baklínu, lendin mætti vera jafnari. Afkvæmin eru hreingeng og framgripsmikil og fara afar vel í reið, reist og hágeng, ein flugvökur hryssa er á meðal afkvæmanna. Auður hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.
Varða frá Vestra-Fíflholti – 118 stig
Faðir: Sær frá Bakkakoti
Móðir: Von frá Vestra-Fífholti
Umsögn um afkvæmi: Varða frá Vestra-Fífholti gefur reist hross og fremur myndarleg með sterka yfirlínu. Þau eru eðlishágeng með mikið gangrými, einkar viljug og þjál; útgeislunarhross sem grípa augað. Varða hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið.
Blæja frá Lýtingsstöðum – 117 stig
Faðir: Djáknar frá Hvammi
Móðir: Björg frá Kirkjubæ
Umsögn um afkvæmi: Blæja frá Lýtingsstöðum gefur svipfalleg hross með hátt settan háls og sterka yfirlínu í baki. Afkvæmin eru léttstíg, takthrein og hágeng klárhross með tölti, þau eru rúm og svifgóð á brokki, teygjugóð á greiðu stökki. Blæja hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og sjötta sætið.
Sunna frá Sauðanesi – 117 stig
Faðir:Glymur frá Innri-Skeljabrekku
Móðir: Minning frá Sauðanesi
Umsögn um afkvæmi: Sunna frá Sauðanesi gefur prýðilega reist hross, hlutfallarétt og yfirleitt myndarleg. Þau eru mjúk og hreingeng, jafnvíg og þjál alhliða hross, úrvals ganghross eru í hópnum. Sunna hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og sjöunda sætið.
Raketta frá Kjarnholtum I – 116 stig
Faðir: Glaður frá Kjarnholtum I
Móðir: Hera frá Kjarnholtum I
Umsögn um afkvæmi: Raketta frá Kjarnholtum 1 gefur afar svipgóð hross, með reistan og fínlegan háls og góða fótahæð. Þau eru skrokkmjúk og léttstíg með fallegar hreyfingar og afbragðs tölt en hrein úrvals hross eru á meðal afkvæmanna. Raketta hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og áttunda sætið.
Þórdís frá Leirulæk – 116 stig
Faðir: Ófeigur frá Þorláksstöðum
Móðir: Daladís frá Leirulæk
Umsögn um afkvæmi: Þórdís frá Leirulæk gefur hross með reistan og vel settan háls, sterka yfirlínu og öfluga lend; fótahá og gerðarleg. Þau búa yfir frábærri ganghæfni, mikilli skreflengd, háum hreyfingum og úrvalsgóðu tölti. Þórdís hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og níunda sætið.
Hvellhetta frá Ásmundarstöðum – 116 stig
Faðir: Adam frá Ásmundarstöðum
Móðir: Eva frá Ásmundarstöðum
Umsögn um afkvæmi: Hvellhetta frá Ásmundarstöðum gefur stór og myndarleg hross með langan og reistan háls. Þau eru sköruleg í framgöngu, rúm og skrefmikil með góðan fótaburð. Hvellhetta hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og tíunda sætið.
Nýey frá Feti – 115 stig
Faðir: Orri frá Þúfu í Landeyjum
Móðir: Smáey frá Feti
Umsögn um afkvæmi: Nýey frá Feti gefur stólpamyndarleg hross; reist, lofthá og jafnvægisgóð. Þau eru jafnvíg á gangi með virkjamikið skref, jafnlynd og viljug. Nýey er rakin undaneldishryssa, hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og ellefta sætið.
Ópera frá Nýjabæ – 115 stig
Faðir: Hugi frá Hafsteinsstöðum
Móðir: Fiðla frá Nýjabæ
Umsögn um afkvæmi: Ópera frá Nýjabæ gefur reist, framfalleg og afar fríð hross, með breitt bak, góða fótahæð og sívalan bol. Þau eru mjúk og létt í hreyfingum, með háan fótaburð og mikla útgeislun. Þau eru fljót til, næm og glöð í lund. Ópera hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og tólfta sætið.
Heiðdís frá Hólabaki – 112 stig
Faðir: Rökkvi frá Hárlaugsstöðum
Móðir: Dreyra frá Hólabaki
Umsögn um afkvæmi: Heiðdís frá Hólabaki gefur stórmyndarleg hross, jafnvægisgóð og fótahá. Þau eru hreingeng, skrefmikil með háar hreyfingar og léttan vilja. Heiðdís gefur ótvíræða gæðingskosti, hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þrettánda sætið.
Lilja frá Kirkjubæ – 108 stig
Faðir: Hrynjandi frá Hrepphólum
Móðir: Leista frá Kirkjubæ
Umsögn um afkvæmi: Lilja frá Kirkjubæ gefur svipgóð hross, þurrbyggð og langvaxinn með grannan háls. Þau eru léttleikandi klárhross með tölti, svifmikil á brokki, reist og hágeng og fara afar fallega i reið. Lilja hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórtánda sætið.