Veglagningin yfir voginn á milli Hríseyjar og Árnaness, þar sem sameiginlegt útfall Hoffellsár og Laxár rennur til sjávar.
Veglagningin yfir voginn á milli Hríseyjar og Árnaness, þar sem sameiginlegt útfall Hoffellsár og Laxár rennur til sjávar.
Mynd / Ásgeir Núpan Ágústsson
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarfljót, á milli bæjanna Hólms í vestri og Dynjanda í austri með brúarsmíði yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá. Fyrir skemmstu bárust tíðindi af miklu vatnstjóni á ræktarlöndum kartöflu- og kornbænda í Nesjum, sem rekja má beint til veglagningarinnar og brúargerðarinnar yfir sameiginlegt útfall Hoffellsár og Laxár.

Forsaga þessarar vegagerðar nær tæplega 20 ár aftur í tímann. Leiðin sem varð loks fyrir valinu er númeruð 3b, samtals 19 kílómetra löng og styttir hringveginn um 12 kílómetra. Markmiðið með gerð vegarins er fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu, stytta vegalengdir og tryggja góðar samgöngur á svæðinu.

Sáði ekki í sína bestu garða

Bræðurnir Hjalti og Eiríkur Egilssynir stunda landbúnað á aðliggjandi landsvæðum við áðurnefnt útfall sem liggur meðfram Árnanesi – og þeir eru að hluta eigendur að – auk þess sem kartöflubændur í Akurnesi eiga þar lönd sem þeir nýta undir kartöflugarða og sem beitilönd fyrir sauðfé og hross.

„Ég hafði strax í vor, fyrir sáningu, samband við eftirlitsmann Vegagerðarinnar með veglagningunni og tilkynnti honum áhyggjur mínar af hárri grunnvatnsstöðu á svæðinu og lélegu útstreymi úr garðlöndum. Ég setti því ekki niður kartöflur í minn besta garð þar sem ég hafði áhyggjur af grunnvatnsstöðunni, en sett var niður korn í þann garð.

Við gátum ekki tekið upp kartöflur í heilum hektara sem verst fór í flóðunum. Auk þess eru að koma fram skemmdir á uppskeru sem samsvara þremur hekturum til viðbótar,“ segir Hjalti.

Hann áætlar að heildartjón bænda geti hlaupið á tugum milljóna.

Voru tilbúnir til að semja um aðra leið

Veglagningin sem um ræðir og brúargerð, liggur yfir voginn á milli Hríseyjar og Árnaness. Byrjað var á þeirri veglagningu síðasta haust, en breiddin á útfallinu í voginum á þessum kafla var um 300 metrar áður en framkvæmdir hófust. Brúin verður 114 metra löng þegar brúargerðinni verður lokið, með vegfyllingum hvort sínum megin við brúna. Þegar tjónið varð var búið að brúa um 20 metra og þurfti verktakinn að rjúfa vegfyllinguna að austanverðu á 40 metra kafla til að bjarga því sem bjargað varð úr ræktun kartöflubændanna á Seljavöllum og í Akurnesi. Hjalti er kartöflubóndi en Eiríkur er kúabóndi sem líka stundar kornrækt og flaut einnig yfir kornakra á hans vegum í áðurnefndu flóði.

„Við vorum alltaf tilbúnir til að semja um aðra leið en Vegagerðin valdi svo sjálf, en þetta er eiginlega dálítið heimamönnum að kenna því þeir vildu ekki fara þá leið,“ segir Hjalti og vísar þar til ákvarðana sveitarfélagsins um valda veglínu. „Þeir voru að reyna að ná í ferðamennina – fá þá nær sér – en við sjáum það núna að þessi vegur er bara stórtjón fyrir byggðarlagið og vistkerfið. Við gáfum aldrei samþykki fyrir þessari leið og því voru löndin okkar tekin eignarnámi sem leggja á veginn um.“

Horft til austurs yfir útfall Bergár, en þar á austurbakkanum er Dilksnes með sína stofnútsæðisræktun. Mynd / Ásgeir Núpan Ágústsson

Fyrst mælt með leið 1

Veghönnunardeild Vegagerðarinnar gaf út drög að tillögum um matsskýrslu vegna vegalagningar um Hornafjarðarfljót í júlí 2006, en slík vegagerð hafði verið til umræðu um nokkurra ára skeið. Í skýrslunni kom fram að á vegáætlun fyrir árið 2008 væri fjárveiting til framkvæmda á þeim vegkafla.

Í drögunum er fyrst stillt fram þremur valkostum; leið 1, leið 2 og leið 3. Í frummatsskýrslu Vegagerðarinnar sem gefin var út í janúar 2008 er mælt með að leið 1 verði farin umfram aðrar leiðir. Réðu þar umhverfisáhrif mestu um, auk þess sem leiðin var einnig talin uppfylla öll markmið um umferðaröryggi og greiðfærni. Þá var sú leið talin verulega hagkvæmari en aðrar leiðir.

Bæjarstjórn vildi leið 3

Á bæjarstjórnarfundi í febrúar árið 2008 er samþykkt eftirfarandi bókun um málið sem bæjarstjórn sendi svo til Skipulagsstofnunar sem athugasemd við frummatsskýrslu Vegagerðarinnar.

„ [...] Stytting vegalengda innan Sveitarfélagsins Hornafjarðar er grundvallaratriði að mati bæjarstjórnar Hornafjarðar. Sú umtalsverða stytting sem verður samfara því að fara leið 3 samanborið við að fara leið 1 er það mikil að bæjarstjórn Hornafjarðar telur að almannahagsmunir liggi við.

[...] Það er því niðurstaða bæjarstjórnar Hornafjarðar að leið 3 í tillögum Vegagerðarinnar sé besti kosturinn af þeim leiðum sem hún leggur til að verði metnar í framkvæmdamati. Ekki síst vegna bætts umferðaröryggis sem og verulegrar styttingar á vegalengdum innan sveitarfélagsins sem leið 3 hefur í för með sér. Niðurstaða bæjarstjórnar Hornafjarðar er því að leið 3 verði fyrir valinu með þeirri breytingu að ekki verði farið út í Skarðsfjörð með veginn,“ segir í bókuninni.

Verðmætri matvælaframleiðslu stefnt í hættu

Sveinn Rúnar Ragnarsson og Ragnheiður Másdóttir reka sauðfjárbú og stunda kartöflubúskap í Akurnesi, ásamt foreldrum Sveins, þeim Ragnari Jónssyni og Ingunni Jónsdóttur. Hann segir að áhrif flóðanna á garðlöndin til skemmri tíma séu ekki komin í ljós.

„Það hefur ekki orðið uppskerubrestur hjá okkur en það munu að öllum líkindum koma fram bleytuskemmdir sem munu hafa áhrif á nýtanlegt uppskerumagn. Til lengri tíma eru áhrifin alvarlegri því nú er svæði sem hefur verið tiltölulega öruggt til ræktunar orðið áhættusamara,“ segir hann.

Spurður almennt út í veglagninguna segir Sveinn að með henni sé verið að stefna verðmætri matvælaframleiðslu í talsverða hættu. „Kartöflurækt í Nesjum fer að stórum hluta fram á bökkum og í grennd við Laxá, Hoffellsá og Bergá. Oft og tíðum í garðlöndum sem eru einn til tvo metra yfir sjárvarmáli. Ástæðan fyrir því að kartöflurækt hefur fest sig í sessi í Nesjum er fyrst og fremst sú að þar hafa skapast aðstæður frá náttúrunnar hendi sem gera ræktunina örugga. Í því felast mikil verðmæti.

Ég óttast það að sum af þessum svæðum geti orðið of áhættusöm til kartöfluræktar og annarrar akuryrkju ef að ekki verður brugðist við og leitað allra leiða til að draga úr flóðahættu vegna nýja vegarins.“

Stofnútsæðisræktun í Dilksnesi

Veglína 3b mun sem fyrr segir liggja yfir á Árnanes og þaðan liggur leiðin yfir votlendi og vatnasvið Bergár og á land sem var í eigu kartöflubændanna í Dilksnesi, áður en Vegagerðin tók það eignarnámi.

Brúin yfir Bergá verður 52 metrar á lengd, auk vegfyllinga, og hefur í sumar verið unnið að undirbúningi fyrir brúargerðina.

„Þetta ógnar auðvitað okkar ræktun og lífsafkomu, en svo hafa þessar framkvæmdir líka svo mikil áhrif á umhverfið. Við finnum strax fyrir neikvæðum áhrifum á fuglalíf og fiskigöngu hér í firðinum hjá okkur,“ segir Finndís Harðardóttir, bóndi í Dilksnesi.

„Við höfum verið í stofnútsæðisræktun hér í um 30 ár, en Bjarni maðurinn minn féll frá í desember á síðasta ári. Synir okkar hafa sýnt kartöfluræktuninni áhuga, svo það er mögulegt að þeir taki við þessu.

Það eru bara þrír bæir í stofnútsæðisræktun á Íslandi – sem gengur út á að rækta sjúkdómafrítt útsæði fyrir íslenska kartöflubændur – og við erum þeir einu sem erum hér á Suðurlandi. Hornafjörður býr auðvitað við þá sérstöðu að vera myglufrítt svæði fram til þessa þegar kemur að kartöfluræktun – og því er þetta mjög dýrmætt svæði,“ segir Finndís.

Mynd úr gróðurhúsinu í Dilksnesi frá því í sumar, en þar er stunduð stofnútsæðisræktun á hreinu kartöfluútsæði fyrir íslenska kartöflubændur.

Einnig áhrif á veðurfar

Hjalti telur að þar sem ákveðið var að vegstæðið yrði svo neðarlega í Hornafirðinum þá séu þeir ekki alltaf öruggir með nægilegt frárennsli frá bestu görðunum þeirra, sem er nauðsynlegt svo þau haldi áfram að teljast góð ræktarlönd.

„Veglagningin mun einnig hafa varanleg áhrif á veðurfar á þessum garðlöndum okkar með kaldara veðurfari. Við höfum notið þess að þarna myndast hagstætt loftslag, en með hærri grunnvatnsstöðu kólnar.

Þessi framkvæmd getur haft varanleg áhrif á þennan landbúnað sem þarna hefur lengi verið stundaður. Við erum fjórir kartöfluframleiðendur eftir þarna og sagan er löng og orðsporið gott. Þetta er kannski eina búgreinin hér á svæðinu sem ekki hefur gefið eftir. Það er af því að hér eru einstaklega góðar aðstæður.

Við erum allir fjórir háðir þessu vatnafari hér. Þetta hefur líka áhrif á þá sem eru hinum megin við útfallið, í Dilksnesi, sem er nú einn þriggja á landinu með stofnútsæðisræktunina fyrir kartöflubændur. Þannig að því þarf líka að halda til haga að þessi veglagning hefur áhrif á fleiri svæðum og á fleiri ræktarlöndum,“ segir Hjalti

Garðarnir á Miðskeri á floti.
Rennur illa úr görðum Miðskers

Fjórði kartöfluframleiðandinn á svæðinu er Miðsker, sem stendur ofar í landinu, á austurbakka Hoffellsár. „Við fundum fyrir því um daginn þegar rigndi mikið að það rann svo illa frá görðunum.

Þarna voru garðar hjá okkur sem voru bara á floti og við þurftum að grípa til þess að framræsa þetta vatn, sem við höfum ekki þurft að gera áður. Það gekk bara alls ekki vel. Garðarnir hafa blotnað í miklu vatnsveðri en þetta er ný saga að sjá þetta svona,“ segir Einar Árni Kristjónsson, bóndi á Miðskeri.

„ÍSTAK fékk að leggja veg í gegnum Skógey, vinnuveg vegna framkvæmdanna, og þar átti að vera ræsi á veginum en það hefur ekki enn orðið. Við sjáum að sá vegur hefur áhrif á vatnafarið hjá okkur og erum ekki í vafa um að vega- og brúargerðin við útfallið í voginum hefur líka áhrif á það hvað það rennur illa úr okkar görðum. Þetta er á nokkrum hekturum hjá okkur og er alvörutjón. Okkur líst illa á ef þetta verður sviðsmyndin til framtíðar.“

Leið 3b kynnt

Í desember 2008 var leiðin 3b kynnt sem ný útfærsla á leið 3 á opnum kynningarfundi. Kom hún í kjölfar óska sveitarfélagsins um tilfærslu leiðar 3 norður fyrir Flóa, utan Skarðsfjarðar sem væri á náttúruminjaskrá, og hins vegar vegna athugasemda frá almenningi um að land sunnar í Skógey væri þurrara en þar sem leið 3 væri áætluð.

Matsskýrsla vegna fyrirhugaðra framkvæmda lá fyrir í apríl 2009 og mun hún hafa borist Skipulagsstofnun í júní það ár. Í henni var einnig gerð grein fyrir leið 3b, að með henni væri dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum miðað við leið 3.

Verulega neikvæð áhrif á umhverfi

Vegagerðin valdi veglínuna 3b svo í raun formlega í samráði við Sveitarfélag Hornafjarðar, sem gert var meðal annars árið 2009 með breytingu á aðalskipulagi Hornafjarðar 1998– 2018. Bæjarstjórn sveitarfélagsins samþykkti svo beiðni Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi 1. desember 2016, eftir að verkefnið hafði farið í gegnum mat Skipulagsstofnunar í ágúst 2009 á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, þar sem metin voru áhrif mismunandi leiða.

Álit Skipulagsstofnunar var að með vali á leiðum 2, 3 og 3b yrðu áhrif á landslag, ásýnd, jarðmyndanir og gróður óhjákvæmilega verulega neikvæð. Hins vegar yrði með vali á leið 1, dregið eins og kostur væri úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdanna og samræmdist því best markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Væru neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 minni en annarra kynntra kosta, auk þess sem sú veglagning leiddi til minnstrar efnistöku úr nærliggjandi námum.

Stofnunin leggur til skilmála um að Vegagerðin eigi samráð, meðal annars við Landgræðslu og Umhverfisstofnun, um endurheimt votlendis vegna framkvæmda.

Leiðarval réðst af markmiðunum

G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, segir að val á leiðinni hafi ráðist af markmiðum framkvæmdarinnar, um bætt umferðaröryggi og greiðfærni – og sú leið sem var valin hafi uppfyllt best þau skilyrði. „Framkvæmdin fór í ferli við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og lauk því með áliti Skipulagsstofnunar árið 2009. Vegagerðin sótti um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins og var það veitt árið 2016 og hófust framkvæmdir í framhaldinu.

Framkvæmdaleyfið var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda, eins og kemur fram í úrskurði 01/2017 í nóvember 2017.

Fjallað er um áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi í matsskýrslum framkvæmdarinnar og er sú saga rakin jafnframt í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnáms vegna framkvæmdarinnar, þar með talið áhrif á ræktarlönd. Verkfræðistofan Vatnaskil fór yfir vatnafræðilegar aðstæður á svæðinu og skilaði hún greinargerð árið 2007.

Verkfræðistofan útbjó meðal annars straumlíkan af svæðinu er tók tillit til fjölda vatnafræðilegra þátta á svæðinu. Niðurstöðurnar voru nýttar sem forsendur við hönnun brúarmannvirkja – lengd og hæð þeirra,“ segir G. Pétur.

Forsendur flóðalíkans

G. Pétur bendir á að matsnefnd eignarnámsbóta hafi jafnframt kallað til hlutlausan matsmann, Snorra Zóphaníasson jarðfræðing, til að fara yfir mál varðandi kartöflurækt og áhrif fyrirhugaðra mannvirkja. Í niðurstöðum hans hafi komið fram að þegar tekið sé tillit til þess að kartöflur séu ræktaðar á sumrin er áhætta sem tekin er á að flóð nái upp á lægstu spildurnar á þeim tíma litlu sem engu meiri vegna vegfyllinganna og brúarinnar. Áhættan væri minni nú en fyrir nokkrum árum vegna landhækkunar.

Hjalti segir hins vegar að þarna sé um alvarlegan misskilning að ræða. Árbotnarnir rísi alveg jafnmikið og landið þannig að árnar verði grynnri. Miðað við staðhæfingar um landhækkun ætti vatnsstaðan að hafa breyst um hálfan metra frá því kartöfluræktun hófst 1972, en hún hafi hins vegar ekki breyst.

Sveinn segir í þessu sambandi mikilvægt að halda því til haga að matsnefnd eignarnámsbóta hafi úrskurðað á þann veg að óvissan um áhrif veglagningarinnar á búrekstur eignarnámsþola og beitiland væri slík að ekki hafi verið unnt að svo stöddu að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og hann hefur krafist. Er vísað til 16. greinar laga um framkvæmd eignarnáms, þar sem segir. „Heimilt er matsnefnd, þótt eignarnámsmati sé lokið, að taka til úrlausnar kröfur um eignarnámsbætur, sem ekki hefur verið fjallað um í matinu, ef krafa kemur fram um það, áður en ár er liðið frá því að þeim framkvæmdum lauk, sem voru tilefni eignarnámsins.

Sama gildir um bótakröfur eignarnámsþola, er stafa af því, að veruleg breyting hefur orðið á bótagrundvelli þeim, sem matsniðurstaða byggist á.“

Mælingar í Fossá í Berufirði til grundvallar

Forsendur fyrir mati á flóðum og tjóni virðast ekki hafa verið alveg traustar. Því eins og fram kemur í matsskýrslu Vegagerðarinnar í apríl 2009, um mat á umhverfisáhrifum verkefnisins, fór ekki fram sjálfstæð rannsókn á mögulegum flóðum úr sameiginlegum árfarvegum Hoffellsár og Laxár, heldur var stuðst við flóðagreiningu á grundvelli vatnshæðarmælis í Fossá í Berufirði. „Fossá er dragá eins og Laxá og engin ástæða til að ætla annað en að áætla megi flóð í Laxá á grundvelli mælinganna frá Fossá,“ segir í svari í skýrslunni við gagnrýni Hjördísar Skírnisdóttur um skort á gögnum.

Þá ber upplýsingum Vegagerðarinnar á hæð kartöflugarðanna á Árnanesi ekki saman við rannsóknir bænda. Í gögnum Vegagerðarinnar segir að þeir séu í 1,5 til 2 metra hæð yfir sjávarmáli en bændur staðhæfa að lægstu garðar þeirra séu aðeins í um eins metra hæð í venjulegu tíðarfari. Slíkur hæðarmunur getur skipt sköpum þegar áhættan er metin af mögulegu tjóni af völdum flóða við bakkana.

Aðferðin ekki fullkomin

G. Pétur segir að meta hafi þurft hönnunarflóð á sínum tíma, áður en búið var að safna rennslismælingum úr Laxá í Nesjum – sem hófust árið 2006. „Ávallt er mikil óvissa við mat á flóðum á vatnasviðum sem ekki hafa verið mæld og takmarkað hægt að gera til að draga úr þeirri óvissu annað en að rennslismæla og gera flóðagreiningu á gögnunum. Vandamálið er að það getur tekið marga áratugi að fá viðunandi gögn til að byggja flóðagreiningu á.

Vegagerðin hefur lengi notast við þá aðferð að meta flóð út frá flóðagreiningum nálægra vatnasviða líkt og í tilfelli Laxár í Nesjum og er sú aðferð vel þekkt. Vegagerðin gerir sér grein fyrir að aðferðin er ekki fullkomin en miðað við þau gögn sem fyrir lágu og þær aðferðir sem almennt voru notaðar til að meta flóð á ómældum vatnasviðum telur Vegagerðin að sú aðferð sem notuð var gefi raunhæfustu myndina.“

Um forsendur mats á hæð kartöflugarðanna segir G. Pétur að þær hafi átt við þegar umhverfismatsskýrslan kom út. Síðan þá hafi nýir garðar verið teknir í notkun og þeir sem liggi lægst hafi komið til árið 2022. Því mótmæla bændur og segja að nánast öll þessi umræddu ræktarlönd hafi verið nýtt um árabil, þó þau hafi ekki öll verið í stöðugri notkun.

Mögulegar endurkröfubætur á verktakann

Þegar G. Pétur er spurður um hvort Vegagerðin hafi ekki brugðist við varúðarorðum bænda vegna vegagerðarinnar, segir hann að ábendingum hafi verið komið á framfæri við verktakann ÍSTAK. „Honum var bent á, þar sem hann hafði þrengt verulega að útrennsli árinnar, að hann yrði að vera tilbúinn að rjúfa fyllingar ef þær aðstæður sköpuðust að þetta ylli flóðum ofan við. Þess ber að geta að það hefur aðeins flætt í þá garða sem nýjastir eru á svæðinu og liggja mjög neðarlega í landinu.

Vegagerðin mun fara ítarlega yfir þetta á næstu vikum og skorast ekki undan ábyrgð í málinu en hún á svo hugsanlega endurkröfu á verktaka, sem verður skoðað. Fyrstu skoðanir á vettvangi með bændum í úttektum, benda til þess að ekki sé um tugmilljóna tjón að ræða, sem betur fer,“ segir G. Pétur.

Hjalti Egilsson á Seljavöllum, ásamt barnabarninu Halldóru Ines.
Hefur gríðarleg áhrif á svæðið í heild

Sem fyrr segir voru bændur tilbúnir til að sætta sig við að vegurinn færi um leið 1 og þá um eignarlönd þeirra ofan við ræktarlöndin. „Við vildum fara þessa leið og vorum tilbúnir til að semja um allar mögulegar útfærslur á henni bara til að koma í veg fyrir að þetta færi ekki hérna niður fyrir því við vissum alveg hvað það myndi kosta okkur ef vatnafarið þar breyttist,“ segir Hjalti.

Leið 3b mun hafa gríðarleg áhrif á svæðið í heild að mati Hjalta. „Það er vaðið yfir mörg lönd þarna, Dilksnes, Hjarðarnes og til að fara beint austur eru brotnir klettar við Álfakirkjuna – gríðarlega fallegar litlar jarðir sem eru algjörlega orðnar verðlausar í dag.

Þá er farið yfir Árnanes, sem er mjög friðsæll staður og utan í Hrafnsey þar sem var æðarvarp. Einungis verptu þar 50 kollur í sumar, en milli 150 og 200 kollur síðastliðið vor.

Þar sem vegurinn sveigir í suður er farið yfir land sem er eiginlega allt ósnortið og mikið votlendi.“

Verðmæt matvælaframleiðslulönd

„Maður er mjög sleginn yfir þessu því þarna er verið að eyðileggja mjög verðmæt matvælaframleiðslulönd.

Þetta fór í gegnum umhverfismat fyrir löngu síðan – og þegar þurfti að virkja framkvæmdaleyfið og halda gildi þess byrjuðu þeir bara á því að sturta nokkrum hlössum hérna árið 2018 því það var á allra vitorði að þetta hefði aldrei komist í gegnum nýtt umhverfismat. Síðan gerðist ekkert í fjögur ár. Er það réttlætanlegt af hálfu opinberra aðila að haga sér með þessum hætti?“ spyr Hjalti.

Hann bætir því við að vel hefði verið hægt að mæta markmiðum verkefnisins með því að fara leið 1.

Styttingin miðað við leið 3b væri einungis undir einum kílómetra á hringveginum en til Hafnar væri hún um þrír til fjórir kílómetrar og það virðist hafa verið aðalatriðið þó leið 1 væri hagkvæmari að flestu öðru leyti, hvað varðar kostnað og áhrif á vistkerfið.

Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Mynd / Skipulagsstofnun
Sveitarfélagið hefur skyldur um eftirfylgni

Álit Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif hringvegar um Hornafjörð er sem fyrr segir orðið fimmtán ára gamalt og segir Ólafur Árnason forstjóri að það hafi verið þeirra aðkoma að málinu. „Það var svo á ábyrgð sveitarfélagsins að taka rökstudda afstöðu til umhverfismatsins, umhverfismatsskýrslu og álits okkar við útgáfu framkvæmdaleyfis – og að framkvæmdin sem veitt er leyfi fyrir sé í samræmi við það sem lýst var í umhverfismatinu.

Sveitarfélagið hefur jafnframt það eftirlitshlutverk að fylgja því eftir að skilyrði sem sett eru, meðal annars á grunni umhverfismats, séu uppfyllt.“

Lítil umræða um skerðingu landbúnaðarlands

Ólafur segir að framkvæmdin hafi verið athyglisverð að mörgu leyti og áhrifaþættir margir. „Á fyrri stigum, þegar matsáætlun var til umfjöllunar, þá kom það fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að skoða ætti fleiri veglínur, meðal annars vegna athugasemda landeigenda. Þessi ákvörðun var kærð af Vegagerðinni til umhverfisráðuneytis og málið fór áfram bæði í héraðsdóm og Hæstarétt. Niðurstaða þessa kæruferlis var að Vegagerðinni væri ekki skylt að skoða aðra valkosti en þá sem hún hefði lagt fram.“

Ólafur bendir á að umfjöllun um skerðingu landbúnaðarlands fari ekki hátt í matsskýrslum, eigi sér til dæmis ekki sérstakan kafla, en í umfjöllun um landnotkun og vatnafar megi þó finna efni um möguleg áhrif á ræktarland meðal annars.

Til dæmis megi í umhverfis­matsskýrslu Vegagerðarinnar finna athugasemdir landeigenda, meðal annar vegna umræddra kartöflugarða og svör Vegagerðarinnar og sérfræðinga þeirra við þessum áhyggjum. Í svörunum komi fram að við hönnun brúaropa og ræsa yrði þess gætt að full vatnsskipti næðist svo að áhrif framkvæmdanna á vatnafar yrðu í lágmarki. Byggt yrði á sjávarfallamælingum og straumlíkani. Kom fram að lág staða kartöflugarða í Nesjum hafi verið höfð í huga þegar þessar mótvægisaðgerðir voru lagðar fram. Fram komi að landris í Hornafirði nemi sjö millimetrum á ári og því fari flóðahættan minnkandi.

Umfjöllun um landbúnaðarland hefði orðið skarpari

Að sögn Ólafs er eðlilegt að sveitarfélagið sem leyfisveitandi, knýi á um að Vegagerðin framkvæmi þær mótvægisaðgerðir sem séu boðaðar með fullnægjandi hætti, í samræmi við niðurstöðu umhverfismatsins og þeirra gagna sem lögð voru fram. „Frétt um málið bendir þó til þess að bráðabirgðabrú hafi valdið umræddu flóði og að Vegagerðin ætli að bregðast við þessum skaða – og standi við fyrri niðurstöðu um að ekki sé hætta á flóðum vegna endanlegrar brúar sem hafi miklu stærra brúarop,“ segir hann.

Í nýrri landsskipulagsstefnu er lögð mikil áhersla á vernd landbúnaðarlands. Ólafur efast um að hún hefði komið í veg fyrir að þessi framkvæmd kæmist í gegnum skipulagsferlið. Hann telur þó að stefnan og áherslur í dag um vernd landbúnaðarlands, hefðu líklega haft áhrif á áhersluatriði umhverfismats og val á endanlegum kosti – til dæmis með skarpari umfjöllun um landbúnaðarland.

Hér má sjá legu ræktarlanda miðað við bæði brúarstæðin. Mynd / map.is

Verðmætt vörumerki

Ljóst er að kartöflubændur í Hornafirði telja veglagninguna varanlega ógn við sinn landbúnað. Kartöflurækt í Hornafirði er um margt verðmæt matvælaframleiðsla og vörumerki. Svæðið er myglufrítt og þar er einn af þremur stofnútsæðisræktendum á landinu sem leggja íslenskum kartöflubændum til sjúkdómafrítt útsæði ár hvert.

Kartöflubændurnir leituðu til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins til að vinna álitsgerð um möguleg áhrif af framkvæmdunum á ræktarlöndin. Þar kemur fram að framkvæmdirnar muni auka tíðni flóða yfir og við kartöflugarða. Megi áætla að vegleiðin geti haft neikvæð áhrif á kartöflurækt og annan landbúnað. Mikil óvissa sé um líkur eða tíðni þess að áhrifin muni valda uppskerubresti, uppskerurýrnun eða að uppskerutími verði seinna en ella. Vegleið 3b muni takmarka mjög framtíðarmöguleika á því að taka gott óræktað land til nýtingar.

Telur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins óljóst hversu ofarlega í landinu áhrifanna kunni að gæta, en alls séu 40 hektarar ræktaðir neðan ármótanna og vestan afleggjara í Árnanesi. Sé kartöflurækt mun viðkvæmari fyrir breytingum í umhverfinu en annar hefðbundinn landbúnaður. Geti litlar breytingar rýrt uppskeru svo um muni.

Skylt efni: Vegamál | Vegagerðin

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Skírn í réttum
27. september 2024

Skírn í réttum

Hagur kúabúa vænkast
27. september 2024

Hagur kúabúa vænkast

Orkuskortur mun bíta fleiri en garðyrkjubændur
27. september 2024

Orkuskortur mun bíta fleiri en garðyrkjubændur

Blómlegt býli
27. september 2024

Blómlegt býli

Lífræni dagurinn 2024
27. september 2024

Lífræni dagurinn 2024