Ófalinn fjársjóður
Falinn fjársjóður hefur alla tíð haft mikið aðdráttarafl. Ekki bara í ævintýrabókunum fyrir unga krakka heldur líka í raunveruleikanum og þá ekki síst í heimi okkar fullorðna fólksins. Alls kyns ofurhugar og auðkýfingar leggja á sig mikið erfiði við að finna dýrgripina og oft er miklu til kostað svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Bændasamtökin eiga að mínu viti einn svona fjársjóð. Hann er hins vegar langt í frá falinn. Eiginlega eins „ófalinn“ eins og frekast er unnt. Hann er alla daga fyrir allra augum og við umgöngumst hann sem álíka sjálfsagðan hlut og mjólkina í búðinni. Munurinn er samt sá að hann kostar ekki krónu. Þú bara tekur hann með þér og flettir, skoðar og lest þegar þér hentar. Og í þessu tilfelli er reglan sú að því fleiri sem seilast í sjóðinn því stærri verður hann. Félagar í Bændasamtökunum fá sinn skerf af verðmætunum heimsendan á hálfsmánaðarfresti og fjölmargir notfæra sér þann lúxus að fá fjársjóðshlutdeild sína í póstkassann gegn póstburðar- gjaldinu einu saman.
Jú, mikið rétt. Ég er auðvitað að tala um Bændablaðið sem þú, lesandi góður, ert einmitt að glugga í þessa stundina. Tilefni þess að ég geri blaðið að umtalsefni er að á þessu ári, nánar tiltekið í mars næstkomandi, verða 30 ár liðin frá því Bændasamtökin keyptu nafnið og útgáfuréttinn af ungum bændavinum sem rutt höfðu brautina af miklum hugsjónaeldi um nokkurra ára skeið.
Það eru ekki lítil verðmæti í því fólgin fyrir Bændasamtökin að eiga þennan fjársjóð – þetta öfluga málgagn sem um þessar mundir kemur út í ríflega þrjátíu þúsund eintökum og virðist samkvæmt fjölmiðlakönnunum „étið upp til agna“ ef svo má að orði komast. Að meðaltali eru margir lesendur um hvert tölublað. Blaðið keppir ekki lengur við marga prentmiðla um hylli lesenda. Hér áður fyrr stóð það hins vegar af sér samkeppni við önnur fríblöð á borð við Fréttablaðið og fleiri fjölmiðla með glæsibrag.
Og kannski er fjársjóðurinn einmitt fólginn í hylli lesenda. Með því er ég ekki að gera lítið úr því frábæra starfi sem ritstjórar og ritstjórn blaðsins hafa lagt af mörkum við uppbyggingu Bændablaðsins á þessum þremur áratugum. Ég er hins vegar að beina athygli að neytandanum. Fólkinu í landinu sem augljóslega tekur blaðið með sér úr búðinni eða bensínstöðinni vegna þess að því þykir vænt um íslenskan landbúnað og vill fylgjast með honum í gegnum þetta góða málgagn hans.
Við eigum ekki miklar upplýsingar um hvernig blaðið er lesið. Eflaust eru þeir margir sem láta sér nægja að fletta, skoða myndir og helstu fyrirsagnir, lesa myndatextana og kannski eina eða tvær fréttir eða greinar sem fanga athyglina. Sumir segjast reyndar aðallega renna yfir smáauglýsingarnar! Þeir sem eru enn þá áhugasamari ganga lengra og lesa jafnvel pistla formannsins en í allri minni auðmýkt og lítillæti er ég svo sem ekkert að gera ráð fyrir að þeir séu margir. Þú ert samt einn þeirra og mér þykir vænt um það. Svo er auðvitað vonandi að bændur finni sér góða stund á milli stríða og kasti mæðinni með blaðið sitt og mögulega lesgleraugun líka við höndina.
Ég er viss um að önnur samtök atvinnulífsins öfunda okkur mikið af þessum sjálfbæra fjársjóði okkar sem rekur sig réttum megin við strikið enda þótt hann færi samtökunum enga björg í bú í fjárhagslegum skilningi. Og væntanlega má alveg finna á því skýringar að t.d. sjávarútvegurinn, iðnaðurinn, ferðaþjónustan, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins o.s.frv. hafi ekki komið sér upp sambærilegum vettvangi fyrir umfjöllun um stöðu og tækifæri atvinnugreina sinna og keppikefla.
Nærtækasta skýringin er væntanlega sú að þessir aðilar hafi ekki reynt að hasla sér völl með þessu sniði. Og sú næsta er væntanlega að þeir hafi ekki átt eins og bændur svipaða unga brautryðjendur og þá sem réðust í stofnun Bændablaðsins á sínum tíma. Þetta eru fínar skýringar en ég ætla að bæta við þeirri þriðju sem ég er ekki í nokkrum vafa um að á ekki síður rétt á sér. Hún gengur út á það hvað íslenski landbúnaðurinn og um leið íslenskir bændur eiga sterkar rætur í þjóðarsálinni. Til viðbótar kemur svo ást okkar allra á fegurð íslenskrar náttúru. Við þreytumst ekki á því að keyra um landið þvert og endilangt og njóta alls þess sem móðir jörð býður okkur upp á af tignarleik sínum.
Aksturinn um landið, jafnvel þó hann væri bara á milli stóru túristastaðanna, yrði hins vegar lítils virði ef sveitirnar væru ekki grösugar, búpeningur á beit, bændur og búalið að störfum, mykjulykt í lofti á stöku stað að vori, messur í kirkjunum, fjárrekstur meðfram vegunum og réttir í fréttunum. Án lífsins í sveitunum yrðu bíltúrarnir jafnvel lítils virði eins og hin erfiða fjallganga Tómasar Guðmundssonar hefði orðið ef landslagið héti ekki neitt.
Íslenskur landbúnaður á stórkostleg sóknarfæri fram undan. Þau verða eflaust áfram rakin og reifuð með reglubundnum hætti í þessari gullkistu okkar, málgagni íslenskra bænda. Sama gildir um mótvindinn sem við glímum svo oft við. Samhliða styrkleikum okkar og tækifærum eru nefnilega bæði ógnanir og veikleikar sem vinna þarf í. Til alls þess eru orð fyrst. Ég er sannfærður um að blaðið hefur haslað sér þann völl að vera m.a. lesið vandlega af stjórnmálmönnum, embættis- mönnum og fjölmiðlafólki. Þess vegna rata efnistökin á stundum með beinum eða óbeinum hætti inn í stærri umræðu.
Það er ekki sjálfgefið að afmælisbarnið, sem vissulega er komið til fulls þroska, haldi þessari sterku stöðu sinni á lesendamarkaðnum um aldur og ævi. Við þurfum að vaka yfir þessum fjársjóði okkar og tryggja það að hann haldi sér síungum og áhugaverðum. Vefur blaðsins, bbl. is, er sömuleiðis orðinn mikilvægur fyrir lestur og umræðu. Hlutur Bændasamtaka Íslands í íslenskri fjölmiðlaflóru er þess vegna bæði stór og sterkur. Það er mikill fjársjóður.