„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands og er „íslenskt lambakjöt“ þar með orðið verndað afurðaheiti í Bretlandi.
Þetta var samþykkt á fundi sameiginlegrar nefndar fríverslunarsamnings EES EFTA- ríkjanna við Bretland. Með viðurkenningunni verður hægt að vísa sérstaklega til íslensks uppruna vörunnar þegar lambakjötið er selt á breskum markaði.
Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsskrifstofunnar Icelandic lamb, segir að í þessu felist ekki stór tíðindi í sjálfu sér til skamms tíma litið þar sem takmarkað magn lambakjöts sé til útflutnings. „Þetta skref er eðlilegt framhald af staðfestingu ESB á skráningunni í fyrra þar sem hún rúllar áfram til meðferðar í gegnum stjórnsýsluna hjá þeim þjóðum sem eru eins og við með gagnkvæman samning við ESB um vernduð afurðaheiti.“
Hann segir hins vegar rétt að árétta að vernd afurðaheita skili merktum afurðum að meðaltali ríflega tvöföldu útsöluverði gagnvart staðgönguvörum í Evrópu. „Svo að hér er um dýrmætt skref að ræða og full ástæða til að hvetja fleiri íslenska framleiðendur til að leita leiða til að vernda sínar afurðir í gegnum kerfi verndaðra afurðaheita. Má þar nefna hin íslensku búfjárkynin og afurðir þeirra svo dæmi sé tekið,“ segir Hafliði og minnir á að enn séu lausir endar innan íslenskrar stjórnsýslu sem hamli fullri notkun á verndinni hérlendis.
Fríverslunarsamningur EES EFTA-ríkjanna, það er Íslands, Lichtenstein og Noregs, við Bretland hefur verið virkur frá árinu 2022 og miðar að því að tryggja náin viðskiptatengsl samningsaðila í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu, en Bretland er meðal stærstu viðskiptalanda Íslands.