Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Það er nóg að gera í stórri ræktun og er grænmetið keyrt til Reykjavíkur þrjá daga vikunnar þar sem því er dreift á veitingastaði og í verslanir.
Það er nóg að gera í stórri ræktun og er grænmetið keyrt til Reykjavíkur þrjá daga vikunnar þar sem því er dreift á veitingastaði og í verslanir.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 7. febrúar 2025

Sól í hjarta, sól í sinni

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, eigandi Sólskins grænmetis, hefur í mörgu að snúast, en hefur þó augun opin fyrir álitlegu mannsefni. Verður hægt að fylgjast með annríki hennar sem garðyrkjubónda á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Halla Sif með fangið fullt af girnilegu grænmeti.

Býli? Sólskins grænmeti rekur tvær garðyrkjustöðvar í Hrunamannahreppi, eða við Flúðir, og þær eru staðsettar á Melum og Hverabakka.

Fjölskyldustærð (og gæludýr)? Ég er enn bara í virkri leit að einhverjum skemmtilegum manni og líka sætum hundi sem nenna að skottast í kringum mig á daginn. Mættu reyndar alveg koma saman í pakka.

Stærð jarðar? Garðyrkjustöðvarnar tvær eru samtals tæpur hektari að stærð og svo höfum við leigt ræktunarland undir útiræktun á grænmeti.

Gerð bús? Í garðyrkjustöðinni á Hverabakka ræktum við tvær gerðir af smátómötum sem eru Sólskinstómatarnir okkar og svo svaka sætir og bragðgóðir kirsuberjatómatar sem við seljum undir nafninu smátómatar. Á Melum erum við líka með tómata og svo bæði stórar og litlar gúrkur. Þar að auki leynist á báðum stöðum alls konar skemmtilegt. Margar gerðir af tómötum, eggaldin, paprikur og kryddjurtir. Við rekum litla verslun og kaffihús sem heitir Sólskinsbúðin og getum því ræktað alls konar skemmtilegt í litlu magni og selt beint frá okkur á staðnum.

Hvers vegna velur þú þessa búgrein? Það er svo mikil stemning að setja niður fræ og sjá það svo spíra. Manni líður bara alla daga eins og guði á þriðja degi sköpunarverksins. Þó það sé reyndar eiginlega aldrei hvíldardagur.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Starfsfólk byrjar að mæta til vinnu um kl. 7.00 og vikan fer í tínslu og pökkun auk þess sem ákveðin umhirða plantnanna á sér stað í hverri viku allt árið um kring. Við erum svo sjálf með sendingar á grænmetinu okkar til Reykjavíkur þrjá daga vikunnar þar sem það fer svo í dreifingu til verslana og á veitingastaði. Verslunin okkar á staðnum er svo opin líka alla daga svo það er í ansi mörg horn á líta.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Ég á smá erfitt með að sitja kyrr við tölvu en enda samt oftast á því að eyða meirihluta dagsins þar eða að gaspra í símann þó mér finnist hvort tveggja frekar leiðinlegt. En skemmtilegast er samt klárlega að sjá eitthvað vaxa og dafna fallega í ræktuninni.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Það er virkilega gaman og gefandi að vinna í svona lifandi og kviku umhverfi og sérstaklega því maður finnur fyrir því hvað það er mikil eftirspurn og meðbyr með ræktun á íslensku grænmeti.

Hverjar eru áskoranirnar? Við erum náttúrlega hérna bara að reyna að rækta eitthvert Miðjarðarhafsgrænmeti allt árið um kring þótt við séum rétt við heimskautsbaug í niðamyrkri hluta árs og því fylgja alls konar áskoranir. Hagkvæmara raforkuverð og öruggt aðgengi garðyrkjubænda að raforkunni okkar myndi jafnvel geta stuðlað að því að við gætum nánast bara ræktað hvað sem er miðað við allar þessar auðlindir og orku sem við höfum.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn þinn hagkvæmari? Ég er með langan lista af tækjum og búnaði sem hægt væri að fjárfesta í til að auka þau kíló af hverri grænmetistegund sem við fáum í uppskeru á hvern fermetra. Það væri frábært að hafa svigrúm til að grípa alla möguleikana sem eru til að nýta sem best það rými sem þegar er í gróðurhúsunum til að auka uppskeru og bæta ræktunina. En það er ekki alveg hlaupið að því í núverandi árferði.

Í garðyrkjustöðvunum má finna mikið úrval grænmetis. Til viðbótar rekur Halla ásamt starfsfólki sínu Sólskinsbúðina á Flúðum þar sem seldar eru íslenskar gæðavörur beint frá bónda auk þess sem hægt er að fá sér kaffisopa.

Hvernig sérð þú landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Ég held að í garðyrkjunni munum við mjög hratt sjá aukna vélvæðingu og sjálfvirknivæðingu. Mjög hröð tækniþróun er að eiga sér stað erlendis þar sem erfiðlega gengur að finna vinnuafl og launakostnaður hefur aukist hratt á undanförnum árum. Þannig hefur mikill hvati myndast við að þróa róbóta og tæki til að mæla aðstæður í gróður- húsunum svo hægt sé að fínstilla alls konar þætti í ræktuninni eftir bestu getu. Það væri gaman að sjá þróun í átt að meiri fjölbreytileika í ræktuninni og að íslenska framleiðslan haldist á persónulegri nótum þar sem neytendur geta rakið framleiðsluna auðveldlega til ræktenda sem þeir treysta.

Nýfædd folöld toppurinn
Bóndinn 21. mars 2025

Nýfædd folöld toppurinn

Hrossin eiga hug og hjarta fjölskyldunnar á Nautabúi í Hjaltadal. Geta lesendur ...

Hagræðing í stækkun
Bóndinn 7. mars 2025

Hagræðing í stækkun

Í Köldukinn stendur stór- og glæsibýlið Kvíaból en það var útnefnt fyrirmyndarbú...

Verndum allan landbúnað
Bóndinn 21. febrúar 2025

Verndum allan landbúnað

Nú kynnast lesendur kúabúinu á Sólheimum í Hrunamannahreppi þar sem laxveiðar er...

Sól í hjarta, sól í sinni
Bóndinn 7. febrúar 2025

Sól í hjarta, sól í sinni

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, eigandi Sólskins grænmetis, hefur í mörgu að ...

Samstaða skiptir máli
Bóndinn 27. janúar 2025

Samstaða skiptir máli

Hjónin Rósa Birna Þorvaldsdóttir og Þór Jónsteinsson reka hrossaræktar- og sauðf...

Mykjubras og menntun
Bóndinn 10. janúar 2025

Mykjubras og menntun

Næstu daga geta lesendur kynnst búskapnum á Hvanneyrarbúinu á Instagram Bændabla...

Á kafi í hrossarækt
Bóndinn 20. desember 2024

Á kafi í hrossarækt

Þau Hannes og Ástríður á Ási 2 víla ekki margt fyrir sér. Húsdýrin, sem eru allt...

Þegar kýrhausar komu saman
Bóndinn 6. desember 2024

Þegar kýrhausar komu saman

Á Syðri-Hömrum 3 í Ásahrepp gengur búskapurinn sinn vanagang og hefur húsfreyjan...