Mykjubras og menntun
Bóndinn 10. janúar 2025

Mykjubras og menntun

Næstu daga geta lesendur kynnst búskapnum á Hvanneyrarbúinu á Instagram Bændablaðsins. Það er rekið í þágu kennslu og rannsóknarstarfa Landbúnaðarháskóla Íslands. Egill Gunnarsson bústjóri fær orðið.

Býli? Hvanneyrarbúið ehf; Fjós á Hvanneyri, fjárhús á Hesti, nýting jarðanna Hvanneyrar, Hests, Mið-Fossa, Mávahlíðar og Kvígsstaða.

Ábúendur? Þetta er nú ekki beint fjölskyldubú en eftir- farandi starfsmenn eru: Egill Gunnarsson bústjóri, Björn Ingi Ólafsson, fjósameistari á Hvanneyri, Heiðar Árni Baldursson, fjármeistari á Hesti, Vildís Þrá Jónsdóttir, bústarfsmaður og aðstoðarmaður rannsókna og kötturinn Dímon. Hjúskaparstaða okkar og hagir eru ýmiss konar.

Stærð jarðar? Hvanneyri 745 ha, ræktað land um 80 ha og flæðiengjar sem eru slegnar um 30. Hestur 821 ha, ræktað land 72 ha. Mávahlíð 443 ha, ræktað land 23 ha. Kvígsstaðir 404 ha, ræktað land um 20 ha. Mið-Fossar, ræktað land um 60 ha.

Gerð bús? Tilgangur Hvanneyrarbúsins ehf. er að reka á hagkvæman hátt kúabú og sauðfjárbú í þágu kennslu og rannsóknarstarfs Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Félagið á að skapa aðstöðu fyrir nemendur og starfsmenn LbhÍ og samstarfsaðila þeirra til fræðslu og rannsókna sem tengjast nautgriparækt, sauðfjárrækt, jarðrækt, auðlindanýtingu og umhverfisvernd.

Fjöldi búfjár? Á Hesti eru um 450 fullorðnar ær, 150 gimbrar og 20 hrútar. Á Hvanneyri eru um 160 lifandi gripir, þar af 63 mjólkandi kýr og 11 geldkýr. Restin eru kvígur í uppeldi.

Hvers vegna eru þessar búgreinar valdar? Stjórn Hvanneyrarbúsins ehf. ákveður það í samráði við eiganda búsins sem er LbhÍ. Búreksturinn miðar við þarfir skólans í kennslu og rannsóknir.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Forgangur fer að eiga við óvæntasta atvik dagsins og reyna svo að glíma við það sem var upphaflega á dagskránni. Í dag var það biluð og frosin haugdæla í fjósi og fjármeistarinn er með flensu. Annars hefst venjulegur dagur að vetri til á gegningum í gripahúsum. Kennsla eða fyrirlestur einhvern tímann yfir daginn í búfjárbyggingum eða úti í felti, stundum er gögnum safnað fyrir einhverja rannsókn, og á kvöldin eru gegningar aftur og jafnvel líka kennsla. Síðan er alltaf bakvakt á gripahúsin, auk þess að sinna þrifum, tiltekt, gera skýrslur og áætlanir, sinna viðhaldi, raka kýr, rýja kindur, vigta kindur o.s.frv. Bústjóri sinnir einnig samskiptum við kennara og starfsmenn LbhÍ, auk þeirra sem þjónusta búið. Þegar fer að vora fara jarðræktarverkefnin í forgang, og svo um eða fyrir miðjan júní er hugur og hönd við heyskap – stundum meira að segja fram í nóvember (mæli ekki með því).

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Að slá fyrstu stráin á sumrin, taka á móti fyrstu nemendum vetrarins eða kveðja þá sem útskrifast að vori. Leiðinlegast er eitthvert andskotans mykjubras, eins og bilaðar sköfur eða föst haugdæla.

Hvernig er að búa í dreifbýli? Við erum öll úr það mikilli sveit að okkur finnst Hvanneyri vera þéttbýli. Annars er það bara mjög gott, stutt í náttúruna og svona.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Þessi blanda að vera í verklegum störfum en þurfa stundum að brjóta hausinn yfir hjarðforritum og excel-skjölum. Að vera í nánum tengslum við náttúruna og dýrin en vera meðvitaður um að framleiða heilnæm matvæli á hagkvæman hátt fyrir almenning.

Hverjar eru áskoranirnar? Þær eru endalausar. Það eru óteljandi áskoranir við búrekstur sem hefur það að markmiði að mennta framtíðarbændur, sinna rannsóknum en á samt að skila mjög góðum afurðum til að standa undir hagkvæmum rekstri og vera til fyrirmyndir í umgengni og árangri á landsvísu.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn þinn hagkvæmari? Sennilega að hætta að fara eftir kjarasamningum, en það er varla val um það. Betri nýting tækja og aðfanga, meiri notkun á verktökum í stærri verk. Auka hlut mjólkurframleiðslunnar í rekstrinum. Auka meðalafurðir á hvern grip á Hesti og Hvanneyri. Sníða landnot eftir vexti, í flestum árum þarf ekki að slá allt það flæmi sem liggur undir.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Búum mun halda áfram að fækka og þau stækka, meðalafurðir aukast. Vonandi verða sauðfjárbændur enn nægilega margir til að geta staðið áfram í sameiginlegum verkefnum, s.s. fjallheimtum. Í mjólkurframleiðslunni verða þau vonandi nógu stór til að standa undir afkomu 2–3 aðila eða fjölskyldna að heild eða hluta til. Við bindum miklar vonir við aukna kornræktarmenningu, hér verði samlag eða samlög hliðstæð þeim sem eru erlendis og það verði til stétt sérhæfðari jarðræktarbænda.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það er svo fyndið að maður man yfirleitt neyðarlegustu atvikin. Gott dæmi er þegar við plægðum með venjulegum teigplóg (20 cm vinnsludýpt) í sundur stofnrafmagnslögnina sem veitir rafmagni á Hvanneyri og Borgarnes. Svo var einn vordagur 2023 að Bjössi fjósameistari hafði skroppið frá, en á meðan tókst vinnumanni að kaffesta dráttarvélina með fullan áburðardreifa (2 tonn) á sama tíma og loftpressan fyrir mjaltaþjóninn í fjósinu hrundi. Það þurfti að handmoka áburðinum í kör dálítið frá, því engin þung vél komst nálægt án þess að festa sig. Þjónustuaðili fór til Reykjavíkur að nálgast loftpressu en lenti í umferðarteppu m.a.vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem var haldinn í Hörpu sama dag. Loftpressan kom því ekki samdægurs en hálfónýtri loftpressu skítreddað til að knýja mjaltaþjóninn fram á næsta dag. Maður man reyndar ekki endilega neyðarlegustu atvikin bara af því hvað þau voru erfið, vandræðaleg eða leiðinleg, heldur af því maður tókst á við þau, sigraði þau og það leystist úr þeim farsællega.

Það hafa líka verið jákvæð atvik. Til dæmis að hafa tekið á móti viðurkenningum fyrir góðan árangur og það var eftirminnilegt þegar haugtankurinn var tekinn í notkun 2018. Það var mikil framför að þurfa ekki að keyra út mykju úr ónýtum haugpoka á 1–2 mánaða fresti.

„Gott dæmi er þegar við plægðum með venjulegum teig- plóg (20 cm vinnsludýpt) í sundur stofnrafmagnslögnina sem veitir rafmagni á Hvanneyri og Borgarnes.“

Endalok haugpokans. Á Facebook-síðu Hvanneyrarbúsins má sjá myndir sem rekja ferlið, en í stað hans var byggð ný hauggeymsla úr forsteyptum einingum.
Mykjubras og menntun
Bóndinn 10. janúar 2025

Mykjubras og menntun

Næstu daga geta lesendur kynnst búskapnum á Hvanneyrarbúinu á Instagram Bændabla...

Á kafi í hrossarækt
Bóndinn 20. desember 2024

Á kafi í hrossarækt

Þau Hannes og Ástríður á Ási 2 víla ekki margt fyrir sér. Húsdýrin, sem eru allt...

Þegar kýrhausar komu saman
Bóndinn 6. desember 2024

Þegar kýrhausar komu saman

Á Syðri-Hömrum 3 í Ásahrepp gengur búskapurinn sinn vanagang og hefur húsfreyjan...

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...