Strengdir þú nýársheit?
Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um heim að strengja nýársheit þótt tölur sýni að sjaldnast gangi þau eftir.
Sagan segir okkur að hér áður fyrr hafi Júlíus Sesar keisari kynnt júlíanska tímatalið árið 46 f.Kr. og lýst því yfir að 1. janúar væri upphaf nýs árs. Þessi nýja dagsetning var til að heiðra rómverska guðinn Janus, sem er þekktur fyrir að hafa tvö andlit, annað sem lítur aftur á bak á meðan hitt horfir fram.
Líkt og á við um upphaf og endi, dauða og líf, liðinn tíma og nýtt ár. Janus var akkúrat einnig verndari hurða, bogaganga, þröskulda og umbreytinga, sem allt eru myndlíking nýs upphafs. Við áramót er því nýtt upphaf vel við hæfi.
Hversu vel hinum almenna borgara tekst nú til með það er önnur saga. Babýlóníumenn lofuðu guði sínum hollustu, lofuðu að koma vel fram við náunga sinn og þar fram eftir götunum og trúðu að ef þeir stæðu við sitt þá myndi þeim vel farnast. Á miðöldum var móðins hjá riddurum að leggja hendur sínar á lifandi eða steiktan páfugl og þannig endurnýja heit sín um riddaraskap, en ekki hefur komið fram hvernig kvenfólki þess tíma farnaðist með sín heit eða hvort þær skyldu leggja hendur sínar á eitthvað matarkyns.
Í byrjun 19. aldar var sú hefð að strengja, og standa ekki við, áramótaheit nógu algeng til að birt var háðsádeila í dagblöðum New York-borgar og í dag segja blöð þeirrar borgar að fólk verði að vera raunsætt og virkilega langa að breyta um venjur. Flestir skrifi þó niður eitthvað sem hljómi vel og stingi svo miðanum ofan í skúffu. Einnig hafi komið í ljós að af þeim fjölda sem ætlar sér að bæta um betur á nýju ári séu einungis átta prósent sem nái tilætluðum árangri.
En hvað er það nú sem fólk flaskar á? Flestir eru á því að betrumbæta sig á einhvern hátt, gera betur almennt við fólkið í kringum sig eða láta af slæmum siðum.
Miðillinn Inc. birti ekki fyrir löngu niðurstöðu könnunar á meðal 2.000 manns þar sem greint er frá því hvaða nýársheit fólk setur sér helst.
Þau eru eftirfarandi:
- Heilsusamlegra mataræði 71%
- Líkamsrækt 65%
- Megrun 54%
- Spara 32%
- Nýtt áhugamál 26%
- Hætta að reykja 21%
- Lesa meira 17%
- Skipta um vinnu 16%
- Minnka áfengisneyslu 15%
- Eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum 13%
Á meðan sláandi tölur sýna að fæstum takist að standa við heit sín er þó til undantekning frá reglunni. Aðspurður segir Magnús Gísli Eyjólfsson að hann standi iðulega við þau heit sem hann strengi, þótt hann geri það ekki endilega ár hvert.
„Ég gerði til dæmis lista árið 2018 þar sem ég áætlaði meðal annars að ná árangri í líkamsrækt, veiða meira með dætrum mínum og safna skeggi. Það gekk svona ljómandi vel,“ segir hann ánægður. Í ár sér hann fyrir sér að huga enn betur að heilsunni og gæta þess að hreyfa sig flesta daga enda leyndardómurinn að ætla sér ekki um of, taka lítil skref og sjá hvað helst eftir sextíu daga – sem er um það bil sá tími sem þarf til að festa nýja hegðan.
Þá er bara spurningin hvort almenningur taki Magnús sér til fyrirmyndar eða stingi heitum sínum ofan í skúffu. Háleitur ásetningur í upphafi árs getur auðvitað kitlað markmiðaegóið allhressilega, sérstaklega þegar keppnisskapið lætur kræla á sér. Það þarf því að athuga að taka nýársheitin ekki svo alvarlega að þau klárist um miðjan júlí og drabbist svo niður í sama farið og áður fyrir næstu áramót.