Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára
Á vef Samgöngustofu má sjá að 127 nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru nýskráðar á árinu 2024.
Í sama ökutækisflokki voru 610 ný bensínknúin farartæki sem má gera ráð fyrir að séu fjórhjól eða sérhæfðir vinnubílar. Þetta er smávægileg fækkun milli ára, en á árinu 2023 voru 152 nýjar dísilknúnar dráttarvélar fluttar til landsins. Í sama flokki voru 78 notaðar dísilknúnar dráttarvélar nýskráðar í fyrra, sem er fækkun um eina frá árinu 2023.
Flestar nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru af tegundinni Solis, eða 25 eintök. Þetta er indverskt vörumerki sem hefur náð góðum árangri í sölu smátraktora og verið söluhæst hér á landi frá árinu 2020. Þar á eftir kom finnska vörumerkið Valtra með fjórtán eintök nýskráð og hið alþjóðlega vörumerki Massey Ferguson með tólf traktora. Þegar kom að nýskráningu notaðra dráttarvéla var Massey Ferguson með stærstu markaðshlutdeild, eða nítján ökutæki skráð. Þar á eftir kom Fendt með sextán eintök og Case IH með níu eintök. Nánari tölfræði má sjá á meðfylgjandi töflum.